Eru fjármál stórmál?

8 Laun Laun eru það sem einstaklingur fær greitt fyrir tiltekið vinnuframlag. Þetta þýðir að þegar einhver gerir eitthvað fyrir einhvern þá er greitt fyrir það, nema um annað sé samið. Þegar unglingar gera eitthvað á heimili sínu þá er sums staðar greitt fyrir það með launum, annars staðar er þetta sjálfsagður hlutur af samvinnu innan heimilisins. Launuð vinna er yfirleitt utan heimilis. Í launaðri vinnu er annaðhvort greitt fyrir hverja unna klukkustund og telst það þá tímavinna eða greitt fyrir mánuð í einu og telst það þá full vinna eða hlutastarf ef viðkomandi er í fastri vinnu en vinnur ekki fullan vinnudag alla daga vikunnar. Launin sem fást fyrir þessa vinnu eru ákvörðuð af þeim sem á fyrirtækið en mega alls ekki vera lægri en samið er um á milli stéttarfélags og atvinnurekenda í svokölluðum kjarasamningum. Allir sem fá laun eiga rétt á að fá launaseðil. Hvers vegna þarf launaseðil? Á launaseðli eru upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að hægt sé að fylgjast með því að rétt laun séu greidd og að sá sem borgar launin dragi af manni það sem þarf. Á launaseðli sést hvað greitt er í skatt, lífeyrissjóð og stéttarfélagið sem þú ert í. Einnig sést hvort dregið er af launum í orlof. Þessa peninga á sá sem borgar launin að greiða, skattinn til ríkisins, lífeyri í lífeyrissjóð, gjald fyrir stéttarfélag til stéttarfélagsins og orlof er lagt inn á reikning í þinni eigu. Hvaða máli skiptir þetta? Þetta skiptir verulegu máli því ef skattur skilar sér ekki gætir þú lent í að greiða tvöfaldan skatt, ef lífeyrir greiðist ekki til lífeyrissjóðs þá gætir þú orðið af pening seinna á ævinni. Ef ekki er greitt til stéttarfélags telstu ekki vera í því og færð þá ekki þau réttindi sem því fylgja og ef orlof skilar sér ekki þá færðu ekki laun í sumarfríi. Þess vegna þarf að skoða launaseðla vel eða yfirlit á launamiða þegar þú gerir skattaskýrslur, skoða lífeyrisgreiðslur þegar þú færð yfirlit í pósti frá lífeyrissjóði og bera saman orlof á launaseðli við orlofið á bankareikningi. Þessi atriði þurfa að vera í lagi því verkalýðsfélagið ver réttindi þín. Gott er að spyrja vinnufélaga eða trúnaðarmann um þessi mál. Til eru margar gerðir launaseðla og sömu atriði koma fram á þeim öllum en á mismunandi stöðum. Hann er alltaf eins ef ekki er skipt um vinnu. Hér er hægt að skoða annað dæmi um launaseðil.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=