Frelsi og velferð

a FRELSI OG VELFERÐ : Sameining og klofningur í Evrópu 113 Fleiri aðilar og nánari samvinna Samstarfið reyndist vera ábatasamt og fleiri ríki vildu ganga inn í það. Fyrsta útfærslan varð árið 1973 þegar Bretar, Danir og Írar gengu í bandalagið. Á níunda og tíunda tug aldarinnar urðu síðan flest lönd Vestur-Evrópu aðilar að því. Um leið og sambandið stækkaði varð samvinnan innan þess nánari. Meðal annars var stofnaður sjóður um svæðisbundna þróun sem átti að flytja peninga frá ríkustu aðildarlöndunum til þeirra fátækustu. Það hafði mikla þýðingu fyrir þróunina á Spáni, í Portúgal, á Grikklandi og Írlandi. Aðildarríkin unnu líka saman að rannsóknum og umhverfisvernd. Árið 1991 undirrituðu aðildarríkin nýjan samning í Maastricht í Hollandi. Maastricht-samningurinn skuldbatt ríkin til að sjá um að allar vörur og hvers kyns þjónusta flyttist frjálst yfir landamærin. Það merkti meðal annars að ríkin urðu að hafa sömu reglur um margt. Með því urðu stjórnir einstakra ríkja að afsala sér völdum til yfirþjóðlegra stofnana sem tóku ákvarðanir fyrir öll ríkin. Aðildarríkin urðu líka sammála um að vinna saman á fleiri sviðum en hinu efnahagslega, meðal annars um utanríkisstefnu og varnarmál. Maastricht-samningurinn gekk í gildi 1. janúar 1993 og þá skipti Evrópubandalagið (EF) um nafn og varð að Evrópusambandinu (EU). Tveimur árum síðar gengu Svíar, Finnar og Austurríkismenn í sambandið. Þar með náði Evrópusambandið yfir næstum alla Vestur-Evrópu. Ekki fyrr en 1993 komst það til fulls í framkvæmd sem ríkin höfðu komið sér saman um í Rómarsáttmálanum 1957, að fólk, vörur, þjónusta og fjármagn mættu flytjast frjálst yfir landamæri ríkjanna, án tolla eða neins konar hindrana. Gagnvart umheiminum voru settar sameiginlegar tollareglur með sömu ákvæðum um hve háan toll skyldi greiða fyrir hverja vörutegund. Flestar stofnanir Evrópusambandsins hafa aðsetur í Brüssel í Belgíu. Þar er eins konar höfuðborg Evrópusambandsins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=