93 Evrópusambandið – ESB Evrópusambandið (ESB) er stærsta bandalag Evrópuþjóða með höfuðstöðvar í Brussel. Það á rætur sínar að rekja til þess ástands sem ríkti í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina þegar efnahagur álfunnar var illa staddur eftir tvær heimsstyrjaldir. Menn stofnuðu þá efnahagsbandalag sem átti að miða að því að hagsmunir Evrópuþjóða lægju saman og það að vinna gegn einni þjóð innan bandalagsins væri í raun að vinna gegn eigin hagsmunum. Í upphafi var bandalagið einfalt en hefur svo stækkað og orðið flóknara. Það er meðal annars vegna þess að erfitt er að samþætta hagsmuni allra aðildaríkjanna sem eru ólík að sögu, menningu og hefðum. Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag sem þýðir að löndin innan bandalagsins eru eitt markaðssvæði. Fjórfrelsið svokallaða er kjarni sambandsins og fjallar um frjáls viðskipti með vöru og þjónustu, frjálsan flutning fjármagns og sameiginlegan vinnumarkað. Fjórfrelsið hefur leitt til þess að viðskipti hafa aukist og vöruverð lækkað, öllum til hagsbóta. Hvað felst þá í fjórfrelsinu? Frjáls flutningur á vöru þýðir að innan ESB eru ekki lagðir tollar né aðrar hömlur á vörur sem fluttar eru frá einu landi til annars. Þannig er vara sem framleidd er í Frakklandi en seld í Danmörku í raun tollfrjáls. Þetta gildir ekki um þær vörur sem framleiddar eru í löndum utan ESB því þegar varan kemur inn á markaðssvæði sambandsins eru lagðir á hana tollar. Frjáls flutningur þjónustu lýtur í raun sama lögmáli og með vöruna. Þannig má tölvufyrirtæki í einu landi ESB selja þjónustu sína í öðru landi án hindrana. Flutningafyrirtæki getur starfað í fleiru en einu landi og flutt frakt þvers og kruss yfir sambandið án þess að það skipti í raun máli hvaðan þjónustan kom í upphafi. Frjálst flæði fjármagns þýðir að fjárfest er á milli landa innan ESB án nokkurra takmarkana. Þannig getur fjárfestir í Frakklandi keypt fyrirtæki á Spáni og flutt svo arðinn frá fyrirtækinu aftur heim til Frakklands án þess að þurfa að greiða frekari skatt af arðinum en hann hefur þegar gert. Frjálst flæði vinnuafls er heimild allra ríkisborgara Evrópusambandslandanna til að ferðast á milli landa og hafa rétt til vinnu. Þessi hluti fjórfrelsisins tryggir líka réttindi fólks á vinnumarkaði þannig að ef Þjóðverji ákveður að vinna í Hollandi þá gilda um hann sömu réttindi og skyldur og um Hollendinga sem vinna í sínu heimalandi. Þannig á að tryggja aukna möguleika íbúanna til atvinnu og koma í veg fyrir skort eða offramboð á vinnuafli á svæðum sem tilheyra ESB. Meirihluti ríkja Evrópu er í Evrópusambandinu og innan þess býr um hálfur milljarður íbúa. Sambandið Stjörnurnar í fána ESB tákna samstöðu og samkennd meðal þjóða í Evrópusambandinu.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=