4 Lykilorð og lykilsetningar Á upphafsopnu hvers kafla í lesbók (nema 2. kafla) má finna lykilorð og lykilsetningar kaflans. Hægt er að nýta þá opnu sem kveikju með því að skoða orðaforðann með nemendum, kanna hvað þeir hafa þegar á valdi sínu og meta út frá því hvernig er best að haga yfirferð á efni kaflans. Lykilorðin og setningarnar eru ekki tæmandi yfir þann orðaforða sem birtist í kaflanum. Hægt er að nýta lykilorðin t.d. í frekari orðaforðavinnu og námsmati. Samantekt, sjálfsmat og orðalisti Aftast í hverjum kafla lesbókar er samantekt yfir þá málnotkun og orðaforða sem lagður er til grundvallar í kaflanum. Þar er ítarlegri orðaforðalisti en lykilorðalistinn í upphafi kaflans. Í lok hvers kafla í verkefnabók er að finna sjálfsmat þar sem nemendur meta hvort þeir hafi náð tökum á innihaldi kaflans eða hvort þeir þurfi frekari þjálfun. Ef nemandi telur sig ekki hafa náð tökum á efni kaflans þarf að aðstoða hann við að finna leiðir til að festa orðaforða og málnotkun kaflans í minni, t.d. með minnisspilum eða forritum á borð við Quizlet. Aftast í lesbók er að finna heildarlista yfir orðaforða bókarinnar í orðabókarmynd og stafrófsröð. Aftast í verkefnabók má finna upprifjun úr efni bókarinnar. Í kennsluleiðbeiningunum fylgja einnig stuttar kannanir úr hverjum kafla fyrir sig. Táknmyndir Í lesbók merkir þetta tákn að hægt sé að hlusta á efnið á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Einmitt! Lærum íslensku 1a – hlustun í lesbók. Kennari getur nýtt þetta hlustunarefni við innlögn á nýjum orðaforða og málnotkun. Mikilvægt er að spila það oftar en einu sinni fyrir nemendur og láta þá síðan þjálfa samtölin eða textana sjálfa í framhaldinu. Allt efni lesbókar má einnig nálgast á hljóðbók. Í verkefnabókinni eru hlustunaræfingar sem eru merktar með eyra og númeri og þær má nálgast á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Einmitt! Lærum íslensku 1a – hlustunaræfingar. Texta hlustunaræfinga má nálgast aftast í þessum kennsluleiðbeiningum. Táknið merkir að um ritunarverkefni sé að ræða, nemandi á að leysa verkefnið skriflega. Táknið merkir að nemendur segi ákveðin hljóð, orð eða setningar munnlega í þjálfunarskyni. Táknið merkir að nemendur eigi að vinna tveir saman og spyrja og svara spurningum munnlega. Þetta eru æfingar sem þjálfa málnotkun og orðaforða í tengslum við efni kaflans og nemendur svara út frá sér persónulega. Táknið merkir að um sé að ræða beinar spurningar úr texta og nemendur eigi að svara þeim munnlega. Kennari getur varpað fram spurningunum eða látið nemendur vinna saman í pörum eða í hópi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=