24 Gengi Gengi er hugtak sem er mikið notað, til dæmis þegar verið er að panta hluti frá útlöndum eða versla erlendis í ferðalögum. Gengi er mælikvarði á það hvað íslenska krónan kostar miðað við verð á öðrum gjaldmiðlum t.d. evru, dollara eða pundi. Ef Íslendingar flytja mikið af fiski til útlanda þá er mikil eftirspurn eftir íslenskum krónum til að kaupa fiskinn og þá hækkar gengi íslensku krónunnar og verðið á hinum gjaldmiðlunum lækkar. Við getum því keypt fleiri evrur, dollara eða pund fyrir 1000 krónur en ef það væri lítið af fiski flutt út. Það sama gildir ef það er mikill innflutningur af vörum til Íslands þá eykst eftirspurn eftir þeim gjaldmiðlum og eftirspurn eftir íslensku krónunni minnkar. Því lækkar verðið á krónunni á meðan erlendur gjaldmiðill hækkar. Þess vegna getur verð á peysu á erlendri vefsíðu breyst í íslenskum krónum þó svo að hún kosti alltaf 100 evrur á síðunni. Gengið getur hækkað eða lækkað á hverjum degi. Viðskiptajöfnuður er mismunur á verðmæti útfluttrar og innfluttrar vöru og þjónustu. Ef Íslendingar flytja meira verðmæti af vörum og þjónustu til útlanda heldur en þeir kaupa frá útlöndum þá er viðskiptajöfnuður jákvæður. Ef hins vegar við kaupum meira af vörum og þjónustu frá útlöndum heldur en við flytjum út þá er viðskiptajöfnuður neikvæður. Ef viðskiptajöfnuður er jákvæður er íslenska krónan verðmætari því það er meiri eftirspurn eftir henni en hún er lækkar í verði ef við erum með neikvæðan viðskiptajöfnuð. Verðbólga Verðbólga er þegar verð á vöru, þjónustu og öðru sem almenningur borgar fyrir hækkar meira en tekjur almennings. Í stuttu máli má segja að verðbólga segi til um hvort verðlagning á landinu hækki meira en eðlilegt þykir. Seðlabankinn sem er stofnun á vegum ríkisins reiknar með að verðbólga eigi að vera 2,5% á ársgrundvelli. Ef verðbólga er hærri þá er verð á vörum og þjónustu oft hátt og almenningur hefur minni peninga til ráðstöfunar. Ef verðbólga er lægri en 2,5% þá hefur almenningur meiri pening til ráðstöfunar. Verðbólgan hefur því bein áhrif á það sem almenningur hefur efni á að gera í sínum frítíma.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=