3 Til kennara Nemendur á elsta stigi grunnskólans eru forvitnir um alls kyns málefni tengd peningum. Í þessari rafbók eru tekin saman hugtök sem þau eru að velta fyrir sér eða ættu að vera að velta fyrir sér og þau gerð aðgengileg. Fjallað er um ýmislegt sem kemur að vinnuumhverfinu, stéttarfélögum, atvinnurekendum og fleira er snertir fjármál og atvinnu ungmenna. Námsefnið hentar betur til umræðna en verkefnavinnu og í því eru greinargóðar upplýsingar um fjármál fyrir kennara og nemendur. Nokkur verkefni fylgja námsefninu engu að síður. Farið er yfir helstu hugtök (í liðum A –U) og þau tengd raunveruleika, bæði í fjármálum einstaklinga og fjölskyldna. Einnig eru launaseðlar skoðaðir og útskýrðir. Fjallað er um stéttarfélög, tilgang þeirra og hvað fæst með því að vera í þeim. Trúnaðarmenn á vinnustöðum fá sitt pláss. Samskipti vinnuveitenda og stéttarfélaga eru útskýrð. Farið er yfir það hvernig fyrirtæki eru byggð upp, hvernig þau eru verðmetin með hlutabréfum og áhrif framboðs og eftirspurnar á almenning. Auk þess er farið yfir sparnað, bæði bundinn og óbundinn, skammtíma- og langtímalán, afborganir, vexti og verðbólgu. Aftast í bókinni eru orðskýringar yfir þau hugtök sem koma fyrir í efninu. Efnið er byggt þannig upp að teknir eru fyrir ákveðnir þættir og þeir gerðir að umræðuefni. Hægt er að nýta þá sem stutt innslög í kennslustundum t.d. í stærðfræði, lífsleikni eða samfélagsfræði. Eflaust vita þau mismikið um hvern og einn þátt en tilgangurinn er að nemendur tjái sig og efnið sé krufið með samræðu. Flestir grunnskólar eru með sínar eigin skólanámsskrár og geta tengt margt í efninu við þær. Efnið fellur einnig vel að hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla í stærðfræði, samfélagsgreinum, íslensku og upplýsinga- og tæknimennt. Dæmi: Við lok 10. bekkjar getur nemandi: Stærðfræði: • tekist á við verkefni úr umhverfinu eða samfélaginu, þar sem þarf að afla upplýsinga og meta þær, finna lausnir, m.a. í tengslum við ábyrgð á eigin fjármálum, neyslu og þróun samfélagsins, • valið og notað margvísleg verkfæri, þar með talin tölvutækni, gert sér grein fyrir möguleikum þeirra og takmörkunum, notað þau markvisst til að rannsaka stærðfræðileg efni og setja fram niðurstöður sínar. Samfélagsgreinar: • tekist á við verkefni úr umhverfinu eða samfélaginu, þar sem þarf að afla upplýsinga og meta þær, finna lausnir, m.a. í tengslum við ábyrgð á eigin fjármálum, neyslu og þróun samfélagsins, • valið og notað margvísleg verkfæri, þar með talin tölvutækni, gert sér grein fyrir möguleikum þeirra og takmörkunum, notað þau markvisst til að rannsaka stærðfræðileg efni og setja fram niðurstöður sínar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=