Frelsi og velferð
b FRELSI OG VELFERÐ : Kalda stríðið 43 S É R S V I Ð Orsakir að falli Sovétríkjanna Hér á eftir eru taldar upp nokkrar orsakir þess að Sovétríkin leystust upp. Þær má flokka á ólíkan hátt: A Skiptið orsökunum í tvo flokka, innri orsakir (sem snúast um aðstæður innan Sovétríkjanna) og ytri orsakir (um aðstæður utan Sovétríkjanna). Hvort haldið þið að innri eða ytri orsakir hafi skipt meira máli þegar Sovétríkin féllu árið 1991? B Flokkið orsakirnar í djúpstæðar (langvarandi) orsakir og yfirborðslegar, skammvinnar orsakir. Hver haldið þið að hafi verið mikilvægasta skammvinna orsökin? C Skrifið blaðagrein þar sem þið útskýrið fall Sovétríkjanna. Veljið sjálf fyrirsögn hennar. * Vígbúnaðarkapphlaupið og geimferðakapphlaupið kostuðu meira en Sovétríkin höfðu efni á til lengdar. * Stjórn Sovétríkjanna flutti mikil verðmæti frá Rússlandi til annarra sovétlýðvelda til að koma í veg fyrir að þau slitu sig út úr Sovétríkjunum. * Í sumum sovétlýðveldum, til dæmis í Litháen, fór fólk að heimta sjálfstæði. * Á Vesturlöndum var sífellt þrýst á Sovétríkin að koma á lýðræði og virða mannréttindi. * Áætlunarbúskapur kommúnista, þar sem ríkið stjórnaði öllu, var ekki skilvirkur og leiddi til þess að hagvöxtur var miklu minni í Sovétríkjunum en í Bandaríkjunum. * Kalda stríðið olli því að Sovétríkin versluðu lítið við Vesturlönd. Þess vegna komust þau ekki yfir nýjustu tækni til dæmis tölvutækni af fullkomnustu gerð. * Bandaríkjamenn byrjuðu nýjan og umfangsmikinn vígbúnað þegar Ronald Reagan var forseti. * Eftir að Gorbatsjov komst til valda fékk fólk að vita meira en áður um raunverulegt ástand mála í landinu og því leyfðist að gagnrýna stjórnkerfið. * Í Sovétríkjunum drakk of margt fólk of mikið áfengi og það vann of lítið. * Þegar Gorbatsjov hætti að styðja kommúnistastjórnir í öðrum löndum Austur-Evrópu féllu þær hver af annarri. Þessi þróun smitaðist yfir til Sovétríkjanna og þar fór fólk líka að vilja losa sig við stjórn kommúnista.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=