Eru fjármál stórmál?

16 Hvað græði ég á því að spara? Sparnaður Þegar þú ætlar að kaupa hlut og átt ekki pening fyrir honum er best að byrja að safna. Því að þegar þú sparar og greiðir síðan fyrir hlutinn þá er hann orðinn þinn. Hann er þá ódýrari heldur en ef þú tekur lán fyrir honum. Kannski verður þó komin nýrri útgáfa af hlutnum þegar þú ert kominn með þann pening sem upp á vantar. Ef þú lítur hins vegar á það sem svo að þú þurfir þennan hlut nauðsynlega núna þá er möguleiki að fá peninga að láni. Þegar tekið er lán fyrir hlutnum þá er hann eign þess er lánar, að hluta eða öllu leyti, þar til lánið er greitt. Ef ekki tekst að greiða af láninu getur sá sem lánaði tekið hlutinn til sín, hvort sem það er bíll eða sími eða annað. Þrátt fyrir það þarftu eftir sem áður að greiða lánið, allt eða hluta þess og að auki kostnað vegna innheimtu. Það getur því á endanum orðið mjög dýrt að taka lán til að kaupa hlut sem möguleiki var á að safna fyrir. Tökum dæmi um kaup á snjallsíma sem kostar 230.000 krónur. Ef lán er tekið fyrir símanum greiðir þú 17.000 krónur í viðbót í lántökukostnað og vexti eða samtals 247.000 krónur. Ef þú hins vegar ákveður að nota gamla símann áfram og safna fyrir nýjum síma, er líklegt að það verði komin ný týpa á markað þegar búið er að safna fyrir honum. Með því færðu bæði nýrri útgáfu af símanum og sleppur við að greiða vexti og annan kostnað við lántöku. Auk þess er leiðinlegt að þurfa að halda áfram að borga af síma ef honum hefur t.d. verið stolið. Sama gildir um allt annað sem þú ert að gera í lífinu. Ef eitthvað kostar pening sem þig langar að taka þér fyrir hendur er best að safna fyrir því. Tökum sem dæmi sólarlandaferð. Alltaf er gaman að safna góðum minningum en það getur reynst skammgóður vermir að taka lán fyrir slíkri ferð því þegar heim er komið þarftu að fara að vinna fyrir ferð sem þegar er búin. Kannski tekur það þig ár að borga upp lánið og þá er ferðin orðin jafnvel helmingi dýrari en þegar þú keyptir sólarlandaferðina. Þú getur valið um að safna fyrir ferðinni áður en lagt er af stað og notið þannig lífsins án þess að hafa áhyggjur af skuldadögum. Hvaða sparnaðarleiðir eru í boði? Tegundir sparnaðar Hægt er að velja á milli óbundins sparnaðar og bundins, einnig á milli verðtryggðs og óverðtryggðs. Hér má sjá dæmi um sparnaðarreikninga. Athygli skal vakin á því að reikningar sem tengdir eru debetkorti eru ekki sparnaðarreikningar heldur veltureikningar þar sem mikið er um að tekið er út og lagt inn á þá. Þeir reikningar bera í kringum 2% vexti og teljast því ekki góðir til að ávaxta peninga. Óbundinn sparnaður er þegar lagt er inn á bankareikning og það er hægt að taka út af honum hvenær sem er. Hann ber mun lægri vaxtaprósentu en bundinn reikningur því að bankinn þarf að hafa tiltæka peninga til að greiða út. Vextir eru undir 8% en það fer eftir inneign hve háir vextirnir eru, hærri inneign = hærri vextir. Óbundnir reikningar eru óverðtryggðir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=