Eldgos

Eldgos MI LLI HI MI NS OG JARÐAR

Til nemenda Þessi bók fjallar um eldgos. Í henni getur þú lesið um fræg eldfjöll, glænýja eyju, jarðskjálfta og margt fleira spennandi. Í bókinni er líka sagt frá reiðri gyðju, sofandi fjöllum og eldgosum í geimnum. Áður en þú byrjar að lesa er gott að fletta bókinni, skoða myndir og lesa fyrirsagnir. Neðst á hverri opnu eru spurningar. Þú getur rætt þær við einhvern eða reynt að svara þeim í huganum. Á sumum blaðsíðum er spurning innan í glóandi hraunflæði. Til að finna svarið skaltu fletta á næstu síðu og lesa textann. Góða skemmtun!

Eldgos MI LLI HI MI NS OG JARÐAR

Efnisyfirlit Eldgoseru… ................. 3 Nammikúla . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 4 Hvað er eldgos? . . . . . . . . . . . . . . . 6 Gosígeimnum................ 7 Þaðhristist!................... 8 Eldgos skemma . . . . . . . . . . . . . . . 10 Eldgoshjálpa..................11 Eldfjallaeyjan Ísland . . . . . . . . . . . . . 12 Eyjafjallahvað?.. . . . . . . . . . . . . . . . 14 Sofandi? . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 16 Eldgosísjó...................17 Eldgos í bænum . . . . . . . . . . . . . . . 18 Flott, fræg (og hættuleg) . . . . . . . . 20 Reiði og refsing . . . . . . . . . . . . . . . 22 Verkefni......................24

Eldgos eru … Hvað veist þú um eldgos? Hvað gera björgunarsveitir? Þetta var geggjað! Gangan var rosalega löng og erfið en ég er samt til í að fara aftur. Eldgos eru æði. Ég vaknaði um miðja nótt og við þurftum að fara strax. Ég rétt náði að klæða mig. Pabbi og stóra systir eru í björgunarsveitinni. Þau urðu eftir og ég veit ekki hvenær þau koma. Eldgos eru hræðileg. Hvað eiga Jörðin okkar og nammikúla sameiginlegt? .3

.4 Hvað er innan í Jörðinni? Nammikúla Vissir þú að Jörðin líkist risastórri nammikúlu? Inni í kúlunni er kjarni sem er reyndar ekki úr karamellu eða lakkrís heldur bráðnum málmi. Kjarninn er alveg ofsalega heitur. Utan um kjarnann er ekki súkkulaði heldur ægilega heitt grjót. Það kallast möttull. kjarni möttull jarðskorpa Jörðin

.5 Hvað hreyfist svo hægt að við finnum ekki fyrir því? Yst er ekki sykurhúð (og ekki brauðskorpa) heldur jarðskorpa. Á jarðskorpunni eru lönd, fjöll og höf. Við búum á jarðskorpunni. Jarðskorpan er ekki heil eins og sykurhúð á nammi- kúlu. Hún er meira eins og risastórt púsluspil. Púslbitarnir kallast flekar. Flekarnir fljóta ofan á möttlinum og þeir hreyfast! Hefur þú séð neglurnar þínar vaxa? Nei? En þú veist að þær vaxa nú samt. Þær vaxa bara svo hægt að við sjáum það ekki. Það sama á við um flekana. Þeir hreyfast svo hægt að oftast finnum við það ekki. En stundum þegar flekarnir færast í sundur eða rekast saman verða jarðskjálftar sem við finnum fyrir. Hvernig myndast eldgos? Jarðskorpan skiptist í marga fleka sem fljóta ofan á möttlinum.

.6 Hvað er eldgos? Hvað kemur upp á yfirborðið í eldgosum? Sum eldgos eru hraungos. Þá streymir kvika upp á yfirborðið og myndar hraun. Aska er mjög fíngerð mylsna úr hrauni sem getur svifið langar leiðir. Í öskugosum blandast kvikan vatni eða gasi sem veldur sprengingum. Þær þeyta ösku hátt upp í loftið. Flest eldgos eru blönduð. Þá koma bæði hraun og aska upp úr jörðinni. Stundum myndast mikill þrýstingur djúpt niðri í jörðinni. Þegar þrýstingurinn verður of mikill getur bráðnað berg sem kallast kvika ruðst upp á yfirborðið. Þá verður eldgos. gosmökkur hraunflæði gas gígur aska kvika eldfjall

Hvaða plánetur þekkir þú? Gos í geimnum Eldgos verða ekki bara á Jörðinni heldur líka í geimnum. Flest eldgos í okkar sólkerfi verða á Íó. Já, þið lásuð rétt: Íó! Íó er eitt af tunglum plánetunnar Júpíters. Stærsta eldfjall sólkerfis okkar er á plánetunni Mars. Það heitir Ólympusfjall og er næstum því þrisvar sinnum hærra en Everest, hæsta fjallið á Jörðinni! Hvers vegna verða jarðskjálftar? .7

.8 Skoðaðu myndirnar. Hvernig eru flekahreyfingar? Það hristist! Hefur þú fundið jörðina kippast til? Það kallast jarðskjálfti. Hugsaðu þér að þú sért með sterka teygju í höndunum. Þú togar hana eins langt og hægt er. Þá strekkist á teygjunni og þú finnur spennuna í henni. Þegar þú getur ekki teygt hana lengra þá slitnar hún og smellur til baka. Á sama hátt byggist upp spenna í jarðskorpunni þegar flekarnir ýtast saman eða færast í sundur. Þegar bergið þolir ekki meira losar það spennuna með því að brotna í sundur eða rekast saman. Flekar ýtast saman. Flekar færast í sundur. Flekar hreyfast fram hjá hvor öðrum eins og þeir séu að „ganga“.

.9 Hvernig getum við vitað hvort það sé að koma eldgos? Þegar kvika er á leiðinni upp á yfirborðið verða oftast jarðskjálftar. Í gamla daga komu eldgos oft á óvart en núna skrá sérstakir mælar bæði stóra og smáa jarðskjálfta. Vísindafólk fylgist með mælunum allan sólarhringinn. Þá er hægt að vara fólk við þegar eldgos er á leiðinni. Þá þurfa þau sem búa í nágrenninu stundum að forða sér til að vera örugg. Á Íslandi eru hús sérstaklega hönnuð til að þola jarðskjálfta. Á Þingvöllum má sjá hvernig flekarnir hafa færst í sundur og sprungur myndast á milli þeirra. Hafa eldgos góð eða slæm áhrif?

.10 Eldgos skemma Glóandi hraun eyðileggur allt sem fyrir því verður. Fólk sem býr nálægt eldgosi þarf að flýja heimili sín. Aska úr eldgosum getur haft slæm áhrif á fólk og dýr. Mikil aska í lofti getur skyggt á sólina og gert loftslagið kaldara. Í eldgosum getur losnað eitrað gas. Jarðskjálftar í tengslum við eldgos geta skemmt hús og vegi. Eldgos geta valdið hættulegum flóðbylgjum.

Eldgos hjálpa Hvað finnst þér það versta við eldgos? En það besta? 11. Eldgos geta myndað nýjar eyjar og landsvæði. Ísland myndaðist í eldgosum svo án þeirra væri landið okkar ekki til! Í gosösku eru efni sem bæta jarðveginn og hjálpa gróðri að vaxa. Hitinn sem fylgir eldvirkni er notaður til að hita hús, framleiða rafmagn og fleira. Eldgos eru oft glæsileg og það getur verið spennandi að horfa á þau úr öruggri fjarlægð. Margir ferðamenn koma til að skoða eldfjöll og jarðhitasvæði. Hvaða eldfjall hefur bæði verið kallað drottning og hlið helvítis?

Eldfjallaeyjan Ísland Mikið eldgos varð í Vestmannaeyjum árið 1973 þegar löng gossprunga opnaðist á Heimaey. Allir íbúar þurftu að yfirgefa eyjuna um nótt og mörg hús eyðilögðust. Undir Eyjafjallajökli er eldfjall. Það gaus síðast árið 2010 og svo mikil aska dreifðist um háloftin að ekki var hægt að fljúga flugvélum víða um Evrópu í marga daga. Hekla er fallegt eldfjall á Suðurlandi. Hekla er stundum kölluð drottning íslenskra eldfjalla en í gamla daga var fjallið oftar nefnt Hlið helvítis. Það var vegna þess að fólk víða um heim trúði því að í Heklu væri inngangurinn að sjálfu helvíti! Hrina eldgosa á Reykjanesskaga byrjaði 19. mars 2021 við Fagradalsfjall. Þegar þetta er skrifað opnast ennþá sprungur á svæðinu. .12 Reykjanesskagi Eyjafjallajökull Hekla Vestmannaeyjar

Eldstöðin Grímsvötn er næstum ósýnileg. Það er vegna þess að hún er undir Vatnajökli. Hitinn í eldfjallinu bræðir ísinn og býr til stöðuvatn ofan á fjallinu. Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins sem þýðir að þar verða oft eldgos. Lakagígar eru röð gíga á langri gossprungu. Gígarnir gjósa sjaldan en fyrir um það bil 250 árum gusu þeir í heilt ár. Úr gígunum kom mikið af hrauni, ösku og eitruðu gasi sem drap gróður og dýr. Katla er öflugt eldfjall undir Mýrdalsjökli. Í Kötlugosum verða kröftugar sprengingar þegar eldheit kvika og vatn mætast. Mikil aska myndast og þegar jökullinn bráðnar verða stór flóð sem kallast jökulhlaup. .13 Hvað eiga Grímsvötn og Katla sameiginlegt? Hvaða eldfjöll þekkir þú? Grímsvötn Lakagígar Katla Hvernig getur eldfjall stoppað flugvélar?

.14 Hvers vegna varð Eyjafjallajökull frægur? Eyjafjallahvað? Hvað gerðist? Hvers vegna? En var þetta ekki slæmt fyrir fólk? Og hvað svo? Sko, fyrst gaus hérna á milli mín og nágranna míns, Mýrdalsjökuls. Það var lítið hraungos sem margir komu að sjá. Nú, þá þurfti ég aðeins að létta á þrýstingnum, það var orðið svo langt síðan ég gaus síðast. Og þá varð ég allt í einu heimsfrægur! Ég stoppaði flug í Evrópu í heila viku! Það var alveg magnað og nú vita allir hver ég er. Ég er eldstöð, mér er alveg sama um fólk. En ég varð loksins frægari en Hekla. Það er frábært!

.15 Hvaða áhrif hafði gosið á fólk sem bjó nálægt því? Mikil aska féll í nágrenni eldgossins. Aska er óholl fyrir menn, dýr og gróður. Askan skemmdi meðal annars tún og mengaði vatnsból. Margir þurftu að flýja heimili sín eða halda sig inni vegna öskunnar. Þegar kvikan bræddi ísinn myndaðist flóð eða svokallað jökulhlaup. Það setti fólk í hættu og skemmdi meðal annars vegi og brýr. Í gosinu myndaðist mikið af ösku sem barst langar leiðir. Aska getur skemmt hreyfla flugvéla og meira en 100 þúsund flugferðum var aflýst vegna gossins. Hvað getur sofið lengur en Þyrnirós?

.16 Sofandi? Þyrnirós svaf í hundrað ár en eldstöðvar geta sofið miklu lengur. Eldstöðvar geta gosið ef þær tengjast kviku djúpt niðri í jörðinni. Þá er sagt að eldstöðin sé virk. Virk eldstöð getur gosið þó að það hafi liðið mörg þúsund ár frá síðasta gosi. Eldstöðin á Reykjanesi sefur til dæmis í um það bil þúsund ár á milli eldgosa-tímabila. Hvað er virk eldstöð? Óvirk eldstöð. Stundum færast jarðflekar svo mikið að tengingin við kvikuna slitnar. Þá getur eldstöðin ekki gosið lengur. Virk eldstöð. gosrás kvika

Hvað er Surtsey gömul? Reyndu að reikna það út. Eldgos í sjó .17 Þú varst líklega ekki til þá og þú ert nú ekkert ungbarn. Jörðin okkar er um það bil 4.500.000.000 ára gömul. Það er alveg svakalega stór tala og mörg núll! Miðað við það er bara augnablik síðan Surtsey myndaðist. Vissir þú að sumar eldstöðvar eru í sjónum? Þegar þær gjósa getur sjórinn ekki slökkt eldinn því kvikan er svo óskaplega heit. Þá verða oft miklar sprengingar þegar sjór og kvika mætast. Eyjan Surtsey varð til í neðansjávargosi árið 1963. Það þýðir að eyjan er alveg glæný! En hvernig getur það verið? Hvers vegna kom gosið í Vestmannaeyjum á óvart? Stundum gýs neðansjávar. Hraunið er svo heitt að hafið sýður og gufa myndast.

.18 Hvað myndaðist í gosinu í Vestmannaeyjum? Á Íslandi eru eldgos við bæi ekki algeng. Það getur samt gerst. Árið 1973 opnaðist gossprunga rétt fyrir ofan Vestmannaeyjabæ. Þá voru jarðskjálftamælar ekki eins fullkomnir og nú og svo voru liðin heil 6000 ár frá síðasta gosi á eyjunni. Þess vegna kom eldgosið á óvart. Íbúar þurftu að flýja og gátu ekki farið heim í marga mánuði. Í gosinu urðu miklar skemmdir. Þegar gosinu lauk var komið alveg nýtt fjall fyrir ofan bæinn. Það fékk nafnið Eldfell. Eldgos í bænum Í eldgosinu í Vestmannaeyjum var reynt að stöðva hraunið með því að dæla á það köldu vatni.

Hvaða áhrif höfðu gosin á Reykjanesskaga á íbúa? Árið 2021 hófst goshrina á Reykja- nesskaga. Þó að gosin séu ekki sérlega stór þá hafa þau mikil áhrif, sérstaklega í Grindavík. Grindvíkingar hafa þurft að yfirgefa bæinn aftur og aftur, stundum með litlum fyrirvara. Stórar sprungur hafa myndast og hraun hefur meðal annars runnið yfir hús og vegi. Þetta skapar mikla óvissu og það er ekki vitað hvenær líf Grindvíkinga getur orðið eðlilegt aftur. .19 Þann 14. janúar 2024 rann glóandi hraun yfir hús í Grindavík. Hvað er háværasta hljóð sem þú getur hugsað þér?

Flott, fræg (og hættuleg) Hvað gerðist í borginni Pompei árið 79? Vesúvíus – fjallið sem sprakk Árið 79 varð óskaplega stórt sprengigos í fjallinu Vesúvíusi á Ítalíu. Gosið þeytti sjóðheitri ösku yfir borgina Pompei og nágrenni. Þetta gerðist svo hratt að fólk náði ekki að flýja. Fólk, dýr og byggingar grófust í öskunni. Nú er borgin vinsæll ferðamannastaður þar sem sjá má hvernig fólk lifði fyrir næstum 2000 árum. Krakatá – háværasta fjallið! Hvað er háværasta hljóð sem þú hefur heyrt? Það er örugglega ekki jafn hátt og sprengingin sem varð þegar fjallið Krakatá í Indónesíu gaus árið 1883. Hávaðinn heyrðist til annarra landa! Fjallið og eyjan sem það stóð á hurfu næstum en ný eyja myndaðist sem heitir Barn Krakatá. .20

Hugsaðu þér að það komi ekkert sumar. Hvernig heldur þú að það sé? Tambóra – eldfjallið sem eyddi sumrinu Hugsaðu þér ár þar sem sumarið kemur ekki. Árið 1815 gaus fjallið Tambóra í Indónesíu. Gosið var risastórt og mikið magn ösku dreifðist um allan heim. Askan skyggði á sólina og kældi stóra hluta Jarðarinnar. Árið eftir gosið er oft kallað sumarlausa árið. Stromboli – viti Miðjarðarhafsins Fjallið Stromboli er stundum kallað viti Miðjarðarhafsins því það gýs svo oft að sjómenn geta notað ljósið til að vísa sér leið. Stromboli hefur verið virkt í meira en 2000 ár og er eitt af virkustu eldfjöllum heims. .21 Flottur gígur á Tambóra eldfjallinu! Hvaða gyðja fær pakka með grjóti?

.22 Hvers vegna heldur þú að ferðamenn sendi grjót og sand aftur til Havaí? Reiði og refsing Pele er gyðja elds og eldgosa. Hún býr á Havaí. Pele eyðir landi með hrauni og eldi en skapar um leið nýtt land. Henni þykir vænt um landið sitt og sagan segir að hún reiðist þegar ferðamenn taka hraunmola frá eyjunni. Á hverju ári sendir fólk grjót og sand í pósti aftur til eyjunnar og biður gyðjuna afsökunar á því að hafa tekið frá henni. Eldguðinn Vúlkan býr neðanjarðar, meðal annars í eldfjöllum. Þar smíðar hann vopn úr málmi fyrir rómversku guðina. Stundum slær hann svo fast með sleggjunni að jörð skelfur og eldfjöll gjósa.

.23 Hvernig reynir Sigyn að hjálpa Loka? Loki er einn af ásunum í Ásgarði. Þegar Loki drepur Baldur hinn góða reiðast hinir æsirnir. Þeir refsa Loka með því að binda hann í helli og láta snák slefa eitri á hann. Sigyn, kona Loka, reynir að hjálpa honum með því að halda skál undir eitrinu. En þegar skálin fyllist þarf að tæma hana. Eitrið lendir þá á Loka, hann kippist til af sársauka og jörðin skelfur. Eldguðinn Vúlkan.

1. Veljið orð úr bókinni. Til dæmis eldgos, jarðskjálfta, hraun eða jarðskorpu. • Teiknið mynd sem útskýrir það sem þið völduð. • Sýnið einhverjum í skólanum eða heima myndina og segið frá því sem hún sýnir. 2. Hafið þið séð eldgos á skjá eða í raunveruleikanum? • Ræðið saman: o Hvernig leit það út? o Hvernig leið ykkur þegar þið horfðuð á gosið? • Skrifið stuttan texta eða teiknið mynd. 3. Skoðið viðtalið á bls. 14 • Hugsið ykkur að þið gætuð spurt Eyjafjallajökul einnar spurningar. o Um hvað mynduð þið spyrja? o Hvers vegna? Verkefni .24

ISBN 978-9979-0-2984-7 © 2025 Harpa Jónsdóttir © teikningar Einar Másson © ljósmynd bls. 18 Kristinn Benediktsson © ljósmynd bls. 19 Morgunblaðið/Árni Sæberg © aðrar ljósmyndir Shutterstock Ritstjóri: Elín Lilja Jónasdóttir Yfirlestur: Brynhildur Magnúsdóttir jarðfræðingur Málfarslestur: Ingólfur Steinsson Eldgos Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2025 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Leturgerð meginmáls: Avenir 14 pt. Hönnun og umbrot: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Prentvinnsla: Ísafoldarprentsmiðja ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja MI LLI HI MI NS OG JARÐAR Bækurnar eru líka til sem rafbækur og hljóðbækur á vefsíðu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu www.mms.is Aðrar bækur í flokknum 5301 Flugvélar er lestrarbók í flokknum Milli himins og jarðar. Í bókinni er ýmiss konar fróðleikur um flugvélar og mikið lagt upp úr ljósmyndum og teikningum sem styðja við textann og vekja áhuga og forvitni. Neðst á hverri síðu eru spurningar til þess ætlaðar að staldra við og ræða það sem lesið var um. Spurningar á flugvélavæng leiða lesandann á næstu síðu þar sem svarið er að finna. Aftast í bókinni eru nokkur verkefni. Bókin er einnig til sem rafbók og hljóðbók á vef Menntamálastofnunar, mms.is Höfundur er Jón Guðmundsson Myndir teiknaði Böðvar Leós MI LLI HI MI NS OG JARÐAR Flugvélar Flugvélar 6921 Humlur er lestrarbók í flokknum Milli himins og jarðar. Í bókinni eru fróðleikstextar um humlur og mikið lagt upp úr ljósmyndum og teikningum sem styðja við textann og vekja áhuga og forvitni. Neðst á hverri síðu eru spurningar til þess ætlaðar að staldra við og ræða það sem lesið var um. Spurningar í fluguvæng leiða lesandann á næstu síðu þar sem svarið er að finna. Aftast í bókinni eru nokkur verkefni. Bókin er einnig til sem rafbók og hljóðbók á vef Menntamálastofnunar, mms.is Höfundur er Harpa Jónsdóttir. Myndir teiknaði Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson. Humlur MI LLI HI MI NS OG JARÐAR Humlur

40767 Eldgos er lestrarbók í flokknum Milli himins og jarðar. Í bókinni eru fróðleikstextar um eldgos og mikið lagt upp úr ljósmyndum og teikningum sem styðja við textann og vekja áhuga og forvitni fyrir efninu. Neðst á hverri síðu eru spurningar sem gefa tækfæri til að staldra við og ræða það sem lesið var um. Spurningar innan í hraunflæði leiða lesandann á næstu síðu þar sem svarið er að finna. Aftast í bókinni eru nokkur verkefni. Bókin er einnig til sem rafbók og hljóðbók á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, mms.is Höfundur er Harpa Jónsdóttir Myndhöfundur er Einar Másson Eldgos

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=