Fimbulvetur

20 Katrín trúði ekki eigin augum þegar Blær teygði út fingurna og ýtti við berjabauknum svo hann rúllaði niður á gólf. Dísætt lostætið féll niður í rykið og skítinn. Eins og hendi væri veifað var heill hópur af krökkum kominn niður á fjóra fætur og farinn að slást um góðmetið. Bara að kennararnir gætu séð þetta, hugsaði Katrín, en mötuneytið var algjörlega sjálfvirkt, eins og svo margt í skólanum, og engir fullorðnir á staðnum til að skipta sér af. Blær fékk sér annan bita af eplinu á meðan hún dáðist að fjaðrafokinu sem hún hafði orsakað. Svo fleygði hún hálfétnu eplinu beint upp í loftið eins og bolta, viss í sinni sök um að einhver myndi stökkva til og grípa það. Þrír krakkar gerðu tilraun til að ná eplinu. En það var Hraundís, bekkjarsystir Katrínar, sem bar sigur úr býtum og hljóp burt frá hópnum eins og rándýr sem ætlar alls ekki að hleypa öðrum nærri bráðinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=