2885_einmitt1a_klb 1

45 Hugmyndir • Komið með poka í kennslustund. Hver og einn nemandi setur 1-2 hluti sem hann á í pokann (penna, strokleður, úr …). Pokinn er látinn ganga milli nemenda og hver dregur einn hlut og spyr sessunaut: „Er þetta … þinn, þín, þitt?“ Ef nemandi á hlutinn segir hann: „Já þetta er … minn, mín, mitt“ og fær hlutinn til baka. Ef hann á ekki hlutinn gefur sá eða sú sem á hlutinn sig fram og segir: „Þetta er … minn, mín, mitt“ og fær hlutinn. Í leiðinni er hægt að æfa: „Viltu rétta mér …?“, „Gjörðu svo vel“ og „Takk“. Einnig getur kennari skrifað á töflu heiti hlutanna og kennt kyn þeirra, sérstaklega ef um ný orð er að ræða. Lesbók bls. 68–69 Sagnorð • Farið yfir sagnirnar „að vera“, „að nota“ og „að læra“. Skoðið með nemendum hvernig þær beygjast eftir persónum. • Hvetjið nemendur til að búa til setningar með þessum sögnum, bæði munnlega og skriflega. • Æfið sagnirnar með öllum persónufornöfnunum. Notið t.d. litlar tússtöflur fyrir hvern og einn nemanda. Skrifið eina af þessum sögnum á kennaratöfluna. Skrifið svo eitt af persónufornöfnunum og nemendur eiga að skrifa rétta mynd af orðinu. Kennari skrifar t.d „að vera“ og skrifar svo „þú“. Nemendur eiga þá að skrifa á sínar töflur „þú ert“. Hvetjið svo nemendur til að búa til setningu með sögninni. Æfið allar sagnirnar. (Einnig er hægt að gera æfinguna munnlega eða í stílabók). Verkefnabók bls. 67–68 • Nemendur fylla út í eyður í vinnubókinni og skrifa sagnirnar í réttri mynd. • Notið tækifærið og rifjið upp orðaforðann úr kaflanum þegar nemendur hafa gert þessar æfingar. T.d. er hægt að fara í látbragðsleik þar sem einn nemandi velur sér sögn af blaðsíðunni og á að sýna með látbragði það sem hann er að gera og hinir eiga að giska. • Kynna þarf orðið „þegar“ hjá sagnorðaverkefninu „að nota/að vera“. Lesbók bls. 69 Lýsingarorð Rifjið upp litina og útskýrið hvernig lýsingarorð breytast eftir kyni nafnorðsins sem það stendur með. Takið dæmi um orð af öllum kynjum. Æfið með myndaspjöldum eða hlutum úr stofunni t.d. þetta er gulur blýantur, þetta er græn bók. Hvetjið nemendur til að draga myndaspjald eða benda á hlut úr stofunni og segja setningu. Einnig er hægt að dreifa orðum á nemendur og þeir eiga að segja hvað þeir fengu. Hægt er að láta nemendur fá fleiri en eitt orð.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=