23 • Leikur. Einn, tveir og búmm. Nemendur sitja í hring. Kennari velur eina tölu, t.d. þrír, og þá má ekki segja neina tölu sem inniheldur þrjá, heldur segja búmm í staðinn. Sá fyrsti byrjar og segir „einn“, næsti segir „tveir“ og sá þriðji á að segja „búmm“, svo fjórir og koll af kolli þar til kemur að 13, 23, 33, sem er allt búmm. Ef einhver gleymir sér, er sá hinn sami úr leik. Mörg tilbrigði eru við þennan leik, hægt er að hafa fleiri en eina tölu búmmtölu og leika sér aðeins með reglurnar t.d. reyna að gera þetta hraðar og hraðar. • París. Leitarorð á netinu: parís (leikur). Hægt er að útbúa París með límbandi á gólfinu eða fara út og nota krít. • Snúsnú. Hoppa og telja upphátt um leið. Hoppa fyrst einn, og svo tvo … upp í tíu. • Quizlet og Bitsboard er einnig hægt að nota til að æfa tölurnar. Að telja Kveikja • Skrifið á töfluna tölurnar 1, 2, 3, 4 og orðin í öllum kynjum (einn, ein, eitt; tveir, tvær, tvö; þrír, þrjár, þrjú; fjórir, fjórar, fjögur). • Skrifið tölustafina með litum og athugið hvort nemendur átti sig á því að litirnir tákna mismunandi kyn orðanna. Lesbók bls. 32 • Rifjið upp að orð geta verið í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni. Bendið nemendum á að tölurnar 1, 2, 3, 4 breytast eftir kynjum. Aðrar tölur eru eins í öllum kynjum. Það getur verið gott fyrir nemendur að hafa þessar tölur upp á vegg til að minna sig á hvernig fyrstu fjórar tölurnar breytast eftir kynjum, tölur eftir kynjum til útprentunar. • Hlustun 19. Nemendur hlusta og geta endurtekið til að þjálfa framburð á tölum. • Notið hluti og orð úr skólastofunni sem nemendur hafa nú þegar lært og rifjið upp kyn orðanna. Kennið nemendum fleirtölu orðanna í leiðinni, t.d. einn yddari, tveir yddarar; ein bók, þrjár bækur; eitt blað, fjögur blöð. • Hlustun 20. Nemendur hlusta og æfa sig síðan með því að lesa spurningar og svör. • Hvetjið nemendur til að telja hluti í skólastofunni og segja tölurnar upphátt. Æfa má fleiri orð en þau sem eru nefnd í lesbókinni. Í tengslum við þetta æfa nemendur sig á spurningunum neðst á bls. 32 og geta bætt við fleiri hlutum til að spyrja um. • Gott er að gefa nemendum tækifæri til að æfa sig enn frekar með því að draga spjöld. Sjá hugmyndir hér aftar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=