Evrópa

44 VESTUR-EVRÓPA Þorskastríðin 1952–1975 Þegar mikilvægar auðlindir liggja á mörkum yfirráðasvæða ríkja getur komið til átaka. Bretar stunduðu veiðar við Íslandsstrendur frá því snemma á 15. öld, með hléum, allt fram á miðja 20. öld. Vaxandi eftirspurn eftir fiski, í sístækkandi iðnaðarborgum í Bretlandi, leiddi til aukinnar sjósóknar á Íslandsmið. Með nýrri veiðitækni, botnvörpu, um aldamótin 1900 jókst sjósóknin enn frekar þar sem hægt var að veiða á meira dýpi en áður. Veiðar bresku togaranna skiluðu útgerðum þeirra miklum hagnaði. Frá árinu 1882 var landhelgi Íslands þrjár sjómílur, sem þýddi að engar aðrar þjóðir máttu veiða innan þriggja sjómílna línunnar. Þessu sinntu Bretar illa og veiddu þar sem þeim sýndist svo að Danir, sem þá réðu yfir Íslandi, hertu landhelgisgæsluna. Veiðar bresku togaranna höfðu mikil áhrif á íslenskt samfélag. Menn gerðu sér ljóst hversu mikil auðæfi voru í sjónum. Á þessum tíma var þó engin leið fyrir Íslendinga að koma í veg fyrir veiðarnar. Bretar voru á hátindi heimsveldis síns, réðu yfir heimshöfunum og sömdu reglurnar sjálfir. Vegna ótta við ofveiði og mikla endurnýjun á íslenska fiskiskipaflotanum voru samþykkt lög á Alþingi árið 1948 sem heimiluðu stækkun íslensku landhelginnar. Árið 1952 var hún stækkuð í fjórar sjómílur sem Bretar svöruðu með löndunarbanni íslenskra fiskiskipa í Bretlandi. Við útfærslu landhelginnar í 12 sjómílur árið 1958 sendu Bretar herskip til að vernda togara sína við veiðarnar. Á árunum í kringum 1970 átti sér stað mikil uppbygging í íslenskum sjávarútvegi og árið 1972 var ákveðið að færa landhelgina út í 50 sjómílur. Nauðsynlegt þótti að takmarka veiðar útlendinga svo Íslendingar gætu fyllnýtt auðlind sína. Herskip voru enn send til verndar breskum togurum en nú bjuggu Íslendingar yfir leynivopni, togvíraklippum, sem klipptu veiðarfæri togaranna aftan úr þeim. Árið 1975 var landhelgin færð út í 200 sjómílur. Deilur urðu harðvítugar. Íslendingar kærðu Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, NATO blandaði sér í málið og Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta í skamman tíma. Árið 1982 var hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna undirritaður þar sem gert var ráð fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ríkja. Í þorskastríðunum kom oft til harkalegra átaka á hafi úti þegar breskir dráttarbátar og freigátur hófu ásiglingar á íslensku varðskipin.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=