95 EFTA EFTA er fríverslunarsamtök fjögurra Evrópuríkja, Íslands, Noregs, Liecthenstein og Sviss. Með fríverslunarsamtökum er átt við að ríkin fella niður tolla sín á milli í ákveðnum vöruflokkum. EFTA var stofnað árið 1960 af Bretlandi, Sviss, Austurríki, Portúgal, Svíþjóð, Danmörku og Noregi vegna þess að þau höfðu efasemdir um Evrópusambandið (ESB) og töldu hagsmunum sínum betur borgið utan þess. Síðan hafa fleiri lönd gengið í samtökin og flest stofnríkin aftur úr þeim og inn í ESB. EFTA og ESB eru ólík að því leyti að aðildarríki ESB eru miklu fleiri og þar er samstarfið meira. Stofnanir Evrópusambandsins Framkvæmdastjórnin fer með framkvæmavald í ESB og er skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarríki. Fulltrúarnir þurfa að vera samþykktir af Evrópuþinginu. Markmið stjórnarinnar er að tryggja að sameiginlegi markaðurinn virki eins og til er ætlast og verndi hagsmuni aðildarríkjanna. Ráðherraráðið er ein af höfuðstofnunum ESB og samanstendur af mörgum undirráðum sem fjalla hvert um sitt málefni eins og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðið, umhverfismálaráðið og utanríkismálaráðið. Í hverju ráði fyrir sig sitja viðkomandi ráðherrar allra aðildarríkjanna. Ráðherraráðið fer með löggjafarvald í ESB ásamt Evrópuþinginu. Evrópuþingið er þing Evrópusambandsins þar sem þingmennirnir eru rúmlega 700. Þeir eru kosnir beint af borgurum ESB. Þingið á að gæta hagsmuna íbúa aðildarríkjanna og sjá til þess að sjónarmið sambandsins vegi þyngra en einstakra ríkja þegar mál eru tekin fyrir. Evrópudómstóllinn hefur, eins og aðrar stofnanir ESB, mikilvægu hlutverki að gegna. Hann dæmir ekki fyrir hraðakstur eða morð, heldur ráðleggur hann dómstólum aðildarríkjanna og gætir þess að þau fylgi sáttmálum og lagasetningum ESB. Leiðtogaráðið mótar pólitíska stefnu Evrópusambandsins og er drifkrafturinn í samstarfi aðildarríkjanna. Nokkrum sinnum á ári funda forsetar og/ eða forsætisráðherrar þeirra með formanni framkvæmdastjórnar ESB um mikilvæg pólitísk mál sem þarf að ná samstöðu um. Seðlabanki Evrópu fer með stjórn peningamálastefnu evrusvæðisins og gefur út evrur. Ekki eru öll aðildarríkin með evrumynt. Höfuðstöðvar ESB í Brussel í Belgíu.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=