13 Atvinnuhættir Á hverju landsvæði, og jafnvel í hverju landi fyrir sig, eru stundaðir ólíkir atvinnuhættir allt eftir því hvaða hráefni eru við hendina. Það sem ræður því hvað unnið er á hverjum stað er það sem hvert landsvæði gefur af sér. Staðarval kallast það þegar tiltekinni atvinnugrein hefur verið valinn ákveðinn staður eða svæði. Það ræðst af því hvar hagkvæmast er að vinna við tiltekna atvinnugrein. Það er ekki hægt að stunda fiskveiðar þar sem engin eru fiskimiðin eða landbúnað þar sem ekkert er ræktar- landið. Upphaflega voru samfélög manna einföld og landið og umhverfið setti þeim meiri skorður um það hvar og hvernig þeir bjuggu. Vörur eru nú fluttar um Evrópu þvera og endilanga svo það er lítið mál að kaupa svissneskt súkkulaði í verslun á Íslandi eða íslenskan saltfisk í búð á Spáni. Venja hefur verið að skipta atvinnuháttum í fjórar greinar, landbúnað, sjávarútveg, þjónustu og iðnað sem fjallað er um hér á eftir. Maður og náttúra Maður og náttúra eru óaðskiljanleg. Við erum hluti af náttúrunni og reiðum okkur á hana til þess að lifa af. Allt frá örófi alda hefur náttúran veitt okkur það sem við þurfum, eins og mat, klæði, orku og skjól. Frá náttúrunnar hendi er Evrópa vel fallin til búsetu. Frjósaman jarðveg er að finna meira og minna um alla álfuna nema allra nyrst. Sum svæði Evrópu eru einkar frjósöm og líka má finna auðlindir í jörðu. Þar sem þessir landkostir tengdust vel samgönguneti safnaðist saman fólk og til urðu bæir og síðar borgir. Í dag eru þetta þéttbýlustu og fjölmennustu svæði Evrópu þar sem stunduð er fjölbreytt atvinnustarfsemi. Mikið af landi um miðbik álfunnar hefur verið tekið undir ræktun. Hér má sjá bónda við uppskeru í Frakklandi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=