Flökkuskinna
59 4. kafli – – Þetta er sú sem fékk Nóbelsverðlaunin, er það ekki? hneggj- aði afi. – Það verður gaman að sjá hana Sigríði mína blessaða Hagalín. Ég hef alltaf verið launskotinn í henni. Við Vala og Benni litum kringlóttum augum hvert á annað. Kræst! – Hann heldur að við séum að fara að horfa á Börn náttúr- unnar, hvíslaði Vala. – Og ruglar saman Nóbel og Óskari, hvíslaði ég á móti. Allar svitaholur mínar voru sprottnar upp á gátt. Alveg var þetta dæmigert fyrir heppni mína í lífinu. Ég sem fer á taugum ef einhver svo mikið sem hóstar í leikhúsi sat nú hér uppi með afa minn sem hélt að hann væri staddur í bíó og öskraði eins og þokulúður yfir salinn. Og allir myndu náttúrlega sjá að hann væri á mínum vegum því að hann sat við hliðina á mér. – Afi minn, við erum ekki í bíó, hvíslaði ég í eyrað á honum. – Nei, hún er ekki ný, ég veit það, drundi í þokulúðrinum. – Við erum ekki í bíó, Benedikt, við erum í leikhúsinu, galaði amma á fullum styrk. Ég sökk niður í sætið, blóðrjóð af skömm, og óskaði þess að ég lægi heima í rúmi með flensu og fjörutíu stiga hita. – Ójá, svaraði afi gamli glaðlega. – Leikhúsið var það stúlkur mínar. Ekki er það nú verra. – Þú manst að við erum að fara að horfa á hana Dísu, sagði amma byrst og hvessti augun á afa eins og hún er farin að gera svo oft upp á síðkastið. – Já, já, það held ég líka góða, sagði afi og kinkaði kolli gal- tómur á svipinn. – Afi minn, ég held að þú ættir að hækka í heyrnartækinu, sagði Benni bróðir blíðlega. Nei, ég held að við ættum að ná í heftiplástur og kefla hann, hugsaði ég örvæntingarfull. Ef þú vilt fá að vita meira um Óskarsverðlaunin og Nóbelsverðlaunin getur þú aflað þér upplýsinga á netinu eða á bókasafninu.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=