Evrópa

34 NORÐURLÖND Noregur, lengsta og mjósta land í Evrópu nær yfir allan vestanverðan Skandinavíuskaga og er landið rúmlega þrisvar sinnum stærra en Ísland. Landið er hálent og strjálbýlt en næstum þrír fjórðu hlutar þess eru jöklar, vötn og fjöll. Með vogskorinni vesturströndinni eru fjölmargir djúpir firðir sem mynduðust á ísöld. Má þar nefna Geirangursfjörð, Sognsæ og Þrándheimsfjörð. Með hækkandi sjávarborði eftir ísöld varð líka til fjöldi eyja úti fyrir ströndinni. Stærsti eyjaklasinn er Lofoten, sem er norðan heimskautsbaugs. Nyrsti oddi landsins, og meginlands Evrópu, er Nordkapp. Ár eru fjölmargar en flestar stuttar. Lengsta áin er Glomma, rúmlega 600 km löng. Margir fallegir fossar eru í ánum. Hæsti tindur Noregs er Galdhöpiggen 2469 metra hár. Skandinavíuskjöldurinn (Noregur og Svíþjóð) er eitt elsta berg jarðar. Noregur Fornleifafræðingar halda því fram að fólk hafi búið í Noregi í yfir 12.000 ár. Einna þekktastir eru Norðmenn fyrir víkingatímann sem einkenndist af miklum siglingum, verslun og landkönnun. Djúpir firðir og há fjöll gerðu samgöngur á landi erfiðar og var því nærtækast að horfa til hafs. Miklir skógar sáu mönnum fyrir nægu hráefni til skipagerðar og langskip víkinga reyndust vel til siglinga. Norskir landnemar settust að á Íslandi. Í gegnum aldirnar hefur norska konungsríkið ýmist staðið eitt eða verið í sambandi við það danska eða sænska. Á 13. öld stóð Noregur á hátindi veldis síns. Einmitt þá, árið 1262, gerðu Íslendingar samkomulag við Hákon gamla, Noregskonung, um að hann yrði jafnframt konungur Íslands og að Íslendingar yrðu skattþegnar Noregskonungs. Samkomulagið hefur verið nefnt Gamli sáttmáli. Geirangursfjörður í Noregi er djúpur og langur fjörður sem myndaðist á ísöld. Þar er náttúrufegurð mikil.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=