19 Auðlindir Evrópu Sem dæmi um auðlindir má nefna olíulindir, vatn, málma og kol en einnig mannauð, náttúru og frjósamt land. Það sem telst til auðlinda á hverjum tíma er breytilegt og helst í hendur við eftirsókn og notkunarmöguleika en einnig tækniþekkingu og framfarir í vísindum. Það sem einu sinni var mjög mikilvæg og verðmæt auðlind þarf ekki endilega að vera það í dag því hugsanlega getur tæknin leitt til þess að áður óþekkt eða vannýtt auðlind nýtist okkur betur í nútímasamfélagi en hún gerði áður. Meðal helstu auðlinda Evrópu má nefna mikið og frjósamt land en þar er líka að finna miklar kola- og járngrýtisauðlindir sem voru mjög mikilvægar á 19. og 20. öldinni. Kol má enn finna í miklu magni í Úkraínu, Þýskalandi, Póllandi og Bretlandi. Olía er í Norðursjó og miklar gaslindir í Rússlandi. Gjöful fiskimið, líkt og í Atlantshafi, flokkast einnig sem auðlind og í ýmiss konar þjónustu- og tækniiðnaði hafa Evrópubúar náð að virkja mannauð sinn vel. Lífskjör í Evrópu eru almennt mjög góð, í samanburði við aðrar heimsálfur, einkum í vestanverðri álfunni þar sem þau eru með því besta sem gerist í heiminum. Drekasvæðið Á Drekasvæðinu, sem er hafsvæði í Norður- Íshafi að hluta til innan efnahagslögsögu Íslands, gera Íslendingar sér vonir um að finna jarðgas og olíu. Gerðar hafa verið jarð- og jarðeðlisfræðilegar mælingar á hafsbotninum vegna undirbúningsvinnu fyrir olíuleit. Þar má finna nægjanlega þykk setlög sem gætu fullnægt skilyrðum fyrir olíu í vinnanlegu magni. Erlend fyrirtæki, sem sérhæfa sig í olíuleit með gervihnöttum, hafa bent á mögulegan olíuleka að yfirborði sjávar sem þykir styrkja vísbendingar um að olíu sé að finna á svæðinu. Hafdýpi þarna er um 800–2000 metrar, sem er dýpra en gengur og gerist með olíuvinnslu í sjó. Hafstraumar eru þó ekki eins sterkir og ölduhæð miklu minni en t.d. suður af landinu. Á Drekasvæðinu má gera ráð fyrir rekís og borgarís og þarna er einnig mjög þokugjarnt. Margar tæknilegar hindranir á eftir að yfirstíga áður en vinnsla olíu og gass getur hafist. Borpallur í Norðursjó, undan ströndum Noregs. Olía eru lífrænar leifar vatna- og sjávarlífvera sem hafa breyst í olíu djúpt í jarðlögunum. Því þarf að bora eftir olíunni og oft er hana að finna í jarðlögum í sjó eins og til dæmis í Norðursjó. Þegar búið er að dæla olíunni upp þarf að hreinsa hana og vinna úr henni ólíkar olíur s.s. bensín, smurolíu og gasolíu.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=