Evrópa

48 VESTUR-EVRÓPA Franska byltingin 1789 Á 18. öld var mikil stéttaskipting í Evrópu. Í Frakklandi voru þrjár stéttir. Í fyrstu stétt voru prestar. Í annarri stétt var aðallinn eða yfirstéttin og í þeirri þriðju, þeirri lægst settu, var langfjölmennasti hópurinn, alþýðan; bændur og borgarar. Þriðja stéttin bjó við almennar þrengingar en yfirstéttin við mikil forréttindi. Jarðir bænda voru svo litlar að flestir áttu erfitt með að brauðfæða sig og sína. Á sama tíma þurfti alþýðan að standa skil á sköttum til konungs, greiða landskuld til landeigenda og greiða kirkjunni sína skatta, tíund. Yfirstéttin sem konungur studdi þurfti hins vegar ekki að greiða neina skatta. Þessum miklu álögum og ójöfnuði undu bændur illa. Efnahagur landsins stóð illa vegna kostnaðarsamra styrjalda, uppskerubrests og hárra afborgana af lánum og því skyldi leggja meiri skatta á þriðju stétt. Við þessar aðstæður hafði konungur boðað fulltrúa stéttanna á þing. Þriðja stéttin vildi meira vægi í þinginu og krafðist fleiri fulltrúa, sem gekk ekki eftir. Nú var hinni kúguðu alþýðu nóg boðið og gerði hún byltingu gegn aðlinum. Hinn 14. júlí 1789 réðst múgurinn á Bastilluna, tákn um harðstjórn einveldisins, sem var notuð sem fangelsi, og náðu henni á sitt vald. Einveldi konungs var afnumið og ný stjórnarskrá og lýðræðisumbætur litu dagsins ljós. Áhrifa byltingarinnar gætti um alla Evrópu þar sem yfirstéttir annarra Evrópuríkja voru undir sterkum áhrifum franskrar menningar. Vangaveltur hafa verið uppi meðal loftslagsfræðinga um hvort eldgosið í Lakagígum árið 1783 (Skaftáreldar) hafi bætt gráu ofan á svart í aðdraganda frönsku byltingarinnar. Askan frá gosinu, sem upphaflega barst austur til Evrópu, dreifðist um allt norðurhvel jarðar. Hún olli kólnandi veður- fari og minnkandi uppskeru og kann því að hafa aukið enn frekar á erfitt ástand alþýðunnar. Hvað sem þessu leið er þó ljóst að franska byltingin hafði áhrif á lýðræðisþróun og stjórnarfar um heim allan enda sögð marka upphaf nútíma lýðræðis. Frelsið leiðir fólkið eftir Eugene Delacroix er málverk frá árinu 1830 þegar margar byltingar fyrir frelsi þjóða voru gerðar í Evrópu. Málverkið er táknrænt fyrir baráttu lítilmagnans og er ein þekktasta táknmynd byltinga almennt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=