mms.is 23 Góð samskipti eru lykillinn að því að mynda jákvæð tengsl við annað fólk. Færni í samskiptum er því mikilvæg þegar kemur að vina-, fjölskyldu- og ástarsamböndum, samstarfi við aðra og í raun öllum mannlegum tengslum. Samskipti eru ekki einföld, við getum túlkað hluti á mismunandi hátt, t.d. getur þú talið þig vera að sýna kurteisi á meðan annar upplifir vanvirðingu (t.d. þumallinn upp í mörgum menningarheimum þýðir að við séum samþykk á meðan í öðrum menningarheimum þýðir það að við séum að segja hinum að fara norður og niður). Við fæðumst ekki góð í samskiptum, það er færni sem við lærum og erum að æfa alla ævi. AUKAVERKEFNI – SAMSKIPTI Nemendur vinna þrjú saman í hóp, tvö æfa samtalsfærni og sá einstaklingur sem er ekki að æfa er áhorfandi og gefur endurgjöf þegar æfingunni er lokið. Öll eru einu sinni áhorfandi. Leyfið nemendum að velja sér aðstæður hverju sinni en þó má hópurinn einungis velja hverja þeirra einu sinni. Sjá æfingar í viðauka 5 bls. 87. Gakktu á milli hópa, leiðbeindu, spurðu dýpkandi spurninga og gefðu endurgjöf. SAMANTEKT Eftir að hafa lokið við efni fyrsta kafla ættu nemendur að: • geta greint frá því hvað staðalmyndir eru og hvers vegna það skiptir máli að vera meðvitaður um þær. • hafa áttað sig á því hvernig þeir geta styrkt sjálfsmyndina. • geta borið kennsl á styrkleika sína og gildi. • geta borið kennsl á þá þætti í umhverfinu sem þeir geta stjórnað og hverju ekki. • hafa dýpri skilning á hvað felst í tjáningu og samskiptum. Áður en haldið er yfir í næsta kafla, rifjaðu stuttlega upp efni fyrsta kafla og fáðu nemendur til að skila inn miðum (mega vera nafnlausir) þar sem þau klára eftirfarandi setningar og skila til þín. 1. Það sem vakti áhuga minn var ... 2. Ég myndi vilja vita meira um ... 3. Ef ég gæti breytt einhverju við verkefnin eða kennsluna þá væri það ... Þessi svör ættu að veita þér tækifæri til að sjá hvað það var/er sem vekur áhuga nemenda og þær breytingar sem þau nefna (ef einhverjar), taktu þær til athugunar og nýttu þær til að bæta efnið eða vaxa í starfi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=