20 Verkföll Hvað eru verkföll? Verkfall er þegar einhver ákveðin stétt (t.d. kennarar, bílstjórar, bankastarfsfólk og afgreiðslufólk í verslunum) hættir að mæta í vinnu og þá mega aðrir ekki vinna þau störf. Ófaglært starfsfólk skóla, foreldrar eða aðrir aðstandendur mega ekki ganga í störf kennara ef kennarar fara í verkfall. Það sama gildir um önnur störf vegna þess að í verkfalli gildir sú regla að enginn má ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli. Tilgangur verkfalls er að fá þá sem borga launin til að borga hærri laun eða bæta önnur kjör starfsfólks. Fólk vill hærri laun og/eða betri kjör vegna þess að það telur vinnuna sem það vinnur meira virði en það sem er greitt fyrir hana. Sumir hópar eins og til dæmis lögreglan mega ekki fara í verkfall því það er nauðsynlegt að lögreglan sé alltaf til staðar til að bregðast við ef óhöpp eða afbrot eiga sér stað. Þeir þurfa því að semja um launahækkun og/eða betri kjör án þess að leggja niður störf. Hvers vegna eiga verkföll sér stað? Verkföll eiga sér stað vegna þess að þau sem vilja fá launahækkun og þau sem borga launin ná ekki samkomulagi um það hve mikil hækkunin á að vera. Verkfall er síðasta úrræði hvers stéttarfélags til að fara fram á hærri laun eða bættar starfsaðstæður. Verkfall á sér ekki stað nema hvorugur aðilinn gefi eftir í sínum kröfum. 10. febrúar 2023 var boðað til verkfalls hjá Eflingu í Reykjavík, hjá starfsfólki á hótelum sem voru í Eflingu. Viku síðar fóru olíubílstjórar í verkfall. Þetta var gert til að auka þrýsting á þá sem sömdu fyrir þessi fyrirtæki. Það var mjög mikilvægt að allir fengju bensín og olíu á bílana sína til að geta farið í vinnuna og fleira. Ef ekkert bensín var á tönkunum á bensínstöðvunum þá fór almenningur að krefjast þess að aðilar vinnudeilunnar Efling (Félag verkafólks) og SA (Samtök atvinnurekenda) myndu semja. Efling sagði að SA gæti borgað töluvert betur og SA sagði að Efling fengi bara sama og aðrir. Þetta var því deila sem var erfitt að leysa en þegar á leið náðu aðilar samkomulagi þar sem báðir aðilar gáfu eftir og mættust á miðri leið og verkfalli var aflýst.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=