8 mms.is KENNSLUAÐFERÐIR SEM HENTA EFNINU Í kennsluleiðbeiningunum er stungið upp á fjölmörgum kennsluaðferðum. Unnið er með umræðu- og spurnaraðferðir, samvinnunám, vinnublöð, beina kennslu (t.d. sýnikennslu, myndmiðla og hlustunarefni), hlutverkaleiki, ýmis konar leitaraðferðir (t.d. viðtöl við aðra, efnis- og heimildarleit og gagnaöflun og greiningu), þrautalausnir og ýmis konar tjáningaraðferðir á borð við myndsköpun, leikræna tjáningu, tónlist/söng og skriflega tjáningu. Það liggur í fagmennsku hvers kennara hvernig efnið er unnið með nemendum. HUGMYNDIR AÐ NÁMSMATI Mikilvægt er að námsmat sé fjölbreytt og greinandi. Námsmat ætti að vera til þess fallið að leiðbeina nemendum, hjálpa þeim að átta sig á eigin styrk- og veikleikum ásamt því að styðja þau í að setja eigin markmið. Í efni sem þessu er enn fremur einstaklega mikilvægt að námsmat sé til þess fallið að styrkja sjálfsmynd nemenda og bæði styðja og stuðla að sjálfstæði þeirra. Leiðsagnarmat, umræður og nýting matskvarða við kynningar og önnur skilaverkefni eru tilvalin fyrir fjölbreytt námsmat. Ekki er lagt til að það sé eitthvert eitt lokamat heldur ætti námsmat að vera í formi símats.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=