Flökkuskinna

62 en hann gerir bara grín að því. „Ertu að fara í framhjáhaldið?“ segir hann, eða: „Var mikið hvít- lauksbragð af Lárusi í kvöld?“ Eins og hann er rosalega skotinn í mömmu. En hún er auðvitað líka mjög skotin í honum svo hann þarf sennilega ekki að hafa neinar áhyggjur. Í hléinu buðu afi og amma upp á kók og súkkulaði. Þau voru bæði hæstánægð með sýninguna og amma sagðist ekki hafa hlegið svona í mörg ár. – En hvernig er með hana Sigríði Hagalín? sagði afi allt í einu. – Ég hef ekki séð henni bregða fyrir. – Nei, það ætla ég bara rétt að vona, hnussaði í ömmu. – Hvað hefur þú á móti henni Sigríði, Stína mín? spurði afi hissa. – Ég hef ekkert á móti henni Sigríði en mér þætti verra að sjá hana hérna á sviðinu. – Af hverju? – Af því að hún er löngu dáin, manneskjan! Þetta kom flatt upp á afa. – Aldrei heyrt á þetta minnst, sagði hann dapur í bragði. Amma hristi höfuðið og fór að tala um annað. Næstu mínúturnar var afi úti á þekju og ég fór að hafa áhyggjur af því að þessi síðbúna andlátsfrétt myndi eyðileggja fyrir honum kvöldið. En þegar við vorum aftur sest inn í sal hallaði afi sér að okkur krökkunum og spurði: – Hvað var aftur með hana Sigríði Hagalín? Er hún hætt að leika?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=