4 EVRÓPA Landakort Þegar við ferðumst um yfirborð jarðar sjáum við einungis það sem er næst okkur. Til að átta okkur á stærra svæði og setja hluti í samhengi þurfum við landakort. Frá upphafi hefur maðurinn haft mikla þörf fyrir að rannsaka umhverfi sitt og kortleggja ýmislegt sem skiptir máli. Gömul kort sýna fyrst og fremst þann heim sem menn þekktu á hverjum tíma. Kort, gömul eða ný, eru því myndir af tilteknum stað á ákveðnum tíma, ekki ólíkt ljósmynd. Fyrstu kort eða teikningar má segja að séu hellamyndir sem gefa okkur í dag hugmyndir um lifnaðarhætti, auðlindanýtingu og búsetumynstur svo eitthvað sé nefnt. Núorðið eru landakort mjög nákvæm. Þau eru gerð með hjálp loftmynda og gervitunglamynda. Svo kortin verði sem nákvæmust er þó nauðsynlegt að rannsaka kortlögð fyrirbæri á jörðu niðri. Til eru tvær tegundir korta; staðfræðikort og þemakort. Staðfræðikort sýna landslag, slétt eða fjöllótt (með hæðarlínum eða skyggingum), ár, stöðuvötn, höf o.fl. Þemakort sýna hins vegar afmörkuð viðfangsefni eins og t.d. jarðfræði, gróður, veður, íbúadreifingu o.fl. Fjarkönnun Með hugtakinu fjarkönnun er átt við það þegar menn afla upplýsinga um yfirborð jarðar eða við yfirborð jarðar með flugvélum eða gervitunglum. Fyrstu loftmyndir voru teknar úr loftbelgjum á 19. öld en snemma á þeirri 20. var farið að taka myndir úr flugvélum. Í dag eru loftmyndir grundvallargögn í kortagerð. Þær eru notaðar m.a. til að leita að fornminjum sem ekki sjást á yfirborði lands og til að safna upplýsingum um auðlindir og náttúru. Fyrstu landakortin voru handteiknuð eins og þetta kort. Þekking á kortagerð og nákvæmni var ekki eins og við eigum að venjast í dag sem sést m.a. á útlínum Íslands.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=