21 Tölur og tími 4 Markmið 4. kafla eru … • að nemendur læri tölurnar 1–100 á íslensku • að nemendur þekki töluorðin 1–4 í öllum kynjum • að nemendur geti sagt til um aldur • að nemendur læri að segja kennitölu, heimilisfang og símanúmer • að nemendur geti sagt hvað klukkan sé á íslensku • að nemendur læri vikudagana • að nemendur auki við orðaforða tengdan tölum Tölur Kveikja • Skrifið 1-2-3 og einn, tveir, þrír á töfluna. Fáið nemendur til að koma upp á töflu og skrifa einn, tveir, þrír á eigin tungumáli og kenna hinum. Lesbók bls. 30–31 • Skoðið með nemendum myndina á bls. 30 og farið yfir orðaforða. Þekkja nemendur Slönguspil? Finnst þeim gaman að spila? • Hlustun 16. Nemendur hlusta á tölurnar og endurtaka. Stundum er gott að taka fimm tölur í einu og endurtaka nokkrum sinnum. Tölurnar 11–20 reynast sumum nemendum erfiðar og margir rugla saman 13 og 30 og 14 og 40. Bendið nemendum á -tán og -tján. Með æfingu og þjálfun kemur þetta smátt og smátt. Sumum finnst gott að skrifa tölurnar niður nokkrum sinnum til að reyna að leggja þær á minnið. • Gott er að æfa tölurnar með því að lesa upp nokkrar tölur og nemendur skrifa þær niður. Einnig er góð æfing að skrifa tölu á töfluna og nemendur skrifa sömu tölu með bókstöfum. • Góð leið til að allir læri tölurnar fljótt er að skrifa tölurnar 1-10 upp á töfluna (bæði tölustafi og með bókstöfum við hliðina, 1 = einn o.s.frv.). Allir lesa saman tölurnar upphátt. Svo strikar kennarinn út t.d. tvær tölur sem eru skrifaðar með bókstöfum (skilur eftir tölustafina) og biður einhvern nemanda að segja allar tölurnar í réttri röð, líka þær sem er búið að stroka út. Næst strokar kennarinn út eina til tvær tölur í viðbót og biður einhvern nemanda að segja allar tölurnar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=