3 Inngangur Námsefnið Einmitt! Lærum íslensku 1a er fyrir fyrsta hæfnistig í íslensku sem öðru tungumáli. Miðað er við að það sé kennt á unglingastigi en það getur einnig nýst á miðstigi. Námsefnið skiptist í lesbók, verkefnabók og hlustunaræfingar auk hljóðbókar og kennsluleiðbeininga. Kennslufræði samskiptamiðaðs tungumálanáms liggur til grundvallar námsefninu þar sem gert er ráð fyrir að tungumálið sé þjálfað í gegnum samskipti á markmálinu (íslensku) og jöfn áhersla lögð á öll hæfnisvið: hlustun, lestur, talað mál og ritun. Unnið skal eftir stigskiptum stuðningi. Stigskiptur stuðningur grundvallast á skipulagðri tilfærslu ábyrgðar frá kennara yfir á nemanda sem á sér stað í gegnum sýnikennslu, sameiginlega þjálfun, leiðsögn og endar að lokum í sjálfstæðri vinnu nemandans þar sem hann hefur náð tökum á tiltekinni færni. (Læsisvefurinn) Gert er ráð fyrir að námsefnið sé kennt í litlum eða stærri hópum nemenda sem eru að byrja að læra íslensku, þ.e. á 1. hæfnistigi í íslensku sem öðru tungumáli, samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Hæfniviðmiðin eru byggð á evrópska tungumálarammanum og 1. hæfnistig samsvarar A1 hæfni í tungumálinu (Hæfnistig og hæfnirammar í íslensku sem öðru tungumáli). 1. stig er fyrir nemendur sem teljast byrjendur í íslensku en eru vel læsir í móðurmáli, þekkja latneskt letur og eiga auðvelt með að tileinka sér íslensk málhljóð og íslensk rittákn. Áhersla er á grunnorðaforða, grunnþekkingu í íslenskri málfræði, einfaldar ritunaræfingar, lestur og hlustun auk markvissrar talþjálfunar í almennu, daglegu tali (Aðalnámskrá grunnskóla 2021). Hæfniviðmiðum íslensku sem annars tungumáls eru gerð skil í aðalnámskrá grunnskóla en fyrir hvern kafla hafa verið tekin saman markmið sem byggð eru á þeim. Athugið að Einmitt! Lærum íslensku 1a er fyrri bók af tveimur sem unnin er fyrir fyrsta hæfnistigið. Málfræði Málfræðiatriði eru tekin saman í sérstökum köflum. Í þessari bók eru þrír málfræðikaflar þar sem grunnatriði í málfræði eru tekin fyrir. Fyrsti málfræðikaflinn kemur á eftir 3. kafla bókarinnar. Meta þarf eftir nemendum hversu mikla áherslu skal leggja á málfræðina og þess vegna er hún tekin saman í sérstaka kafla. Sumir nemendur hafa lært málfræði í öðrum tungumálum og hentar vel að byrja fljótt að læra málið eftir málfræðireglum. Fyrir öðrum er þetta alveg nýtt og þá þarf e.t.v. aðra nálgun og ekki nauðsynlegt að leggja mikla áherslu á málfræði strax. Athugið samt að málfræði er kennd í íslensku og erlendum tungumálum og mikilvægt að allir sem ætla sér að stunda áframhaldandi nám í íslensku skólakerfi læri hana. Það þarf hins vegar að meta hvenær nemendum hentar að hefja það nám og velja aðferðir við hæfi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=