Fjölbreyttir kennsluhættir í dönsku

Danska | Fjölbreyttir kennsluhættir í dönsku |© Menntamálastofnun 2021 | 2869 44 RITUN Færniþáttur: Ritun Mikilvægt er að þjálfa ritun í upphafi dönskunámsins því hún festir orðaforða og mál- notkun í sessi og stuðlar að skapandi notkun tungumálsins. Mörgum nemendum reynist erfitt að ná tökum á ritun og því fyrr sem þeir byrja að þjálfa ritun því betra. Mikilvægt er að tengja ritun sem mest þeim orðaforða sem unnið er með í öðrum færniþáttum. Best er að byrja á stuttum og einföldum viðfangsefnum þar sem nemendur skrifa um það sem stendur þeim næst og tengist orðaforða sem búið er að vinna með. Þegar nemendur hafa öðlast meiri færni í ritun er hægt að gera meiri kröfur um m.a. inntak texta, málfar og stafsetningu. Eftir því sem líður á námið þurfa nemendur þó að venjast því að skrifa mismunandi gerðir texta eins og skýrt kemur fram í aðalnámskrá. Oft getur verið gott fyrir nemendur að skrifa bundnar ritunaræfingar, sérstaklega þegar þjálfa þarf tiltekin málfarsleg atriði eða orðasambönd. Einnig er mikilvægt að nemendur finni sjálfir orð til að tjá hugsanir sínar og fái tækifæri til að skrifa frjálst og nota tungu- málið á skapandi hátt. Til að byrja með er æskilegt að beina ekki of mikilli athygli að málfræði heldur leggja frekar áherslu á orðaforða, málfar og innihald textans. Með nýrri tækni hafa samskipti breyst mikið og fólk skrifar mun meira dags daglega en hér áður fyrr. Þessi tíðu skrif eru þó oft mjög stutt, t.d. spurningar og svör, minnisblöð og stutt skilaboð. Nemendur þurfa einnig þjálfun í að skrifa lengri texta, s.s. kynningar og formlega og óformlega texta. Ritun getur verið góð fyrir hugsunarferli nemenda, því margir læra betur það sem þeir skrifa. Þeim gefst meiri tími til að vinna úr upplýsingum og koma þeim í eigin orð, þjálfa sig, gera mistök og leiðrétta sig sjálfir. Áður en nemendur byrja að skrifa er gott að ræða um efnið á dönsku. Þannig er athygli beint að þeim grunnorðaforða sem nemendur þurfa á að halda til að geta skrifað um efnið. Ritun hjá byrjendum Eins og með margt annað þá er það æfingin sem skapar meistarann. Segja má að nem- endur læri að skrifa með því að skrifa. Ekki er æskilegt að leiðrétta allar villur sem byrj- endur gera í ritun. Ritun þarf að: • hefjast í upphafi dönskunámsins. • tengjast orðaforða sem búið er að vinna með. • þjálfa oft og reglulega. • innihalda fjölbreytt ritunarverkefni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=