20 EVRÓPA Orka Öll þörfnumst við orku og lífstíll okkar í Evrópu er orkufrekur. Því er nauðsynlegt fyrir Evrópubúa að huga vel að þeirri orku sem þeir nota. Orku notum við t.d. til að hita húsin okkar, lýsa upp götur, knýja skip, flugvélar og bíla, knýja vélar í verksmiðjum og margt fleira. En hvernig er hægt að spara orku? Hvaða orkugjafar henta best? Þetta eru spurningar sem íbúar Evrópu verða að velta fyrir sér. Orka fæst t.d. með því að brenna jarðefnaeldsneyti, eins og olíu, kolum og gasi, og úr kjarnorku, jarðvarma, vindorku og vatnsafli. Þrír síðastnefndu orkugjafarnir eru það sem oftast eru nefndir „grænir orkugjafar“ sem þýðir að þeir menga andrúmsloftið mun minna en t.d. notkun kola eða olíu gerir. Helstu framleiðendur jarðefnaeldsneytis í Evrópu eru Rússland, þar sem finna má miklar olíu- og gaslindir, og Noregur sem einnig er olíuríki. Á Íslandi notum við vatnsafl og jarðvarma til orkuframleiðslu en Frakkar reiða sig mjög á kjarnorku. Flestar Evrópuþjóðir flytja inn mikið af orku, s.s. olíu sem notuð er til rafmagnsframleiðslu og sem eldsneyti á bíla, skip og flugvélar. Stíflan á Kárahnjúkum hindrar rennsli Jökulsár á Brú. Fyrir ofan stífluna myndast stórt vatn sem kallast uppistöðulón. Úr lóninu liggja göng sem halla niður á við. Vatn streymir hratt niður um göngin og snýr túrbínu sem knýr rafal sem býr til rafmagn. Kostir og gallar orkugjafa Allir orkugjafar hafa bæði kosti og galla. Þegar orkulindir heimsins eru nýttar hefur það alltaf áhrif á umhverfið. Meta þarf hvort umhverfisáhrifin séu viðunandi eða ekki. Kjarnorka sinnir orkuþörf stórra svæða í Evrópu en skilar af sér geislavirkum úrgangi sem er mönnum hættulegur. Kol er auðvelt að vinna úr námum en þegar þau eru brennd myndast reykur sem mengar og getur skaðað heilsu manna. Hægt er að vinna margar tegundir eldsneytis úr jarðolíu sem knýr t.d. stór farartæki eins og flugvélar og skip. Flókið og erfitt getur reynst að ná í olíuna og bruni hennar veldur gróðurhúsaáhrifum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=