Fimbulvetur

41 Katrín saug neðri vörina innanverða af pirringi. Blæ tókst að gera lítið úr öllu sem henni þótti mikilfenglegt! Hún þorði samt ekkert að kvarta af ótta við að missa launin að leiðsögn lokinni. „Sýndu mér næst pöddurnar og plönturnar. Ég er forvitin að sjá hvernig þið haldið í ykkur lífinu ofan í þessari holu.“ Katrín hunsaði yfirlætislegan tóninn í rödd stúlkunnar og tók stefnuna möglunarlaust að prótínvinnslunni þar sem pöddur klöktust út í massavís. Hún sýndi henni „hrærivélarnar“, eins og þær voru oftast kallaðar, sem maukuðu fíngerða líkamana þar til úr varð nokkurs konar klístrað deig. Það var síðan hægt að nota í hvers kyns matargerð, með viðbættu hráefni sem var framleitt annars staðar í bænum. „Og ræktið þið í alvörunni ekkert ferskt grænmeti eða ávexti?“ spurði Blær með vorkunnsemi í röddinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=