Engar ýkjur

ISBN 978-9979-0-3028-7 Hljóðbók má hlaða niður af vefsíðunni www.mms.is. © 2012 texti og myndir: Kristín Ragna Gunnarsdóttir Umbrot og kápuhönnun: Kristín Ragna Gunnarsdóttir Ritstjóri: Sylvía Guðmundsdóttir 1. útgáfa 2012 önnur prentun 2023 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Prentvinnsla: Litróf ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja

EFNISYFIRLIT VAFASÖM SENDING 5 BLAÐAMÁL 6 TÍSKUSLYS 9 STUÐ 11 SKÓDELLA 14 EFTIRFÖR 18 STEINI LOSTINN 21 GLÆPASAGA 25 TÍSKULÖGGAN 28 AFARKOSTIR 33 TEIKN Á LOFTI 38 SKÆRI, BLAÐ, STEINN 43 ANNARS! 49 STRENGJABRÚÐUR 52 ENGAR ÝKJUR 54

VAFASÖM SENDING Unglingur dregur blað úr úlpuvasanum og lítur í kringum sig. Ljósskíma frá bíl lýsir upp vegkantinn. Sá úlpuklæddi stígur inn í skuggann af gráleitri blokk. Bíllinn ekur fram hjá. Það liggja nokkrir steinar á stéttinni. Unglingurinn velur þann stærsta og vefur blaðinu þétt utan um hann. Hann horfir undan hettunni upp eftir blokkinni. Tekur síðan stórt skref aftur á bak og kastar grjótinu. Það heyrist brothljóð. Ljós kvikna í gluggum. Hann tekur til fótanna og hverfur inn í myrkrið. 5

BLAÐAMÁL – Hvað á þetta að þýða? segir Saga og skellir skólablaðinu á borðið. Greinin mín var ekki svona. Mörður, ritstjóri skólablaðsins, lítur upp frá tölvunni sinni og tekur ofan heyrnartól. – Ha, varstu að segja eitthvað? – Þú ert búinn að eyðileggja greinina mína. Þú hefur skorið úr henni allt bitastætt, segir Saga æst. – Svona róaðu þig. Greinin var of löng, segir Mörður. Hann hallar sér aftur í stólnum og dregur svarta húfu niður að augum. – Of löng! Þetta var alvöru frétt um alvöru mál sem gerðist hér í skólanum. – Já, en þú gerðir of mikið úr glæpnum, 6

segir Mörður. Við reynum að halda okkur við sannleikann. – Þetta voru engar ýkjur! Ég var þarna, segir Saga og slítur af sér derhúfuna. – Já, já, en ég er ritstjórinn. Ég ræð. Mörður hikar ... Við þurftum líka að nýta plássið undir auglýsingu. – Auglýsingu! Hvað meinarðu? Styttirðu greinina mína vegna auglýsingar? Saga starir á Mörð. – Það er stíll yfir henni þessari, segir hann og bendir á stúlku í auglýsingunni. Þú ættir kannski að taka hana þér til fyrirmyndar. 7

Mörður rennir augunum yfir föt Sögu. – Ég hef flottan ritstíl. Þú kannt bara ekki að meta hann, segir Saga og lætur á sig derhúfuna á ný. – Ef þú ætlar að skrifa aftur fyrir skólablaðið verðurðu að finna eitthvað krassandi til að skrifa um. En haltu þig við sannleikann, segir Mörður og snýr sér að fartölvu sinni. – Þetta var satt! æpir Saga. Og vel skrifað. – Nú þarf ég að lesa yfir alvöru grein um alvöru mál. Nenni ekki að hlusta á ofur æsta ýkjusögu, segir Mörður og lætur á sig heyrnartólin á ný. Tvær stelpur og strákur í úlpum sitja í sófa með fartölvur á hnjánum. Þau skella upp úr. Þau eru öll nákvæmlega eins klædd og Mörður. Það skríkir í þeim. Saga dregur derhúfuna niður og strunsar út. 8

TÍSKUSLYS Saga stígur upp í rúllustiga með tvo troðfulla poka. Hún er búin að kaupa sér ný föt. Nýja úlpu, nýja peysu, nýjar buxur og nýja skó. Allt í sama stíl og ritnefndin klæðist. En hún ætlar sko ekki að skipta um húfu. Hún er með hnút í maganum. Hún er búin að eyða öllum peningunum. Öllum peningunum sem hún fékk í afmælisgjöf. Hún átti að nota þá í námskeið í skapandi skrifum. Mamma verður æf, hugsar Saga með sér. Skyndilega kemur dökkhærður strákur hlaupandi á móti umferð niður stigann. Hann rekst utan í Sögu. Þau horfast í augu eitt andartak. Hún þekkir hann. Þetta er útlenski strákurinn. Strákurinn sem byrjaði í skólanum í vetur. 9

Saga missir annan pokann og nýju skórnir hennar velta niður stigann. Strákurinn stekkur sömu leið og rýkur í burtu. Efst í stiganum stendur öryggisvörður móður og másandi. Hann dregur upp talstöð: – Þjófurinn slapp. Reynið að ná honum á leiðinni út. Saga skimar í kringum sig en hún sér strákinn hvergi. Hún fer aftur niður með rúllustiga. Þar tínir hún saman nýju skóna sína. En innan um þá liggur annar skór. Strákurinn hlýtur að hafa misst hann á flóttanum. En skórinn er allt of lítill á hann. Þetta er kuldaskór og hann er bleikur á litinn.

STUÐ – Þú ert rosalega flott á þessari, segir Steinn við Ylfu. Hann bendir á ljósmynd á borðinu. – Hún steinliggur. Þú ert nettur ljósmyndari, segir Ylfa. Geturðu kannski klárað auglýsinguna fyrir mig. Það er svo geðveikt mikið að gera hjá mér. – Ha, já já, stamar Steinn. Ylfa hripar niður texta á gulan miða. Dyrnar að stofunni opnast með látum. Saga stikar inn með blýant á lofti. Hún er kappklædd. Í nýrri úlpu með hettu á höfðinu og loðkraga ofan í augu. – Þarna ertu Steinn, ég er búin að leita að þér út um allt. Ég þarf að tala við þig, segir hún áköf en nemur staðar þegar hún sér Ylfu. Ó, var ég að trufla? 11

– Ég er farin, segir Ylfa við Stein og lætur sem hún sjái ekki Sögu. Steinn horfir hins vegar mjög stíft á Sögu. – Þú hengir auglýsinguna svo bara upp á besta stað, Steini stuð, segir Ylfa. Hún grípur slitna fiðlutösku og sveiflar henni á bakið. Taskan rekst framan í Sögu og hún hrökklast frá. Ylfa rigsar fram á gang án þess að loka á eftir sér. – Sú er góð með sig, segir Saga og nuddar á sér hökuna. – Hva, ég ætlaði ekki að þekkja þig. Í hverju ertu? segir Steinn. Af hverju ertu svona vel klædd? – Bíddu þar til þú sérð nýju skóna mína. Þeir eru sko ýkt flottir, segir Saga og dregur af sér hettuna. 12

Steini stuð ... hver er það annars? – Nú þekki ég þig, segir Steinn. For-Saga málsins mætt. – Ætlar þú nú að uppnefna mig líka? Bróðir hennar þarna DJ eitthvað, hann Mörður, er búinn að sjá um það í dag. Hann rústaði líka greininni minni. Ég sem fékk loksins að skrifa fyrir skólablaðið. – Hvað viltu? Ég er rosalega upptekinn. Ég er að vinna auglýsingu fyrir ... vinkonu mína, segir Steinn. – Ég verð að sanna mig fyrir Merði. Ég ætla að skrifa nýja grein í skólablaðið, segir Saga ákveðin. Krassandi grein. – Og hvar kem ég inn í myndina? spyr Steinn. – Myndir segja meira en mörg orð, segir Saga og opnar dagbókina sína. 13

SKÓDELLA – Sjáðu þessa frétt, segir Saga og bendir á úrklippu úr dagblaði. Það var líka talað um skipulagðan þjófnað í sjónvarpsfréttum. Við ætlum að rannsaka þetta. Við ætlum að koma upp um þjófagengi. – Það er ekkert smáræði, segir Steinn og fiktar í myndavélinni sinni. Og hvar byrjum við? Ég held að glæpagengi hafi teygt arma sína inn í skólann. Erlent glæpagengi, segir Saga. En ég þarf sannanir. 14

– Svona, engar ýkjur Saga. – Ég er ekkert að ýkja. Ég sá útlenska gaurinn úr bekknum þínum stela skóm. – Saga, slakaðu nú aðeins á ... – Slaka á, ég ætla ekkert að slaka á. Ég sá til hans. Hann var að stela í Hringlunni. – Saga, þetta eru alvarlegar ásakanir. Hann heitir Jan, segir aldrei orð, teiknar bara og teiknar. Hann er örugglega ekki þjófur. Og hann er alveg örugglega ekki í glæpagengi. – Þú ert alveg eins og þau hin. Trúir mér ekki. – Láttu ekki svona, Saga. Þetta er lyginni líkast. Þú hlýtur að sjá það. – Jæja, ég kem bara upp um málið sjálf, segir Saga og skellir dagbókinni. Hún treður henni ofan í töskuna og stormar fram á gang. Þar skimar hún eftir skónum sínum. En þeir eru horfnir. 15

Það heyrist hlátur og tvær stelpur koma út af klósettinu. Þær hlaupa burtu þegar þær sjá Sögu og kalla: – Ýkju-Saga! Saga gengur inn á klósettið og lítur í kringum sig. Einn básinn stendur opinn og þar er bleyta fyrir neðan klósettið. Saga fikrar sig nær og kíkir ofan í skálina. – Skrambinn! Skórnir mínir. Nýju fínu skórnir mínir. Hún tekur skref aftur á bak og stígur ofan í bleytuna. Saga tiplar fram með skóna á lofti. Það lekur bleytutaumur af henni. Þóra gangavörður rekur nefið upp úr tímariti. – Hvað á þetta að þýða? hreytir hún út úr sér hásri röddu. 16

Saga frýs í sporunum. Þóra er grimm á svipinn og það liggur ljótt ör niður eftir öðrum vanga hennar. Hún leggur blaðið frá sér og stendur mæðulega upp. – Þú kemst ekki upp með þetta væna, segir hún og réttir Sögu tusku og fötu. – Já, en ég ... tuldrar Saga. En þá opnast dyr. Mörður kemur fram á gang og ritnefndin fylgir fast á hæla honum. – Hvað er að sjá þig, Saga, segir Mörður. Strax komin á bólakaf í næsta mál. – Þrífðu þetta sull upp eftir þig, segir Þóra hvöss. Og klósettið líka. – Mamma með allt á hreinu, segir Mörður. Ritnefndin hlær. Saga snýr baki í þau og sér þá Jan innar á ganginum að teikna í svarta skissubók. Hann lítur upp. Þau horfast í augu eitt augnablik. Svo lokar hann bókinni og hraðar sér í burtu. 17

EFTIRFÖR Steinn stingur dagblaði inn um lúgu á hurð. Hundur geltir og ólmast í blaðinu fyrir innan. Steinn hrökklast niður tröppur og út á gangstétt með blaðatösku á öxlinni. Strætisvagn ekur hjá og vatn gusast úr polli yfir fætur Steins. – Nei, fjárinn hafi það! 18

Strætisvagninn nemur staðar skammt frá. Dyrnar opnast og dökkhærður strákur kemur út. Hann rogast með stóran plastpoka í fanginu. Pokinn er troðfullur. Steini er brugðið þegar hann áttar sig á því hver þetta er. Þetta er Jan, nýi strákurinn í bekknum. Sá sem Saga var að tala um. Hvað skyldi hann vera með í pokanum? hugsar Steinn. Hann gengur á eftir stráknum. Í hvert sinn sem Jan nemur staðar bograr Steinn yfir blaðatöskunni. Að lokum burðast Jan með pokann upp að grárri blokk. Hann opnar útidyrnar, dröslar pokanum inn og lokar á eftir sér. Steinn kemur sér fyrir á bak við bíl. Skömmu síðar sér Steinn ljós kvikna í glugga í kjallara blokkarinnar. Kannski hefur Saga rétt fyrir sér, hugsar Steinn. Hann fikrar sig nær og dregur myndavélina upp úr töskunni. 19

Hann tekur mynd af blokkinni og nærmynd af glugganum. Skyndilega slökknar ljósið. Steinn hrekkur við og kemur sér aftur í skjól á bak við bílinn. Það kviknar ljós í stigaganginum. Síðan kviknar ljós í íbúð á fyrstu hæð. Þar er hleri fyrir einum glugga. Steinn missir sjónar á Jan. Hann tekur nokkrar myndir til viðbótar en lítur svo á klukkuna. Hann verður að drífa sig að klára að bera út blöðin. En hann tekur ekki eftir að það er fylgst með honum. 20

STEINI LOSTINN Glampi af skjá lýsir upp andlit Steins. Hann ætlar að hlaða myndunum inn á tölvuna sína. Getur verið að Saga hafi rétt fyrir sér? hugsar hann með sér. Getur verið að Jan sé þjófur? Skyndilega heyrist skellur. Glugginn brotnar og Steinn hrekkur við. Það kastast grjót inn á mitt gólf. Steinn kíkir út um brotinn gluggann. Það sést ekki nokkur maður fyrir utan. Hann tekur grjótið upp. Það er bréfmiði vafinn utan um hann. Steinn losar miðann og sléttir úr honum. 21

– Steinn, hvað er í gangi? heyrist kallað af hæðinni fyrir neðan. – Ekkert, hrópar Steinn. Steinn dregur gardínu fyrir gluggann. Hann sópar glerbrotum undir rúmið og grípur myndavélina sína. – Ég þarf aðeins að skreppa, kallar hann inn í stofu. Verð kominn fyrir tíu. – Hvert ertu að fara? Hvaða læti voru þetta eiginlega? heyrist pabbi hans æpa í kapp við glyminn frá sjónvarpinu. Útihurðinni er skellt. 22

Saga opnar dyrnar. Hún er með köttinn sinn, hann Krumma, í fanginu. – Hva, þú hér? Ég hélt að þú vildir ekki vera með. – Ég fékk sendingu, segir Steinn. Inn um gluggann. Saga sleppir Krumma og tekur bréfið úr höndum Steins. Hún les skilaboðin. – Hvar varstu eiginlega að snuðra, Steinn? – Hvað ert þú eiginlega búin að koma okkur út í? segir Steinn. Þetta er ekkert grín. Saga dregur Stein inn í forstofu. Hann kveikir á myndavélinni sinni. – Ég elti Jan. Hann var með eitthvað í stórum poka, segir Steinn og sýnir henni mynd af blokkinni. Við verðum að komast að því hvað er í þessari geymslu. 23

– Kannski þýfi, segir Saga æst. Ef við náum myndum af þýfinu getum við sannað málið. Og ég get skrifað krassandi grein. Steinn smellir yfir á næstu mynd. Saga rýnir í hana. –En hver er þetta? segir hún og bendir á glugga á efstu hæð í blokkinni. Þar er skuggamynd af manneskju.

GLÆPASAGA Saga beygir sig niður að litlum glugga. – Ég sé ekki neitt. Við verðum að komast inn. – Við verðum að flýta okkur, segir Steinn lágt. Fólkið í blokkinni fer að vakna. – Það er sunnudagur, segir Saga og rennir klauf á hamri undir opna rifu á glugganum. 25

Steinn leggst á hamarinn af fullum þunga. Það heyrist brak og glugginn spennist upp. Saga smeygir sér inn en nær ekki fótfestu. Hún missir takið og fellur inn um gluggann. Svartur poki tekur af henni mesta fallið. Saga skellur í gólfið og pokinn veltur um koll með miklum látum. – Er allt í lagi? hvíslar Steinn og treður sér inn um gluggann. – Passaðu þig, segir Saga. En það er of seint. Steinn dettur utan í hana og svo á gólfið. Það heyrist brothljóð. – Nei, ég trúi þessu ekki, segir Steinn og tekur myndavélina upp. Linsan er sprungin. Nú getum við ekki tekið myndir af þýfinu. 26

– Ja, af þýfinu ... segir Saga hikandi og stendur á fætur. Á gólfinu liggja dósir á víð og dreif sem hafa oltið úr pokanum. Saga og Steinn líta í kringum sig. Það eru svartir ruslapokar í röðum upp við vegginn. Þeir eru allir fullir af tómum dósum. – Við verðum að koma okkur út áður en einhver heyrir í okkur, segir Steinn. Það heyrast raddir fyrir framan dyrnar. Lykli er stungið í skrána. Þau gjóa bæði augunum í átt að glugganum.

TÍSKULÖGGAN Lyklinum er snúið og hurðinni er rykkt upp. Jan og móðir hans standa í gættinni. Jan hrekkur við er hann sér krakkana. – Þau brjótast inn, segir mamma hans og baðar út höndunum. – Hvað er nú þetta eiginlega? segir lögregluþjónn og ýtir henni frá. Saga og Steinn gapa. – Við vorum að leita að þýfi, segir Saga og bendir á pokana. Jan tekur skref aftur á bak og þau horfast í augu. – Hann er þjófur, stamar Saga og bendir á hann. Við vorum viss um að hann geymdi þýfið hér. – Jan minn er ekki þjófur, segir mamma hans og sýpur hveljur. 28

– Það eruð þið sem hafið brotið lög væna mín, segir lögreglan og vísar krökkunum út úr geymslunni. Það er alvarlegt mál. – Ég sá hann stela í Hringlunni, segir Saga. Alveg satt. Við vorum viss um að hann væri að stunda svona skipulagða glæpi. Hefurðu ekki heyrt af öllum fötunum sem hafa horfið úr verslunum? – Svona, enga stæla hér, vinan. Þið komið með mér á stöðina, segir löggan og ýtir krökkunum á undan sér. – Saga, sýndu honum skóinn, segir Steinn óttasleginn. Hún getur sannað það. Hann er víst þjófur. Saga hellir úr bakpoka sínum. Innan um ýmiss konar dót er bleikur kuldaskór. Hann er með verðmiðanum á.

Lítil dökkhærð stúlka kemur undan pilsfaldi móður sinnar. Hún grípur skóinn sigri hrósandi og hleypur með hann fram. Saga og Jan horfast í augu. Stúlkan lítur alveg eins út og Jan. Lögregluþjónninn tekur af sér hattinn. Sviti perlar á enni hans. – Hvaðan segirðu að þessi skór komi? segir hann við Sögu. Saga hikar og horfir á Jan. Jan horfir í gaupnir sér. – Ég held að ég hafi ... misskilið þetta, segir Saga. Hann hefur kannski bara misst skóinn. Stúlkan kemur stökkvandi til baka með tvo hlýja bleika vetrarskó. Augu hennar ljóma. 30

Lögreglumaðurinn strýkur sér yfir ennið. – Og hvað er nú þetta eiginlega? segir hann. Hann gengur að næstu dyrum á ganginum. Þar stendur efnisbútur út milli stafs og hurðar. – Eigið þið þessa geymslu líka? spyr hann mömmu Jans. Hún hristir höfuðið. Lögregluþjónninn dregur fram draugalykil og opnar dyrnar. Á móti honum streymir fataflóð. Buxur, vesti, brók og skór. Skyrtur, kjólar, skart og bindi. Allt verðmerkt í bak og fyrir. – Og hvað er nú þetta eiginlega? segir löggan. Rándýr merkjavara! 31

Hann ýtir fötunum aftur inn, skellir í lás og dregur fram gult límband. – Þú kemur með mér á stöðina, segir hann og grípur í Jan. Krakkarnir standa stjarfir og horfa á hann leiða Jan út. Móðir Jans fylgir þeim eftir og hrópar. Þau skilja ekki hvað hún segir og þau skilja ekki hvað hefur gerst. – Hvað eigum við að gera? segir Saga. Þetta er okkur að kenna. – Já, en það er ekki okkur að kenna að geymslan er full af þýfi, segir Steinn og beygir sig eftir skissubók sem liggur á gólfinu. 32

AFARKOSTIR Steinn blaðar í skissubók Jans og Saga tvístígur við dyrnar. – Hann kom ekki í skólann í dag. Hann vill örugglega ekki tala við okkur, segir hún og ýtir á bjölluna. – Við skilum bara bókinni og biðjumst afsökunar, segir Steinn. Nei, sjáðu, mynd af þér, segir hann og sýnir Sögu teikningu í bókinni. Hann flettir áfram á næstu síðu. 33

– Og mynd af Merði, segir Saga. Alltaf jafn góður með sig. Og önnur! Jan er með hann á heilanum. Hvað er Mörður að gera á þessari? – Hann er að burðast með eitthvað, segir Steinn. Dyrnar opnast skyndilega og Jan stendur í gættinni grimmur á svip. Saga brosir vandræðalega og stamar: – Við vildum skila ... Steinn réttir Jan skissubókina en missir hana í fáti í gólfið. 34

– Fyrirgefðu, segir Steinn, og reynir að ýta nokkrum lausum blöðum aftur inn í bókina. Jan grípur skissubókina og skellir hurðinni nánast á andlitið á Steini. Steinn hrekkur aftur á bak með eitt blaðið í höndunum. – Þetta gekk vel, segir hann og opnar samanbrotið blaðið. Við honum blasir hótun.

– Þetta er eins og bréfið sem þú fékkst, hvíslar Saga og þrífur það úr höndum Steins. Jan er þá þjófurinn eftir allt saman. Krakkarnir fara niður stigann hálf dofin en ganga beint í flasið á Merði. – Hvað ert þú að gera hér? segir hann ruddalega við Sögu. Áttu ekki að vera að skrifa snilldargrein? – Ha, jú, það er einmitt það sem ég er að gera, segir Saga og stingur hótunar- bréfinu inn í dagbókina sína. – Einmitt það, segir Mörður. Þú skilar greininni á morgun, fyrir ballið. Annars færðu ekki að skrifa aftur fyrir skólablaðið. Mörður arkar upp stigann. Hann rekur öxlina utan í Stein en virðir hann ekki viðlits. 36

– Fjárinn, segir Steinn. Ég vissi ekki að Ylfa byggi hér. – Hún sem er svo góð vinkona þín, segir Saga örg. Komum okkur burt. – Hægan, hægan. Hvað er nú þetta eiginlega? segir lögreglumaður með fangið fullt af fötum. Eruð þið enn að snuðra? – Nei, sagði Steinn. Þú ert búinn að góma þjófinn. – Umm, nei, segir lögreglan. Geymslan er ekki í eigu útlendingsins. – Hann heitir Jan, segir Saga. – Hún er í eigu manns á efstu hæð, segir löggan og blæs verðmiða framan úr sér. Hann er víst mjög frægur fiðluleikari. – Nú, segir Saga og glennir upp augun. Eruð þið búin að handtaka hann? – Nei, hann er ekki alveg á lausu eins og er ... – Hvað meinarðu? segir Saga. – Hann er í dái. Hefur verið í dái í þrjú ár frá því hann lenti í bílslysi. 37

TEIKN Á LOFTI Saga ýtir aftur og aftur á bjölluna hjá Steini. Steinn opnar dyrnar. – Ég verð að sýna þér þetta, segir hún og réttir honum brúnt umslag. Þetta beið mín á útitröppunum þegar ég kom heim úr skólanum. Utan á umslaginu stendur „Lyga-Saga“ með útklipptum stöfum. Steinn opnar umslagið og dregur úr því bréf. Innan í bréfinu er svört fjöður. – Þetta er hrafnsfjöður, segir hann. – Lestu bréfið, segir Saga æst. – Enn ein hótunin. Hvað er eiginlega í gangi? – Hrafnsfjöður. Skilurðu ekki? Þetta er alvöru hótun. Krummi, kötturinn minn, er horfinn.

– Nei, nú er mér nóg boðið, segir Steinn. Ef þetta er Jan þá skal ég eiga við hann orð. Hann mætti ekki í skólann í dag. – Við verðum að finna Krumma, segir Saga. Drífum okkur. 39

Þau berja að dyrum hjá Jan. Saga ýtir á bjölluna. En enginn svarar. Steinn tvístígur og skimar í kringum sig í stigaganginum. – Heldurðu að Ylfa hafi heyrt í okkur? Hún má ekki sjá mig hér. – Nú? Þú kláraðir auglýsinguna fyrir ballið. Ég sá hana upp á töflu í skólanum. – Ballið, segir Steinn og það slaknar á honum. Hún er að þeyta skífum á ballinu. Eins gott! – Mörður er örugglega á ballinu líka, segir Saga. Og ég er ekki búin að skila krassandi grein í skólablaðið. Ég fæ aldrei að skrifa fyrir blaðið aftur. – En við munum finna köttinn þinn, segir Steinn. Kíkjum aðeins upp á næstu hæð. Þar er íbúðin sem geymslan tilheyrir. Geymslan þar sem þýfið fannst. Þau líta í kringum sig á efsta stigapallinum. Öðrum megin á ganginum eru þrjú nöfn á spjaldi við dyrnar. 40

– Sjáðu, hér búa þau. DJ hvað sem hún heitir, Mörðurinn og mamma hans, hvíslar Saga. Sú er skapvond. Steinn stendur hinum megin við ganginn við ómerktar dyr. Hann beygir sig niður og lyftir upp horni á mottu á gólfinu. Ekkert þar. Steinn rekur sig utan í slitið skópar sem stendur upp við vegginn. Annar skórinn veltur á hliðina. Saga kemur auga á eitthvað sem leynist í skónum. 41

– Og hvað er nú þetta eiginlega? segir hún og sveiflar lykli í gulu bandi. Hún stingur lyklinum í skrána. – Eigum við? – Nú erum við svo sannarlega að brjóta lög. Hvað ef einhver kemur? segir Steinn. – Við verðum að finna Krumma, segir Saga ákveðin og snýr lyklinum. 42

SKÆRI, BLAÐ, STEINN Saga opnar dyrnar varlega og leggur við hlustir. Það heyrist aðeins tif í klukku. Krakkarnir lauma sér inn fyrir dyrnar og loka. Það er skuggsýnt inni. Dregið er fyrir alla glugga nema einn sem vísar út að götunni. Saga gengur að glugganum. – Hér stóð sá sem fylgdist með þér, segir hún við Stein. Þetta er glugginn á myndinni. Steinn kíkir út en grettir sig svo. – Hvaða lykt er þetta? Saga bendir að lokuðum dyrum. – Vonandi er Krummi ekki þarna inni. Steinn tekur í húninn. Dyrnar opnast inn í herbergi. Gufuský gýs á móti honum. Hann pírir augun. Saga rekst í eitthvað á gólfinu. 43

– Þetta er einhvers konar rakatæki og sjáðu, segir hún og bendir á fiðlu sem liggur á borði. – Þessi er sko gömul, segir Steinn og færir sig nær dýrgripnum. Fyrir ofan borðið hanga tæki og tól til smíða. Þar eru líka hlutar úr fiðlum á hillu og fiðlustrengir. – Hér hefur einhver verið að vinna nýlega, segir Saga. Skrítna lyktin er af lími. Varla er Jan að smíða fiðlu.

– Er ekki maðurinn sem býr hérna frægur fiðluleikari? segir Steinn. – Það getur ekki verið hann. Hann liggur í dái á spítala, segir Saga. – En einhver hefur verið hér nýlega. Og einhver var í glugganum að horfa á mig, segir Steinn. Sá sem sendi mér hótunina. – Sá sami og hótaði mér og tók Krumma, segir Saga. Getur það verið Jan? – Við fundum hótunarbréf í skissubókinni hans, segir Steinn. – En getur verið að Jan hafi ekki ætlað að senda bréfið, segir Saga og dregur djúpt andann. Kannski fékk hann þessa hótun. – Inn um gluggann eins og ég, segir Steinn. Það er hleri fyrir glugga heima hjá honum. 45

Krakkarnir ganga fram í stofu. Þar er hilla með mörgum ljós- myndum í römmum. Þær eru flestar af svartklæddum manni að spila á fiðlu en ein er af tveimur börnum. – Þessi stelpa er kunnugleg, segir Steinn. – Já, hún er alveg eins og Ylfa, segir Saga. En þetta getur ekki verið hún. Ég hef kannski ekki mikið vit á tísku en sjáðu fötin. Undir hillunni er skrifborð með renndu loki. Saga reynir að opna en það stendur á sér. Hún ýtir fastar. Allt í einu rennur lokið aftur og það heyrist hár skellur. – Uss, það gæti einhver heyrt í okkur, segir Steinn. – Sjáðu, hvíslar Saga. 46

Á borðinu liggja skæri og misstórir útklipptir bókstafir. – Hótunarbréfin voru búin til hér, segir Steinn. En hver ... Hann dettur næstum því um ruslafötu á gólfinu. Hún veltur um koll með látum. – Uss, Það gæti einhver heyrt í okkur, segir Saga. Á gólfinu liggja litríkir bæklingar, allir í götum. – Það er búið að klippa stafi úr þeim, segir Saga og tekur upp krumpað blað sem hefur oltið úr tunnunni. – Enn eitt hótunarbréfið? spyr Steinn. – Nei, sjáðu, segir Saga, sléttir úr bréfinu og réttir Steini. 47

Það heyrist hljóð frammi á gangi. Saga grípur í handlegg Steins. – Felum okkur, segir hún óttaslegin. En það er of seint. Útidyrnar opnast og einhver gengur inn í íbúðina. 48

ANNARS! Saga nær að skríða undir skrifborðið. En Steinn kemst ekki í skjól. Það er gripið í öxl hans. – Hvað er hér um að vera? hvæsir þungbúin kona hásri röddu. Þóra, gangavörðurinn úr skólanum er mætt í öllu sínu veldi. Hún dregur Stein undan borðinu. – Hvað eruð þið að gera hér? æpir hún og hristir Stein. En svo tekur hún andköf. Hún sér að það er opið inn í herbergi. – Fiðlan! Nei, fiðlan. Hvað hafið þið gert? Rakinn ... Hún rigsar í átt að herberginu og dregur Stein eftir sér. Hann brýst um en Saga tekur til fótanna. Hún stekkur niður stigann og heyrir köll Þóru að baki sér. 49

En hún kemst ekki langt. Neðst í tröppunum við innganginn takast tveir drengir á. Úlpuklæddur Mörður hefur náð hálstaki á Jan. Ámátlegt væl glymur um stigaganginn. Svartur köttur brýst um í fangi Jans. Kötturinn er flæktur í vír. – Krummi! Komdu með köttinn minn, hrópar Saga að Jan. – Ég greip hann glóðvolgan, segir Mörður og hörfar. – Það varst þú! hreytir hún að Jan og dregur Krumma úr fangi hans. Hún stumrar yfir kettinum og reynir að losa vírinn af honum. – Það varst þú sem hótaðir okkur, hrópar Saga. Þú ert þá þjófurinn eftir allt saman. Ylfa rífur upp útidyrnar og rýkur inn með fiðlutöskuna á öxlinni. 50

– Láttu Mörð vera, æpir hún að Sögu. Annars! Saga lítur upp frá kettinum, fyrst á Ylfu, síðan á Mörð og svo á Jan. Það heyrast skruðningar að ofan. Steinn hrökklast niður stigann með Þóru á hælum sér. Hann sveiflar bréfinu og hrópar: – Þau eru þjófar. Hér er sönnunin.

STRENGJABRÚÐUR Þóra reynir að grípa í bréfið en Steinn kemst undan henni niður stigann. Hún grípur í handriðið og stendur á öndinni. – Það er hún sem er að smíða rándýra fiðlu, segir Steinn. Ekki kaupir hún efnið í hana með launum frá skólanum. – Þau hafa stolið fötunum sem voru í geymslunni, segir Saga. Þau hótuðu okkur og þau rændu Krumma. – Og þau létu ykkur halda að ég væri þjófur, segir Jan. – Ég sá Mörð setja eitthvað í kassa, marga kassa. Hann hótaði mér. Ég sagði ekki orð. – Hann lýgur, hrópar Mörður. – Nei, hann lýgur ekki, segir Saga. Þú ert lygamörður. Ég sá teikningu í skissubókinni hans. Teikningu af þér með kassa. – Ég fann köttinn í útigeymslunni, segir Jan. Hann var festur við rör. 52

– Þetta er fiðlustrengur, æpir Saga og kastar vírnum frá sér á gólfið. Þið fáið borgað fyrir að vera strengjabrúður mömmu ykkar. – Þið getið ekki sannað neitt. Og það mun enginn trúa Lyga-Sögu og léttadreng hennar, segir Ylfa og gýtur augunum að Steini. – Við sjáum til með það, segir Steinn og slítur fiðlutöskuna af Ylfu. Ég er nokkuð viss um að það er engin fiðla í henni þessari. Gott að taka töskuna með sér í búðir að máta föt. – En svo fyllir þú bara töskuna af fötum, segir Saga og stendur upp. Og þannig geturðu svo keypt rándýru græjurnar til að þeyta skífum. – Og mamma þín getur lagað fiðlu bróður síns, segir Steinn og opnar fiðlutöskuna. En í henni er ekkert þýfi. Og í henni er svo sannarlega engin fiðla. Taskan er tóm. Eldrautt fóðrið blasir við þeim. Ylfa hlær.

– Komdu Ylfa, segir Mörður, við skulum koma okkur heim. Þau hafa ekkert í höndunum. En Jan stígur í veg fyrir hann. – Þú ferð ekki neitt, segir Jan ákveðinn. Þóra ætlar að læðast upp stigann að baki honum. En móðir Jans kemur fram á gang með síma í höndunum. Þóra nemur staðar. Saga kemur auga á eitthvað hvítt sem situr fast í fóðrinu. Það er miði. Verðmiði af flík. – Af dýrari sortinni, segir Saga. – Ég er líka nokkuð viss um að stafirnir í hótunarbréfunum segi sína sögu, segir Steinn. Þeir munu leiða slóðina að þér, Ylfa. Þú klipptir þá út úr kápum af geisladiskunum þínum. Er það ekki? Ylfa er hætt að hlæja. Efst í tröppunum, talar móðir Jans, hátt í símann: – Já, er þetta hjá lögreglunni? Ég vil tilkynna þjófnað. 54

Þóra sígur saman og sest í stigann. Hún felur andlitið í höndum sér. – Fyrirgefðu mér, bróðir, snöktir hún. – Nú verður líklega skipt um ritstjóra, segir Steinn við Sögu. Og þú ert með efni í krassandi grein sem kemur þér örugglega í ritnefnd. Saga brosir með Krumma í fanginu. Kötturinn malar og sleikir á sér sárin. – Að vandlega íhuguðu máli, segir Saga og ræskir sig, tilkynni ég hér með að ég ætla að stofna nýtt blað. Þar munu birtast alvöru fréttir í máli og myndum. Mörður hnussar og dregur hettuna á úlpunni yfir höfuðið. – Allir geta sýnt hvað í þeim býr, segir Saga. Og nýja skólablaðið mun heita „Engar ýkjur“. Hún snýr sér að strákunum: – Viljið þið vera með?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=