Flökkuskinna
97 6. kafli – Í fyrsta skipti horfði hún bara beint út í loftið. Í annað skiptið leit hún rétt sem snöggvast á grenitréð, sem sýndist svo lítið úr þessari hæð. „O, svei því,“ sagði amma við sjálfa sig. Svo flýtti hún sér inn, og það leið nokkur tími þar til hún þorði að líta út aftur. Þá stóð hún um stund, lokaði augunum og beygði sig varlega út yfir handriðið. „Ég á að þora það,“ sagði hún. Hún opnaði augun og leit beint niður. Og allt í einu fannst henni hún svífa niður lengra og lengra og lenda á jörðinni langt í burtu. „Húff,“ sagði amma og þaut inn. „Ertu hrædd við eitthvað?“ sagði Áróra. „Nei,“ sagði amma, „en mig langar til að hoppa, þó að ég vilji það ekki.“ „Þú mátt ekki fara þarna út aftur,“ sagði Áróra. „Ef þú þarft að gleypa loft þá skaltu heldur fara inn í herbergið mitt og opna gluggann ofurlítið.“ Sókrates svaf venjulega í Áróru herbergi, en þegar hann var veikur, lá hann inni hjá mömmu og pabba, svo að þau gætu heyrt ef hann fór að gráta. Nú sat hann í rúminu sínu og hróp- aði: „Sokkates þystu.“ Amma fór inn í eldhús og sótti svolítið af appelsínusafa, en þetta gólf var miklu hálla en gólfið heima hjá henni, og hún var að labba um á sokkaleistunum. Fyrr en hana varði lá hún því á gólfinu eins og hún var löng til. Nú var gott að amma var í tveimur peysum, svo hún meiddi sig sama sem ekkert. „Ég braut ekki eitt einasta bein,“ sagði amma. En eftir þetta var hún dálítið varkárari þegar hún gekk um – einkum þegar hún sneri sér við. „Leiðist þér, ef ég fer út dálitla stund?“ sagði Áróra. „Sleðann minn langar að fara út, þú skilur.“ Af hverju bannaði Áróra ömmu að fara aftur út á svalir? Af hverju þurfti amma að fara út á svalir?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=