Flökkuskinna

41 3. kafli – „Nei, ég gekk á stultum,“ svaraði Snúður. „Það er enginn vandi að komast yfir hvaða kletta og gjár sem fyrir verða ef maður er á stultum. En maður verður að gæta þess að festa þær ekki í sprungunum. Nú, ég drakk teið mitt á svalasta staðnum sem ég fann. Það kraumaði alls staðar og gufustrókarnir risu upp, og hvergi sá ég lifandi veru eða grænt strá. Og skyndilega vaknaði jörðin sem hafði legið og sofið undir hraunbreiðunni. Beint fyrir framan mig opnaðist gígur með þungum drunum, og úr honum gaus rauður eldstrókur og þykkt öskuský.“ „Eldgos!“ skrækti Snabbi, „Hvað gerðir þú?“ „Ég horfði bara á það,“ sagði Snúður. „Það var geysilega fal- legt. Og ég sá fullt af eldöndum sem komu svífandi upp úr jörðinni og flugu um eins og neistar. Að lokum hélst ég ekki lengur við fyrir hita og sóti, svo að ég fór mína leið. Neðst í fjallshlíðinni fann ég smálæk og lagðist á grúfu til að fá mér að drekka. Vatnið var auðvitað heitt, en ekki sjóðandi. Og ég vissi ekki fyrri til en einn af eldöndunum kom fljótandi. Hann hafði dottið í lækinn og var næstum útslokknaður. Höfuðið var enn glóandi en hitt snarkaði og hvæsti, og hann æpti á hjálp af öllum lífs- og sálarkröftum.“ „Og bjargaðirðu honum?“ spurði Snabbi. „Já, já, mér var ekkert í nöp við greyið,“ svaraði Snúður. „En ég brenndi mig á honum. Jæja, ég dró hann í land og smátt og smátt blossaði hann upp aftur. Hann var náttúrlega allshugar feginn og gaf mér gjöf áður en hann flaug aftur burt.“ „Hvað gaf hann þér?“ spurði Snabbi eftirvæntingarfullur. „Flösku af neðanjarðarsólarolíu,“ sagði Snúður. „Eldandarnir bera hana á sig þegar þeir ætla lengst ofan í iður jarðar.“ „Og getur þú vaðið eld ef þú berð þessa olíu á þig?“ spurði Snabbi og augun ætluðu alveg út úr höfðinu á honum af undrun. að vera í nöp við einhvern: að vera illa við einhvern iður: innyfli, (hér) langt ofan í jörðina

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=