Eru fjármál stórmál?

23 Framboð og eftirspurn Þegar ákveðið er hvað vara á að kosta þá er litið til gæða vörunnar og hvað kostaði að framleiða hana. Einnig þarf að reikna með flutningskostnaði ef hann er einhver. Þegar varan er sett í sölu er oft talað um framboð og eftirspurn. Þetta hefur áhrif hvort á annað. Ef við tökum kalt vatn sem dæmi þá er mjög mikið framboð af köldu vatni á Íslandi og þú getur fengið það hvar sem er og það er mikil eftirspurn. Framboðið er samt meira en eftirspurnin því kalda vatnið klárast ekki. Hins vegar getum við tekið fyrir vinsælan orkudrykk. Hann fékkst ekki á Íslandi haustið 2022. Eftirspurnin var mjög mikil vegna þess að áhrifavaldar auglýstu hann og gerðu hann eftirsóttan. Þeir sem áttu drykkinn og vildu selja gátu selt flöskuna á mörg þúsund krónur. Þegar drykkurinn kom loks í verslanir á Íslandi þá varð meira framboð af honum og verðið lækkaði. Eftirspurnin minnkaði einnig þegar margir höfðu smakkað drykkinn. Lögmálið á milli framboðs og eftirspurnar er því: Ef framboðið er meira en eftirspurnin (100 eintök til en 30 vilja kaupa) þá lækkar verðið þannig að fleiri vilji kaupa. Ef eftirspurnin er meiri en framboðið (30 hlutir til en 100 vilja kaupa) þá hækkar verðið þangað til þeir 30 sem eru tilbúnir að borga mest fá hlutina. Hefur kaupmáttur áhrif á eftirspurn? Kaupmáttur hefur einnig áhrif á eftirspurn. Segjum svo að vörur sem við notum mikið t.d. mjólk, fiskur, endsneyti og fleira hækki í verði en launin hækka ekki samhliða. Afleiðingin er sú að almenningur kaupir minna, þá er talað um að kaupmáttur hafi minnkað og almenningur fær minna fyrir launin sín. VERKEFNI Farið inn á vef Hagstofunnar og skoðið verðlagsreiknivélina þar. Farið því næst inn á heimasíðu að eigin vali og veljið einhvern hlut sem þið eigið eða viljið gjarnan eiga. Finnið út hvað hluturinn kostaði í mánuðinum sem þið fæddust. Veljið mánuð og ár. Verðið á hlutnum í dag verður að vera útkoman í reitnum til hægri. Þið þurfið að prófa nokkrar upphæðir áður en þið finnið rétt verð. Sem dæmi þá hefði einn nýjasti snjallsíminn kostað heilar 9.500 krónur þegar höfundur fæddist (reyndar var hann ekki til frekar en aðrir farsímar).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=