35 Í Noregi voru fiskveiðar og landbúnaður undirstaða efnahagslífsins fram á 20. öld. Eftir að olían fannst breyttist Noregur í háþróað iðn- og olíuríki, og er iðnaður í dag aðaltekjulind landsins. Norðmenn eru þó enn mikil fiskveiðiþjóð enda alls staðar stutt á gjöful fiskimið. Helstu nytjafiskar eru þorskur, síld, makríll og loðna. Norðmenn standa einnig framar- lega í heiminum í fiskeldi enda aðstæður til þess góðar í lygnum fjörðum landsins. Um 3% lands eru ræktanleg þar sem kvikfjárrækt og akuryrkja er stunduð. Um fjórðungur landsins er vaxinn skógi. Iðnþróunin hefur frá upphafi byggst á nýtingu fallvatna. Helstu iðngreinar eru áburðar- og álframleiðsla, timbur- og pappírsiðnaður, olíutengdur iðnaður og skipasmíðar. Miklar fjarlægðir, há fjöll, djúpir firðir og búseta á hinum mikla fjölda eyja gera samgöngunetið talsvert ólíkt öðrum Norðurlöndum. Lagning járnbrauta og vegagerð hefur verið erfið og hafa ferjusiglingar og flugsamgöngur víða séð um flutninga. Flutningar á sjó eru miklir enda Norðmenn mikil siglingaþjóð, með einn stærsta kaupskipaflota heims. Noregur á landamæri að Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Höf sem liggja að Noregi eru Skagerrak að sunnan, Norðursjór og Noregshaf að vestan og Íshafið að norðan. Noregi tilheyra einnig eyjaklasarnir Jan Mayen í Grænlandshafi og Svalbarði í Norður-Íshafinu. Í dag eru Norðmenn nærri sex milljónir og búa langflestir á láglendinu í suðausturhlutanum við Óslófjörð. Höfuðborg Noregs er Ósló. Aðrar helstu borgir í Noregi eru Stavanger, Bergen, Þrándheimur og Tromsö. Noregur er konungsríki með takmörkuð völd konungs eins og í Danmörku og Svíþjóð. Litið er á konunginn sem sameiningartákn þjóðarinnar. Mikil olía fannst á botni norska landgrunnsins í Norðursjó sem byrjað var að bora eftir upp úr 1970. Olía hefur einnig fundist norður með strönd Noregs og skammt undan Hammerfest í Norður-Noregi eru miklar olíu- og gaslindir á svæði sem kallað er Mjallhvít. Olían hefur verið mikil tekjulind fyrir Norðmenn og gert þá að einni auðugustu þjóð heims. Stavanger er helsta olíuborg Noregs. Jarðgöng í Noregi Hvergi eru fleiri jarðgöng í þjóðvegakerfi eins lands en í Noregi, bæði undir firði og í gegnum fjöll. Lengstu jarðgöngin, Rogfast-göngin, eru 26,7 km löng og liggja undir Boknafjord í Rogalandi. Þetta eru lengstu og dýpstu jarðgöng undir sjó í heiminum. Göngin eru hluti af risavöxnu samgönguverkefni frá Kristjánssandi í suðurhluta Noregs upp vesturströndina til Þrándheims.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=