Eru fjármál stórmál?

15 Húsaleigubætur er leið hins opinbera til að koma til móts við fólk sem leigir sér húsnæði til að búa í, ef formlegur samningur er fyrir hendi. Námslán er lán sem hægt er að taka þegar einstaklingur er í námi. Þetta lán miðast við nemendur í háskóla – eða sérnámi. Þeir eiga að geta stundað nám sitt án þess að þurfa að vinna með náminu. Ef unnið er með námi er ekki hægt að fá hámarkslán. Þegar námslán er tekið er mikilvægt að skoða hvernig endurgreiðslu á láninu er háttað. Námslán taka mið af því hvort lánþegi þurfi að leigja sér húsnæði og hver framfærslukostnaðurinn er í viðkomandi landi ef hann er í námi erlendis. Hægt er að sjá inn á Menntasjóði hvaða nám er lánshæft. Skuldabréf er samningur þar sem sá sem fær lánið skrifar undir að hann ætli að greiða lánið á ákveðnum tíma með ákveðnum afborgunum. Skuldabréfið er eign þess sem lánar þar til búið er að greiða lánið upp að fullu. Endurgreiðsla Þegar lán er tekið þarf að gera ráð fyrir að geta endurgreitt það og þá er gott að gera áætlun um hvernig það er gert. Gera þarf ráð fyrir því að eiga ákveðna upphæð sem greidd er í afborganir mánaðarlega. Huga þarf að því að eiga fyrir öðrum nauðsynjum þegar afborgunarupphæðin er ákveðin. Ef lán er tekið í banka eða hjá öðru fjármálafyrirtæki þarf að semja um hvernig endurgreiðslu lánsins er háttað. Útreikningur á lánum Ef nauðsynlegt er að taka lán er gott að skoða fyrst hvaða möguleikar eru í boði við endurgreiðslu þess. Hægt er að taka lán til styttri eða lengri tíma (3 mánuðir upp í 5 ár) og miðast lánstíminn þá bæði við upphæð láns (há lán = lengri tími) og þá mánaðarlegu afborgun sem viðkomandi ræður við. Ef teknar eru þrjár milljónir í bílalán sem ætlunin er að borga til baka á 5 árum (60 mánuðir) þá eru greiddar 1.117.764 krónur í vexti (12,45% óverðtryggðir vextir) og kostnað. Þá fær einstaklingurinn 3 milljónir króna að láni og greiðir samtals u.þ.b. 4,1 milljónir króna til baka. Greiðslubyrðin er 68.000 krónur á mánuði. Ef teknar eru þrjár milljónir í bílalán og ætlunin er að borga til baka á 2,5 árum (30 mánuðir) þá eru greiddar 550 þúsund krónur í vexti (12,45% óverðtryggðir vextir) og kostnað. Þá fær einstaklingurinn 3 milljónir króna að láni og greiðir samtals u.þ.b. 3,55 milljónir króna til baka. Greiðslubyrðin er þá um 118.000 krónur á mánuði. Hér er hægt að slá inn lánsupphæð og sjá hver mánaðarleg afborgun af láninu er.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=