2885_einmitt1a_klb 1

Einmitt! Lærum íslensku 1a Kennsluleiðbeiningar

Einmitt! Lærum íslensku 1a Kennsluleiðbeiningar ISBN 978-9979-0-2987-8 © Heiðrún Ólöf Jónsdóttir © myndhöfundur: Böðvar Leós Ritstjórar: Elín Lilja Jónasdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir Yfirlestur og fagleg ráðgjöf: Sólborg Jónsdóttir Málfarslestur: Diljá Þorbjargardóttir Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2024 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Hönnun og umbrot: Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Inngangur . . . . . . . . . . . . . . . . 3 1 Góðan dag! . . . . . . . . . . . . . 5 Hæ! Ég heiti … Hvað heitir þú? . . 5 Hvaðsegirþúgott? . . . . . . . . 6 Hvað er þetta? . . . . . . . ....8 Bless og takk . . . . . . . . ....9 2 Stafrófið . . . . . . . . . . . . . .11 Aðstafaorð. . . . . . . ..... 12 Sérhljóðar . . . . . . . . ..... 13 Samhljóðar . . . . . . . . .... 14 3 Heimurinn . . . . . . . . . . . . .15 Hvaðan ert þú? . . . . . . .... 15 Hvaða tungumál talar þú? . . . . . 16 Persónur . . . . . . . . ..... 17 Málfræði 1 . . . . . . . . . . . . . . .19 4 Tölur og tími . . . . . . . . . . . 21 Tölur................21 Aðtelja . . . . . . . . . ..... 23 Aldur................24 Kennitala og símanúmer . . . .. 25 Hvar átt þú heima? . . . . . ... 26 Hvað er klukkan? . . . . . . ... 27 Dagurognótt. . . . . . . . . . .28 Vikudagar . . . . . . . . ..... 29 Málfræði 2 . . . . . . . . . . . . . . .31 5 Skólinn . . . . . . . . . . . . . . 33 Skólalóð . . . . . . . . . ..... 33 Í hvaða bekk ert þú? . . . . ... 34 Skólastofa . . . . . . . . ..... 35 Hvaðertþúaðgera? . . . . . . . 37 6 Skóladagurinn . . . . . . . . . . 39 Litir.. .. .. .. .. ...... 39 Skólastofur . . . . . . . . .... 40 Skóladagurinn minn . . . . . . . . 42 Málfræði 3 . . . . . . . . . . . . . . .44 Fylgiskjöl til útprentunar . . . . . . . 48 Kannanir...............90 Hlustunaræfingar . . . . . . . . . . 102 FylgiskjölA3. . . . . . . . . . . . 112 Efnisyfirlit

3 Inngangur Námsefnið Einmitt! Lærum íslensku 1a er fyrir fyrsta hæfnistig í íslensku sem öðru tungumáli. Miðað er við að það sé kennt á unglingastigi en það getur einnig nýst á miðstigi. Námsefnið skiptist í lesbók, verkefnabók og hlustunaræfingar auk hljóðbókar og kennsluleiðbeininga. Kennslufræði samskiptamiðaðs tungumálanáms liggur til grundvallar námsefninu þar sem gert er ráð fyrir að tungumálið sé þjálfað í gegnum samskipti á markmálinu (íslensku) og jöfn áhersla lögð á öll hæfnisvið: hlustun, lestur, talað mál og ritun. Unnið skal eftir stigskiptum stuðningi. Stigskiptur stuðningur grundvallast á skipulagðri tilfærslu ábyrgðar frá kennara yfir á nemanda sem á sér stað í gegnum sýnikennslu, sameiginlega þjálfun, leiðsögn og endar að lokum í sjálfstæðri vinnu nemandans þar sem hann hefur náð tökum á tiltekinni færni. (Læsisvefurinn) Gert er ráð fyrir að námsefnið sé kennt í litlum eða stærri hópum nemenda sem eru að byrja að læra íslensku, þ.e. á 1. hæfnistigi í íslensku sem öðru tungumáli, samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Hæfniviðmiðin eru byggð á evrópska tungumálarammanum og 1. hæfnistig samsvarar A1 hæfni í tungumálinu (Hæfnistig og hæfnirammar í íslensku sem öðru tungumáli). 1. stig er fyrir nemendur sem teljast byrjendur í íslensku en eru vel læsir í móðurmáli, þekkja latneskt letur og eiga auðvelt með að tileinka sér íslensk málhljóð og íslensk rittákn. Áhersla er á grunnorðaforða, grunnþekkingu í íslenskri málfræði, einfaldar ritunaræfingar, lestur og hlustun auk markvissrar talþjálfunar í almennu, daglegu tali (Aðalnámskrá grunnskóla 2021). Hæfniviðmiðum íslensku sem annars tungumáls eru gerð skil í aðalnámskrá grunnskóla en fyrir hvern kafla hafa verið tekin saman markmið sem byggð eru á þeim. Athugið að Einmitt! Lærum íslensku 1a er fyrri bók af tveimur sem unnin er fyrir fyrsta hæfnistigið. Málfræði Málfræðiatriði eru tekin saman í sérstökum köflum. Í þessari bók eru þrír málfræðikaflar þar sem grunnatriði í málfræði eru tekin fyrir. Fyrsti málfræðikaflinn kemur á eftir 3. kafla bókarinnar. Meta þarf eftir nemendum hversu mikla áherslu skal leggja á málfræðina og þess vegna er hún tekin saman í sérstaka kafla. Sumir nemendur hafa lært málfræði í öðrum tungumálum og hentar vel að byrja fljótt að læra málið eftir málfræðireglum. Fyrir öðrum er þetta alveg nýtt og þá þarf e.t.v. aðra nálgun og ekki nauðsynlegt að leggja mikla áherslu á málfræði strax. Athugið samt að málfræði er kennd í íslensku og erlendum tungumálum og mikilvægt að allir sem ætla sér að stunda áframhaldandi nám í íslensku skólakerfi læri hana. Það þarf hins vegar að meta hvenær nemendum hentar að hefja það nám og velja aðferðir við hæfi.

4 Lykilorð og lykilsetningar Á upphafsopnu hvers kafla í lesbók (nema 2. kafla) má finna lykilorð og lykilsetningar kaflans. Hægt er að nýta þá opnu sem kveikju með því að skoða orðaforðann með nemendum, kanna hvað þeir hafa þegar á valdi sínu og meta út frá því hvernig er best að haga yfirferð á efni kaflans. Lykilorðin og setningarnar eru ekki tæmandi yfir þann orðaforða sem birtist í kaflanum. Hægt er að nýta lykilorðin t.d. í frekari orðaforðavinnu og námsmati. Samantekt, sjálfsmat og orðalisti Aftast í hverjum kafla lesbókar er samantekt yfir þá málnotkun og orðaforða sem lagður er til grundvallar í kaflanum. Þar er ítarlegri orðaforðalisti en lykilorðalistinn í upphafi kaflans. Í lok hvers kafla í verkefnabók er að finna sjálfsmat þar sem nemendur meta hvort þeir hafi náð tökum á innihaldi kaflans eða hvort þeir þurfi frekari þjálfun. Ef nemandi telur sig ekki hafa náð tökum á efni kaflans þarf að aðstoða hann við að finna leiðir til að festa orðaforða og málnotkun kaflans í minni, t.d. með minnisspilum eða forritum á borð við Quizlet. Aftast í lesbók er að finna heildarlista yfir orðaforða bókarinnar í orðabókarmynd og stafrófsröð. Aftast í verkefnabók má finna upprifjun úr efni bókarinnar. Í kennsluleiðbeiningunum fylgja einnig stuttar kannanir úr hverjum kafla fyrir sig. Táknmyndir Í lesbók merkir þetta tákn að hægt sé að hlusta á efnið á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Einmitt! Lærum íslensku 1a – hlustun í lesbók. Kennari getur nýtt þetta hlustunarefni við innlögn á nýjum orðaforða og málnotkun. Mikilvægt er að spila það oftar en einu sinni fyrir nemendur og láta þá síðan þjálfa samtölin eða textana sjálfa í framhaldinu. Allt efni lesbókar má einnig nálgast á hljóðbók. Í verkefnabókinni eru hlustunaræfingar sem eru merktar með eyra og númeri og þær má nálgast á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Einmitt! Lærum íslensku 1a – hlustunaræfingar. Texta hlustunaræfinga má nálgast aftast í þessum kennsluleiðbeiningum. Táknið merkir að um ritunarverkefni sé að ræða, nemandi á að leysa verkefnið skriflega. Táknið merkir að nemendur segi ákveðin hljóð, orð eða setningar munnlega í þjálfunarskyni. Táknið merkir að nemendur eigi að vinna tveir saman og spyrja og svara spurningum munnlega. Þetta eru æfingar sem þjálfa málnotkun og orðaforða í tengslum við efni kaflans og nemendur svara út frá sér persónulega. Táknið merkir að um sé að ræða beinar spurningar úr texta og nemendur eigi að svara þeim munnlega. Kennari getur varpað fram spurningunum eða látið nemendur vinna saman í pörum eða í hópi.

5 1 Góðan dag! Markmið 1. kafla eru … • að nemendur læri að heilsa, kynna sig og taka þátt í mjög einföldu samtali • að nemendur læri að spyrja hvað hlutir heita á íslensku • að nemendur læri að kveðja og þakka fyrir sig • að nemendur læri heiti á nokkrum algengum hlutum í skólastofunni • að nemendur geti sagt hvað þeir eru með í nesti • að nemendur geti sagt hvernig þeir koma í skólann Kveikja • Áður en bókin er opnuð er heppilegt að kenna „Hvað heitir þú?“ og „Ég heiti …“ • Kennari byrjar á því að kynna sig og síðan eru allir nemendur í hópnum spurðir hvað þeir heita. • Mikilvægt er að tala hægt og nota bendingar til að nemendur skilji strax hvað þetta þýðir. • Sýna mætti glæru af „góðan daginn“ á mörgum tungumálum og láta nemendur æfa sig í að bjóða góðan daginn. • Einnig gætu nemendur kynnt hvernig þetta er sagt á þeirra tungumálum og skrifað það á töfluna. Æfa síðan fleiri kveðjur, t.d. „hæ“ og „halló“. • Farið yfir og útskýrið á leikrænan hátt sagnorðin að tala, að hlusta, að lesa, að skrifa, að læra, að skilja og æfið munnlega ég skil/ég skil ekki (sjá einnig bls. 2-3 í lesbók). Hæ! Ég heiti … Hvað heitir þú? Lesbók bls. 4–5 • Skoðið blaðsíður 4-5 með nemendum. • Kennið „ég“ og „þú“ með því að benda um leið og orðin eru sögð. • Kennið „ég heiti“ og „hvað heitir þú?“ með því að benda og tala. • Hlustun 1. Nemendur hlusta á samtöl og lesa þau síðan upphátt. • Nemendur heilsa og kynna sig og spyrja hina hvað þeir heita. Einnig er hægt að láta nemendur vera í hring og nota bolta og segja: „Ég heiti …“, „Hvað heitir þú?“ og kasta boltanum til þess sem spurður er.

6 Verkefnabók bls. 2–4 • Eftir spjall og munnlega æfingu í að kynna sig og spyrja hvað aðrir heita, æfa nemendur sig að skrifa og vinna blaðsíður í verkefnabókinni. • Nemendur geta notað þýðingarforrit til að þýða fyrirmælin á sitt tungumál ásamt nýjum orðum og málsgreinum ef þess þarf. • Samtal bls. 2. Um er að ræða samtal í talblöðrum og nemendur geta haft fyrstu blaðsíður lesbókar til hliðsjónar við verkefnið. • Samtal bls. 3. Nemendur skrifa samtal og nýta hjálparorð og málsgreinar sem finna má í ramma í kringum æfinguna. Nemendur geta svo skrifað málsgreinar á sínu tungumáli við rammana. • Hlustunaræfing 1 er á blaðsíðu 4, þar sem nemendur merkja við rétt svar. • Í kaflanum eru glósur sem nemendur geta þýtt yfir á sitt tungumál og bætt við fleiri orðum. Hugmyndir • Glósur. Nemendur gætu búið sér til aðgang að Quizlet og gert sínar eigin glósur úr kaflanum þar. Mikilvægt er að vinna markvisst með orðin munnlega og í verkefnum þar sem orðin eru sett í samhengi. Einnig er æskilegt að nemendur glósi þau orð sem þeim finnst mikilvæg í eigin glósubók. • Leikur. Nemendur standa í hring og kynna sig. Fyrsti nemandinn segir: „Ég heiti …“ og gerir einhverja hreyfingu (t.d. vinka, hoppa, klappa, dansa). Þá segja allir saman: „Þú heitir …“ (og gera sömu hreyfinguna). Næsti nemandi endurtekur leikinn með nýrri hreyfingu og þannig gengur þetta koll af kolli. Einnig er hægt að láta nemendur reyna að muna öll nöfnin og allar hreyfingarnar. • Mikilvægt er að kennari læri nöfn nemenda, viti hvað þeir vilji láta kalla sig og beri nöfnin rétt fram. • Tilvalið er að hlaða niður síðum 3 og 4 í lesbók, prenta þær út og nýta sem veggspjald í stofunni. Hvað segir þú gott? Kveikja Varpið upp mynd af broskörlum: Hvað segir þú gott? Látið nemendur æfa sig að segja: „Ég segi ... allt gott, allt ágætt, allt sæmilegt eða ekkert sérstakt“. Áður en byrjað er á kaflanum er skemmtilegt að kanna bakgrunnsþekkingu nemenda á orðaforða kaflans með því að nota samstæðuspil með myndum og orðum úr kaflanum. Nemendur vinna saman og raða saman orðum og myndum og giska þannig á hvað orðin þýða. Sum orð eru lík í mörgum tungumálum og svo er gott að athuga hvort nemendur séu ekki eins miklir byrjendur í íslensku og talið er.

7 Lesbók bls. 6–7 • Skoðið vel myndina af skólastofunni með nemendum og farið yfir orðaforða. • Hlustun 2. Nemendur hlusta og æfa síðan svipuð samtöl og eru á opnunni. • Rifjið upp frá síðustu síðu og biðjið nemendur að æfa sig hvert á öðru með því að spyrja og svara. Notið „Tölum saman“ verkefnið bls. 7 (sem er merkt með tveimur talblöðrum). Nemendur æfa sig í pörum. • Nemendur þjálfa orðaforðann á blaðsíðunni. Segið orðin upphátt og látið nemendur endurtaka þau. Mikilvægt er að vinna með orðin á fjölbreyttan hátt, sjá hugmyndir fyrir neðan. Verkefnabók bls. 5 • Samtöl. Nemendur skrifa inn í talblöðrur. • Tengiverkefni. Nemendur tengja málsgreinar við broskarla. • Spurningar. Nemendur svara spurningum með málsgreinum. Hvetjið nemendur til að svara alltaf með heilum málsgreinum, ekki bara einu orði. Hugmyndir • Prentið út orð og myndir úr kaflanum, plastið og búið til samstæðuspil, t.d. er hægt að nota þau í minnisspil og veiðimann. • Notið Bitsboard-forritið og Quizlet til að æfa orðin (hægt er að nota Quizlet-live til að gera þetta enn skemmtilegra). • Farið í Kahoot úr orðunum. www.kahoot.it • Nemendur finna einhvern fullorðinn í skólanum eða annan nemanda og spyrja: „Hvað heitir þú?“ og „Hvað segir þú gott?“ Mikilvægt er að undirbúa þetta vel áður þannig að fólk sé tilbúið að taka á móti þeim. Hægt er að vinna í pörum.

8 Hvað er þetta? Kveikja • Verið með hlutina á myndinni til staðar svo að nemendur geti komið við hlutina og skoðað þá (blýant, strokleður, pennaveski, penna, skólatösku, skæri, liti, bók, blað). Einnig gott að hafa samloku, gulrót, epli og vínber og jafnvel leyfa nemendum að borða matinn. Spyrjið: „Hvað er þetta?“ og svarið sjálf eða fáið þá til að svara: „Þetta er …“ Lesbók bls. 8 • Skoðið myndina með nemendum, nefnið orðin og nemendur endurtaka. • Vinnið vel með orðaforðann sem unnið var með á bls. 6-7 og bætið við orðunum á bls. 8. Notið til þess spil og leiki þar sem nemendur þurfa að segja orðin upphátt. • Biðjið nemendur um að skiptast á að benda á hluti og spyrja: „Hvað er þetta?“ og svara: „Þetta er …“ • Hlustun 3. Nemendur hlusta á samtalið og lesa það síðan upphátt. • Nemendur æfa sig að spyrja: „Hvað ert þú með í nesti?“ og svara: „Ég er með …“ ; „Hvernig komst þú í skólann?“ og svara „Ég kom …“ Verkefnabók bls. 6–8 • Nemendur æfa sig að skrifa skólaorð við hverja mynd. • Tengiverkefni. Nemendur tengja saman málsgrein og mynd og svara svo spurningunum neðst á síðunni. • Hvað eru þau með í nesti? Nemendur skrifa í talblöðrur. Í tengslum við þetta verkefni mætti athuga hvað nemendur eru með í nesti og bæta við orðum á glósulistann í bókinni. • Glósur. Nemendur glósa orð á sínu tungumáli. Hugmyndir • Kims-leikur. Setjið nokkra hluti á bakka og breiðið klút yfir. Sýnið nemendum hlutina í hálfa mínútu. Nemendur eiga að leggja hlutina á minnið. Klúturinn er settur aftur yfir hlutina. Nemendur skrifa niður eða eiga að segja þá hluti sem þeir muna. Klúturinn er tekinn af bakkanum og nemendur segja orðin. Einnig má útfæra leikinn þannig að einn hlutur er tekinn í burtu og nemendur eiga að finna út hvað það er sem vantar. Gott að byrja með fáa hluti en fjölga þeim svo eftir því sem nemendur verða færari í orðaforðanum.

9 Bless og takk Kveikja • Skrifið orðið „Bless“ á töfluna og hvetjið nemendur til að finna hvað orðið þýðir á þeirra tungumáli. Fáið nemendur síðan til að skrifa orðið á töfluna á sínu tungumáli. • Nemendur æfa sig í að kveðja á mismunandi tungumálum áður en unnið er með íslenskuna. Þeim finnst gaman að kenna öðrum tungumálið sitt, bæði með því að segja orðin og skrifa þau á töfluna. Þannig er þeim og tungumálum þeirra sýndur áhugi og virðing. Lesbók bls. 9–11 • Hlustun 4. Nemendur hlusta og lesa síðan samtölin. • Vekið athygli á því að við getum sagt bless á marga vegu. • Tölum saman: Nemendur æfa sig í pörum að spyrja og svara til skiptis. • Skoðið með nemendum samantekt á bls. 10-11 þegar búið er að vinna verkefnin í verkefnabók. Verkefnabók bls. 9–11 • Hlustunaræfing 2. Nemendur hlusta á stutt samtal Alexanders og Flaviu og merkja við rétt svar. • Talblöðrur. Hér mega nemendur velja sjálfir hvað þeir skrifa. • Frjáls ritun bls. 10: Nemendur skrifa samtal Artems og Felipu, mega nota hugmyndaflugið og reyna að skrifa sjálf. Einnig hægt að styðjast við málsgreinar úr sjálfsmatsrammanum á síðu 11 eða samtöl úr lesbók. • Nemendur vinna sjálfsmat bls. 11. Hugmyndir • Veggspjald: Nemendur útbúa stórt veggspjald með kveðjum, t.d. „Halló“; „Velkomin“; „Takk“ og „Bless“ á þeim tungumálum sem þeir kunna. • Hljóðvinna: Nemendur taka upp á síma eða á spjaldtölvu spurningar og svör eða segja orð og hlusta á sjálfa sig. Nemendur gætu hlustað á sína eigin rödd og bent á réttar myndir. Síðan mætti e.t.v. kanna hvort einhver annar skilji orðin sem eru lesin upp. Gott og gaman fyrir nemendur að heyra sína eigin rödd tala nýtt tungumál.

10 Könnun úr 1. kafla Fylgiskjöl • Táknmyndir – sagnorð (að tala, að hlusta, að lesa, að skrifa, að læra, að skilja) • Hvað segir þú gott? • Hvað segir þú gott? Veggspjald A3 • Orð og myndir úr 1. kafla (Blýantur, strokleður, pennaveski, penni, skólataska, litir, bók, blað, stóll, borð, tölva, tafla, spjaldtölva, yddari, mynd, skæri, sími, nesti, brúsi, samloka, epli, vínber, gulrót, strætó, bíll, hlaupahjól, hjól, stílabók, glas, bolli, klukka, kennari, stelpa, strákur, stálp.)

11 Stafrófið 2 Markmið 2. kafla eru ... • að nemendur læri íslenska stafrófið • að nemendur læri að stafa orð • að nemendur læri að bera fram íslenska sérhljóða og samhljóða Kveikja • Notið stafaspjöld með bókstöfunum Á, Ð, É, Í, Ó, Ú, Ý, Þ, Æ, Ö. Látið nemendur draga einn bókstaf og segja hvernig hann hljómar. Leiðréttið ef þarf og látið nemendur æfa sig á þessum bókstöfum sérstaklega. • Spyrjið nemendur: Eru þessir stafir líkir öðrum bókstöfum? Hvaða stöfum? Hver er munurinn? Lesbók bls. 12 • Hlustun 5. Látið nemendur hlusta á allt stafrófið. . Vekið athygli á stöfunum sem eru ekki hluti af íslenska stafrófinu: C, Q, W, Z. Hugsanlega eru einhverjir nemendur með þessa bókstafi í nafninu sínu. • Hlustun 6. Nemendur hlusta og endurtaka hvern bókstaf. • Nýtið e.t.v. hugmyndir að leikjum og söng sem sjá má hér aftar. Gott að vinna með þær áður en verkefnin í verkefnabók eru gerð. Verkefnabók bls. 12 • Nemendur skrifa stafina sem vantar í stafarununa. • Hlustunaræfing 3. Nemendur skrifa í bókina hvernig þeir heyra framburðinn á bókstöfunum. Þeir mega nota sitt stafróf eða skrifa á þann hátt sem auðveldar þeim að skilja hvernig framburðinn er. Stoppið ef þarf og gefið nemendum tíma til að skrifa niður hvernig þau heyra bókstafina. Endurtakið hlustunina eftir þörfum. • Nemendur skrifa orð í stafrófsröð.

12 Hugmyndir • Látið nemendur raða sér upp eftir stafrófsröð. Bæði hægt að gera eftir fornafni eða eftirnafni. • Allir nemendur fá einn bókstaf, halda á honum svo allir sjái og svo eiga þeir að raða sér í stafrófsröð án þess að segja nokkuð. Ef nemendur eru margir er hægt að skipta í lið og hafa keppni um hvaða lið er fyrst að raða sér upp. • Spil/spjöld með bókstöfum sett á borð hjá nemendum og þeir raða í stafrófsröð. • Látið nemendur raða orðum sem þeir lærðu úr fyrsta kafla í stafrófsröð. Nota mætti myndir eða orðaspjöld. Ágætt er að nota myndir til að athuga hvort nemendur muni orðin. • Nemendur eru með spjöld með bókstöfum og kennari stafar orð. Nemendur geta unnið í pörum, raðað spjöldunum rétt og mynda þannig orð. • Kennið nemendum Stafrófsvísuna eftir Þórarin Eldjárn. • Íslenska stafrófið er til á vefsíðu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu: Veggspjald – Stafróf. Að stafa orð Kveikja • Skrifið langt íslenskt orð á töfluna (þarf ekki að vera orð sem nemendur þekkja) og stafið orðið. Skrifið svo nafnið ykkar á töfluna og fáið nemendur til að stafa það. • Fáið nemendur til að stafa nöfnin sín. Lesbók bls. 13 • Hlustun 7. Nemendur hlusta á samtalið og lesa það síðan. • Útskýrið nafn, eftirnafn og fullt nafn. Fáið síðan alla nemendur til að stafa nafnið sitt. Skrifið hvern bókstaf á töfluna um leið og nemandi stafar. Einnig er hægt að láta nemendur skrifa nöfn félaga sinna á töfluna. Þá sést fljótt hvort þeir kunni málhljóðin. • Æfið vel framburð hljóða sem nemendur eiga erfitt með að ná tökum á. • Fáið nemendur til æfa sig að stafa orðin á blaðsíðunni. Verkefnabók bls. 13 • Hlustunaræfing 4. Nemendur hlusta og skrifa orðin sem eru lesin upp. • Hvað heitir þú? Nemendur spyrja hver annan til nafns og hvernig þeir stafi nafnið sitt. Þeir skrifa það niður og kanna svo hvort það sé rétt skrifað.

13 Hugmyndir • Hengimann á töflunni. Kennari/nemandi velur orð og teiknar jafn mörg strik á töfluna og jafngilda bókstöfum orðsins. Svo eiga nemendur að giska á hvaða bókstafir eru í orðinu. Hægt er að teikna snjókarl í stað gálga. Teiknaður er heill snjókarl í upphafi og þegar nemendur nefna rangan bókstaf er hluti hans strokaður út. Þegar allur snjókarlinn er „bráðnaður“ hefur sá sem valdi orðið unnið. Leikurinn æfir nemendur í að segja heiti bókstafanna. Sérhljóðar Kveikja • Útbúið nokkur spjöld með sérhljóðarunum (aaa-eee-uuu-ííí) og byrjið á því að lesa af einu þeirra hægt og rólega og svo hraðar og hraðar. Biðjið nemendur um að draga eitt spjald og gera það sama, leiðrétta svo hvert annað ef einhver gerir villu. Þetta finnst nemendum oft fyndið og skemmtilegt, sérstaklega þegar þau gera þetta mjög hratt. Lesbók bls. 14 • Hlustun 8. Nemendur hlusta á hvern sérhljóða og endurtaka. Sýnið myndina af stöðu munnsins þegar nemendur segja hljóðin og biðjið þá að æfa sig. Stundum er gott að hafa spegil svo nemendur geti séð sjálfa sig þegar hljóðin eru borin fram. • Ítrekið að í íslensku berum við y fram eins og i og ý eins og í og farið vel í tvíhljóðin, þau reynast nemendum oft erfið, sérstaklega au. • Æfið sérhljóðarunurnar neðst á síðunni. Verkefnabók bls. 14 • Hlustunaræfing 5. Nemendur hlusta á sérhljóða og skrifa niður réttan bókstaf. • Hlustunaræfing 6. Nemendur fylla rétta sérhljóða í eyður. • Nemendur lita sérhljóðana í töflunni neðst á síðunni. Hugmyndir • Nemendur nota stafaspjöld og flokka þau í sérhljóða og samhljóða. Gæti verið keppni á milli nemenda hver er fyrstur að flokka. • Nemendur skoða orðin sem búið er að læra og finna hversu marga sérhljóða orðin hafa og strika jafnvel undir þá. • Eru einhver orð sem hafa bara sérhljóða?

14 Samhljóðar Kveikja • Hafið til taks nokkur spjöld með samhljóðarunum og byrjið á því að lesa af einu þeirra hægt og rólega og svo hraðar og hraðar. • Biðjið nemendur að draga eitt spjald og gera það sama, leiðrétta svo hvert annað ef einhver gerir villu. Þetta finnst nemendum oft fyndið og skemmtilegt, sérstaklega þegar þau gera þetta mjög hratt (líkist rappi með samhljóðunum). • Lesbók bls. 15 • Hlustun 9. Varpið upp síðunni með myndum af stöðu munnsins. Bendið á rétta stafi um leið og hljóð þeirra eru spiluð. • Sýnið myndina af stöðu munnsins þegar þau segja hljóðin og biðjið þau að æfa sig. Stundum er gott að hafa spegil svo nemendur geti séð sig þegar hljóðin eru borin fram. • Æfið samhljóðarunurnar neðst á síðunni. Verkefnabók bls. 15–17 • Tenging. Nemendur strika undir samhljóðana í orðunum og tengja svo við rétta mynd. • Hlustunaræfing 7. Nemendur hlusta og skrifa rétta samhljóða í eyðurnar. • Glósur bls. 16. Nemendur glósa á sitt tungumál og bæta við orðum eftir þörfum. • Sjálfsmat bls. 17 Hugmyndir • Rapp/hrynjandi. Leyfið nemendum að búa til einskonar hrynjandi eða rapp úr samhljóðunum. Þá velja þau sér nokkra samhljóða og hversu oft þau ætla að segja hvern og einn, búa til hrynjandi og kenna hinum sem eiga að reyna að herma. Að lokum fara öll saman með hrynjandina í kór. • Bókstafabingó. Látið nemendur velja sér átta bókstafi og skrifa þá inn á bingóspjald. Dragið svo úr stafrófsbunkanum og segið einn bókstaf í einu. Sá sem fyrst fær átta bókstafi rétta fær bingó. Hægt er að spila nokkrar umferðir af þessu, til að æfa bæði samhljóða og sérhljóða. Kennari getur valið hvort hann noti bingóið til að æfa nemendur í bókstöfunum eða hljóðunum. Fylgiskjöl • Stafaspjöld – hástafir • Stafaspjöld – lágstafir • Bingóspjöld fyrir bókstafi

15 Heimurinn 3 Markmið 3. kafla eru ... • að nemendur læri að segja hvaðan þau eru og hvaða tungumál þau tala ásamt því að kunna nöfnin á fleiri löndum og tungumálum • að nemendur læri persónufornöfnin hann, hún, hán, það, við, þið, þeir, þær, þau • að nemendur læri spurnarfornöfnin hvaðan, hvaða, hver, hvar • að nemendur æfi sagnirnar að koma, að vera, kunna, koma, spila, hlusta, dansa, syngja, tefla, drekka, mála • að nemendur auki við orðaforða sem hjálpar þeim í samræðum, t.d. að tjá á einfaldan hátt hvað þau kunna að gera Hvaðan ert þú? Kveikja • Skrifið á töfluna: Land = Ísland, Kína, Úkraína. Tungumál: íslenska, kínverska, úkraínska til að útskýra orðin land og tungumál (eða notið önnur lönd og tungumál). • Varpið upp mynd af heimskorti og ræðið við nemendur um lönd og tungumál. Í heiminum eru um það bil 200 lönd en tungumál heimsins eru á milli 5000–6000. Í sumum löndum eru töluð mörg tungumál. Lesbók bls. 18–19 • Hlustun 10. Skoðið kortið á bls. 18 – 19 í bókinni og hlustið á samtölin. Fáið nemendur til að segja hvaðan þau koma ef þau vilja. (Athugið að þetta getur verið viðkvæmt mál fyrir suma). Flestum finnst gaman að segja frá því hvaðan þau koma og að sýna til hvaða landa þau hafa komið. • Útskýrið eftirfarandi orðalag: Ég kem frá ..., ég er frá …, ég fæddist í ... • Rifjið upp orðin „ég“ og „þú“ og bætið við orðunum „við“ og „þið“. • Bendið á beyginguna á sögninni að koma: ég kem - þú/hann/hún/hán ... kemur - við komum. Verkefnabók bls. 18-19 • Krossgáta bls. 18. Nemendur gera krossgátu út frá textanum í lesbókinni. Svörin við spurningunum eiga að fara inn í krossgátuna. Hægt er að styðjast við kortið á bls. 18-19 til að finna réttu svörin.

16 • Nemendur svara spurningunni „Hvaðan ert þú?“ og skrifa í talblöðrur fyrir persónurnar neðst á síðu 18, geta stuðst við bls. 18-19 í lesbók. • Ég – við, bls. 19. Nemendur fylla í eyðurnar eftir því sem við á. • Heimskort bls. 19. Nemendur vinna saman í pörum eða hópum og segja frá hvaða landi þau koma. Sum geta jafnvel merkt inn lönd sem þau hafa komið til með einum lit, lönd sem þau langar að koma til með öðrum lit og lönd sem hinir í hópnum hafa komið til með enn öðrum lit. Hugmyndir • Heimskort: Hægt er að útbúa heimskort til að hafa í stofunni þar sem nemendur merkja inn löndin sem þau koma frá. Hvaða tungumál talar þú? Kveikja • Útbúið og sýnið skyggnu með orðinu „velkomin“ á mismunandi tungumálum og gætið þess að tungumál allra nemenda séu á listanum. Bendið á fjölbreytileika tungumála, leturs og stafrófa. Sýnið jafnvel mismunandi leturgerðir og stafróf þeirra landa sem nemendur koma frá. Lesbók bls. 20–21 • Hér er aðaláherslan á tungumálin en einnig á áhugamál og tómstundir (ég kann að …). • Hlustun 11 og 12. Nemendur hlusta á samtölin lesa þau síðan upphátt. • Leyfið nemendum að þýða þau orð sem þau þekkja ekki á sitt tungumál og finna íslensk orð yfir sín áhugamál. Mikilvægt er að nýta tækifærið til að læra önnur orð en eru í bókinni til að segja frá persónulegum áhugamálum. (Ítarlegri kafli um áhugamál er í bók 1b). • Tölum saman. Nemendur spyrja hvert annað spurninganna neðst á bls. 21. Þeir geta fundið einstök orð í netorðabókum. Mikilvægt er að nemendur svari spurningum með heilum setningum. Verkefnabók bls. 20–21 • Hlustunaræfing 8. Nemendur hlusta og tengja svo setningar sem eiga saman í eina málsgrein. • Spyrjið félaga og skrifið: Nemendur taka viðtal við félaga og skrifa niður svörin. Síðasta línan er ætluð spurningu sem þau búa til sjálf.

17 • Hvaða tungumál þekkir þú? Nemendur skrifa niður öll þau tungumál sem þau þekkja. • Glósur. Nemendur glósa orðin. Hugmyndir • Listi yfir lönd og tungumál. Hægt er að búa til lista yfir öll þau lönd sem nemendum dettur í hug og hvaða tungumál eru töluð í hverju landi fyrir sig, til dæmis Ísland -íslenska, Noregur - norska. Benda má á að heiti margra tungumála enda á -ska, en alls ekki öll. • Nota google translate eða önnur tungumálaforrit og leyfa nemendum að hlusta á upplesinn texta. Giska má á hvaða tungumál um er að ræða. • Nemendur finna vinsælt lag á netinu á móðurmáli sínu eða tungumáli sem þeir þekkja og allir hlusta og horfa saman á lögin/myndskeiðin. Persónur Kveikja • Finnið myndir af frægu fólki frá mismunandi löndum og kynnið fólkið. • Segið frá persónunni. Þetta er … Hann/hún/hán er frá … Hann/hún/hán kann að spila fótbolta/syngja/leika/… Lesbók bls. 22–24 • Skoðið með nemendum skýringarmyndir með persónufornöfnum. • Hlustun 13 og 14. Nemendur hlusta og lesa síðan kynningarnar á fólkinu. Þar er áhersla á að kenna bæði persónufornöfnin og orðin maður, kona, kvár, strákur, stelpa, stálp. • Spurningar bls. 23. Hvetjið nemendur til að svara spurningunum með heilum málsgreinum og jafnvel búa til fleiri spurningar og svara þeim. • Skoðið með nemendum skýringarmyndir með persónufornöfnum í fleirtölu á bls. 24. • Hlustun 15 bls. 24. Hlustið á persónulýsingar þar sem fleirtalan er tekin fyrir. Nemendur æfa sig að lesa upphátt og svara svo spurningunum fyrir neðan. Hér má einnig búa til fleiri spurningar. • Skoðið með nemendum samantekt á bls. 25 til að rifja upp helsta orðaforða og málnotkun í kaflanum.

18 Verkefnabók bls. 22–24 • Nemendur fylla inn í það sem vantar í fyrsta verkefninu en eiga svo að búa til allan textann fyrir hinar persónurnar. Hafa má textann í lesbókinni til hliðsjónar. • Nemendur skrifa texta um Gabrielu – setja textann í rammanum í 3. persónu frásögn. Ekki er þörf á að leggja mikla áherslu á málfræðina, aðalatriðið er að nemendur spreyti sig á að skrifa textann. • Ritun bls. 23. Nemendur skrifa texta um sig sjálfa. Ef þeir vilja það ekki er hægt að skálda eða skrifa um einhvern annan. • Glósur bls. 23. Nemendur glósa orð á sínu tungumáli, bæta við orðum eftir þörfum. • Ritun bls. 24. Hér eru ritunarverkefni þar sem nemendur eiga að skrifa fyrst um tvær persónur úr lesbókinni (Kári og Árni) en svo eiga þeir að búa til lýsingu á nýjum persónum. Nemendur geta t.d. skrifað um vini sína eða einhverja sem þeir þekkja. Hvetjið nemendur til að nota allan þann orðaforða sem þeir hafa lært og skrifa eins mikið og þeir geta. • Nemendur fylla út sjálfsmat á bls. 25. Ef þeir telja sig þurfa frekari þjálfun þarf að aðstoða þá til að finna leiðir til þess (t.d. með Quizlet eða spilum). Hugmyndir • Kynningar: Nemendur búa til stuttar munnlegar kynningar um hvert annað eða sig sjálfa. Nemendur velja sér einhverja fræga persónu og búa til kynningu um hana í sama dúr og er í bókinni. • Persónufornöfn: Prentið út myndir sem tengjast persónufornöfnum eða varpið þeim á skjá. Nemendur geta dregið myndir og sagt hvaða persónufornafn á við. Einnig er hægt að nota myndirnar til að æfa nemendur í frekari orðaforða. Til dæmis: Þetta er maður, hann heitir … og hann kann að … (Nemendur búa til nöfn sjálfir). • Búið til renninga með spurningum úr bókinni og plastið. Hvað heitir þú? Hvað segir þú gott? Hvaðan ert þú? Hvaða tungumál talar þú? Hvernig stafar þú nafnið þitt? Spilar þú á hljóðfæri? Látið nemendur draga renning og svara spurningunni. Hægt er að nota þetta og bæta svo alltaf í safnið eftir því sem orðaforðinn eykst og nota þetta aftur og aftur til að rifja upp. Könnun úr 3. kafla Fylgiskjöl • Persónufornöfn – táknmyndir • Persónufornöfn – táknmyndir – Veggspjald A3 • Persónufornöfn – orð og myndir • Áhugamál – orð og myndir

19 Málfræði 1 Lesbók bls. 26 Nafnorð • Kynnið fyrir nemendum orðið nafnorð. Þeir geta fundið þýðingu þess á eigin tungumálum. • Nemendur nefna nokkur nafnorð sem eru skrifuð á töfluna. • Útskýrið að í íslensku geti nafnorð verið í þremur kynjum, karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni. Kynnið fyrir nemendum ólíkar endingar orða eftir kynjum. Nefna einnig greininn sem fylgir kynjunum. Útskýrið að í samantekt lesbókar séu nafnorðin sem eru í karlkyni blá, kvenkyni rauð og hvorugkyni græn. • Skoðið orðaforðann sem nemendur hafa nú þegar lært og skoðið með þeim kyn orðanna. Athugið að kyn orða geta verið mjög mismunandi eftir tungumálum. Æskilegt er að kynna sér lítillega hvernig málum er háttað í tungumálum nemendanna til að skilja betur hvað þeim finnst erfitt hvað kyn nafnorða varðar. • Skrifið greini aftan við orðin sem þið voruð búin að skrifa á töfluna og útskýrið. • Notið orðaspjöld með orðaforðanum úr 1. kafla, leyfið nemendum að draga orð og segja í hvaða kyni orðið er og segja orðið með greini. • Athugið að þetta er aðeins kynning á þessum hugtökum, ekki fara of djúpt í útskýringarnar og undantekningar. Fornöfn og persónufornöfn • Útskýrið fyrir nemendum persónufornöfnin í tengslum við kyn nafnorða. Hér er aftur hægt að nýta táknmyndir með fornöfnum. Verkefnabók bls. 26 Nafnorð, greinir og persónufornöfn • Nemendur vinna nafnorðaverkefni þar sem þeir skrifa orðin með greini og viðeigandi fornöfn (hann/hún eða það). Fornöfn – persónufornöfn • Tenging. Nemendur tengja á milli orða. • Ég – hann – hún – hán – við – þið – þau – þær: Nemendur fylla inn í eyðurnar rétt persónufornöfn.

20 Lesbók bls. 26–27 Sagnorð • Kynnið fyrir nemendum hugtakið sagnorð og leyfið þeim að finna merkingu orðsins á sínu tungumáli. • Hvetjið nemendur til að finna sagnorð úr textanum og skrifið þau á töfluna. Leyfið ef til vill nemendum að finna fleiri orð með því að nota þýðingarforrit. • Með eldri nemendum er gott að skoða sérstaklega sagnorðin að heita, að segja, að tala og að skilja og útskýra sagnorðabeygingar. • Sýnið nemendum hvernig endingar sagnorða fylgja persónufornöfnum: þú heitir, segir, talar, skilur og við heitum, segjum, tölum og skiljum. Hér er mikilvægast að nemendur skilji að um sama orðið sé að ræða þó svo það sé beygt á ýmsa vegu. Verkefnabók bls. 28–29 Sagnorð • Nemendur vinna verkefni með sögnunum að vera, að tala, að heita og að segja. Fylla orðin inn í réttri mynd. Leyfið nemendum að hafa lesbókina til hliðsjónar. Lesbók bls. 27 Spurnarorð • Kynnið spurnarorðin hvað, hvaðan, hvaða, hver, hvernig og skoðið þau í samhengi við spurningarnar sem þau hafa verið að svara í köflum 1-3. • Vekið athygli á því að spurnarorðin eru skrifuð með hv en ekki kv. • Hvetjið nemendur til að búa til spurningar með þessum orðum og spyrja hvert annað. Verkefnabók bls. 30 Spurnarorð • Hvað – hvaða – hvaðan – hver – hvernig. Nemendur setja inn rétt spurnarorð annars vegar og búa til spurningar hins vegar.

21 Tölur og tími 4 Markmið 4. kafla eru … • að nemendur læri tölurnar 1–100 á íslensku • að nemendur þekki töluorðin 1–4 í öllum kynjum • að nemendur geti sagt til um aldur • að nemendur læri að segja kennitölu, heimilisfang og símanúmer • að nemendur geti sagt hvað klukkan sé á íslensku • að nemendur læri vikudagana • að nemendur auki við orðaforða tengdan tölum Tölur Kveikja • Skrifið 1-2-3 og einn, tveir, þrír á töfluna. Fáið nemendur til að koma upp á töflu og skrifa einn, tveir, þrír á eigin tungumáli og kenna hinum. Lesbók bls. 30–31 • Skoðið með nemendum myndina á bls. 30 og farið yfir orðaforða. Þekkja nemendur Slönguspil? Finnst þeim gaman að spila? • Hlustun 16. Nemendur hlusta á tölurnar og endurtaka. Stundum er gott að taka fimm tölur í einu og endurtaka nokkrum sinnum. Tölurnar 11–20 reynast sumum nemendum erfiðar og margir rugla saman 13 og 30 og 14 og 40. Bendið nemendum á -tán og -tján. Með æfingu og þjálfun kemur þetta smátt og smátt. Sumum finnst gott að skrifa tölurnar niður nokkrum sinnum til að reyna að leggja þær á minnið. • Gott er að æfa tölurnar með því að lesa upp nokkrar tölur og nemendur skrifa þær niður. Einnig er góð æfing að skrifa tölu á töfluna og nemendur skrifa sömu tölu með bókstöfum. • Góð leið til að allir læri tölurnar fljótt er að skrifa tölurnar 1-10 upp á töfluna (bæði tölustafi og með bókstöfum við hliðina, 1 = einn o.s.frv.). Allir lesa saman tölurnar upphátt. Svo strikar kennarinn út t.d. tvær tölur sem eru skrifaðar með bókstöfum (skilur eftir tölustafina) og biður einhvern nemanda að segja allar tölurnar í réttri röð, líka þær sem er búið að stroka út. Næst strokar kennarinn út eina til tvær tölur í viðbót og biður einhvern nemanda að segja allar tölurnar.

22 Kennarinn heldur áfram þangað til búið er að stroka út allar tölurnar (skrifaðar) og nemendur eru búnir að segja allar tölurnar. Nemendur heyra tölurnar aftur og aftur og þannig festast þær mjög vel í minni. • Hlustun 17 bls. 31. Hér eru tugirnir lagðir inn og æfðir. • Hlustun 18. Nemendur hlusta á bingótölur (BINGÓ og TÖLUR) lesnar upp og endurtaka þær. • Kastið tengingum. Hver er summan? • Til að æfa tölurnar 1-6 er hægt að nota tening. Hver nemandi kastar teningi og segir hver talan er. Þegar allir eru með tölurnar 1-6 á hreinu er hægt að bæta við teningi og æfa 1-12, enda jafnvel á þremur eða fjórum teningum. • Þegar unnið er með tvo tenginga má biðja nemendur um að draga lægri töluna frá hærri tölunni og jafnvel margfalda tölurnar tvær. Gott að æfa í pörum eða litlum hópum. • Hér má leggja inn orðin plús, mínus, sinnum, summa, sama sem og jafnt og. Verkefnabók bls. 31–32 • Nemendur vinna verkefni í verkefnabók, skrifa tölur bæði með bókstöfum og tölustöfum. Einnig eru eyðufyllingar og tengiverkefni. • Hlustunaræfing 9. Nemendur hlusta og skrifa rétta tölu. • Tugirnir bls. 32. Nemendur skrifa rétta tugi með tölustöfum. • Eyðufylling. Nemendur skrifa tölurnar sem vantar í eyðurnar með bókstöfum. • Tengiverkefni. Tölustafir eru tengdir við réttar tölur skrifaðar með bókstöfum. • Hlustunaræfing 10 og 11. Bingó (PARÍS og ÞYRLA): Nemendur hlusta og merkja við/ krossa yfir þær tölur sem þeir heyra. Athugið að ekki eru allar tölurnar á bingóspjöldunum lesnar upp. Hér æfa nemendur sig bæði í því að hlusta eftir tölum og bókstöfum. Í lokin kemur í ljós heil röð og nemendur geta kallað bingó! Hugmyndir • Teningaspil. Nemendur kasta fjórum teningum, leggja saman tölurnar sem koma upp, skrifa þær niður og svo gerir næsti. Þegar kemur að annarri umferð kasta nemendur aftur teningunum og leggja töluna saman við summuna sem þeir fengu síðast. Sá vinnur sem fyrstur fær 500 eða 1000 stig. Hér er mikilvægt að nemendur æfi sig að segja tölurnar upphátt. Hægt er að spila spilið í pörum eða hóp og skrifa niður stigin. • Slönguspil/Lúdó eða önnur einföld spil sem krefjast þess að talið sé upphátt. • BINGÓ. Það er góð hugmynd að nemendur skiptist á að lesa upp tölurnar sem koma upp. Hægt er að prenta út bingóspjöld af netinu og velja að spila með fyrstu 25 tölunum, fyrstu 50 tölunum o.s.frv. (Munið að það er alltaf gaman að hafa einhver smá verðlaun í Bingó).

23 • Leikur. Einn, tveir og búmm. Nemendur sitja í hring. Kennari velur eina tölu, t.d. þrír, og þá má ekki segja neina tölu sem inniheldur þrjá, heldur segja búmm í staðinn. Sá fyrsti byrjar og segir „einn“, næsti segir „tveir“ og sá þriðji á að segja „búmm“, svo fjórir og koll af kolli þar til kemur að 13, 23, 33, sem er allt búmm. Ef einhver gleymir sér, er sá hinn sami úr leik. Mörg tilbrigði eru við þennan leik, hægt er að hafa fleiri en eina tölu búmmtölu og leika sér aðeins með reglurnar t.d. reyna að gera þetta hraðar og hraðar. • París. Leitarorð á netinu: parís (leikur). Hægt er að útbúa París með límbandi á gólfinu eða fara út og nota krít. • Snúsnú. Hoppa og telja upphátt um leið. Hoppa fyrst einn, og svo tvo … upp í tíu. • Quizlet og Bitsboard er einnig hægt að nota til að æfa tölurnar. Að telja Kveikja • Skrifið á töfluna tölurnar 1, 2, 3, 4 og orðin í öllum kynjum (einn, ein, eitt; tveir, tvær, tvö; þrír, þrjár, þrjú; fjórir, fjórar, fjögur). • Skrifið tölustafina með litum og athugið hvort nemendur átti sig á því að litirnir tákna mismunandi kyn orðanna. Lesbók bls. 32 • Rifjið upp að orð geta verið í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni. Bendið nemendum á að tölurnar 1, 2, 3, 4 breytast eftir kynjum. Aðrar tölur eru eins í öllum kynjum. Það getur verið gott fyrir nemendur að hafa þessar tölur upp á vegg til að minna sig á hvernig fyrstu fjórar tölurnar breytast eftir kynjum, tölur eftir kynjum til útprentunar. • Hlustun 19. Nemendur hlusta og geta endurtekið til að þjálfa framburð á tölum. • Notið hluti og orð úr skólastofunni sem nemendur hafa nú þegar lært og rifjið upp kyn orðanna. Kennið nemendum fleirtölu orðanna í leiðinni, t.d. einn yddari, tveir yddarar; ein bók, þrjár bækur; eitt blað, fjögur blöð. • Hlustun 20. Nemendur hlusta og æfa sig síðan með því að lesa spurningar og svör. • Hvetjið nemendur til að telja hluti í skólastofunni og segja tölurnar upphátt. Æfa má fleiri orð en þau sem eru nefnd í lesbókinni. Í tengslum við þetta æfa nemendur sig á spurningunum neðst á bls. 32 og geta bætt við fleiri hlutum til að spyrja um. • Gott er að gefa nemendum tækifæri til að æfa sig enn frekar með því að draga spjöld. Sjá hugmyndir hér aftar.

24 Verkefnabók bls. 33 • Nemendur skrifa í eyður fjölda stelpna, stráka og barna, með bókstöfum. • Nemendur skrifa tölur með bókstöfum við myndir. Hugmyndir • Að draga saman myndir (úr 1. kafla) og tölur: Nemandi dregur mynd annars vegar og tölu hins vegar og segir orðin upphátt í viðeigandi tölu. Dæmi: einn yddari, þrjár bækur. Einnig hægt að nota tening í stað talnaspjalda. Aldur Kveikja • Kennari skrifar aldur sinn á töfluna. Spyr nemendur hvað þeir haldi að þessi tala tákni. Skrifar svo t.d. Ég er 45 ára gömul. • Spyrjið svo nemendur: „Hvað ert þú gömul? Hvað ert þú gamall? Hvað ert þú gamalt?“ og skrifið spurningarnar á töfluna. • Biðjið nemendur að endurtaka spurningarnar og skrifið á töfluna: Ég er … ára. Lesbók bls. 33 • Hlustun 21. Skoðið myndirnar, hlustið á samtölin og fáið nemendur til að lesa samtalið. Útskýrið fyrir nemendum muninn á gamall, gömul og gamalt. Nemendur svara því næst spurningunum munnlega hversu gamlir krakkarnir í bókinni eru. • Nemendur æfa sig að spyrja hver annan um aldur. • Notið töluspjöld. Allir nemendur fá einn miða og skiptast á að spyrja: „Hvað ertu gamall/gömul/gamalt?“ Nemendur svara samkvæmt miðanum sínum. Þannig er hægt að rifja upp allar tölurnar. Hægt er að skipta um miða til að æfa fleiri tölur og taka fleiri umferðir. Verkefnabók bls. 34–35 • Nemendur fylla inn í talblöðrur og skrifa undir myndirnar í samræmi við sýnidæmin. • Hlustunaræfingar 12–14. Nemendur hlusta, merkja við rétt svör og skrifa í eyður. • Nemendur svara spurningum um sjálfa sig.

25 • Neðst á síðunni er tafla. Nemendur spyrja hvert annað um nafn og aldur og skrá upplýsingarnar í töfluna. Ef allir eru jafngamlir mætti nota miðana með tölunum til að fá fjölbreytni, nemendum finnst oft fyndið að segja einhvern annan aldur en þeirra. Hugmyndir • Hægt er að varpa upp myndum af frægu fólki og velta fyrir sér aldri þess. Nemendur geta giskað og jafnvel keppt um hver kemst næst rétta aldrinum. Þeir geta sjálfir komið með hugmyndir að frægu fólki sem þeir þekkja. Kennitala og símanúmer Kveikja • Sýnið skyggnu af passa og ökuskírteini þar sem kennitala kemur fram. Spyrjið nemendur hvort þau viti hvað kennitala er og þekki sína eigin. Lesbók bls. 34–35 • Hlustun 22. Skoðið myndina á bls. 34 og ræðið hvað er að gerast á henni. Vekið athygli á nýjum orðum sem finna má á myndinni. • Hlustun 23 og 24. Nemendur hlusta á og lesa samtölin, annaðhvort í pörum eða tveir lesa fyrir allan hópinn. • Gangið úr skugga um að allir skilji orðin kennitala og símanúmer. • Hér væri hægt að fara aðeins í hvernig kennitalan er byggð upp, sérstaklega ef nemendur kunna ekki kennitöluna sína. Þá koma upp orð eins og fæðingardagur, mánuðir og ár. Gott er að minnast á þetta og finna út fyrri hluta kennitölu hvers og eins þannig að allir geti sagt kennitöluna sína. • Tölum saman. Nemendur vinna í pörum og æfa sig að svara spurningunum munnlega með heilum setningum. Verkefnabók bls. 36 • Nemendur svara spurningum um kennitölu og símanúmer. • Hlustunaræfing 15. Nemendur hlusta og merkja við rétt svör. • Hlustunaræfing 16. Nemendur hlusta og skrifa svörin með tölustöfum. • Nemendur fylla út glósurammann.

26 Hugmyndir • Látið nemendur raða sér í röð eftir aldri eða í hvaða mánuði þeir eru fæddir, allir sem eru fæddir í janúar fara fremst svo febrúar o.s.frv. Nemendur geta gert þetta með látbragði án þess að tala. Einnig væri hægt að raða sér eftir stafrófsröð. Skipta mætti hópnum í tvennt ef hann er stór og hafa keppni um hvor hópurinn sé fljótari að raða sér upp. Hvar átt þú heima? Kveikja • Sýnið nemendum Íslandskort. Biðjið nemendur um að segja hvert þeir hafa komið og sýna það á kortinu. Lesbók bls. 36–37 • Skoðið kortið í bókinni á bls. 36–37 og farið yfir orðin norður, suður, austur, vestur. • Bendið á að bæði er hægt að segja „ég á heima“ og „ég bý“. • Hlustun 25. Nemendur hlusta á upplýsingar um persónurnar geta síðan skipst á að lesa þær. • Biðjið nemendur um að segja hvar þeir eiga heima á landinu ásamt því að segja heimilisfangið sitt. • Tölum saman. Nemendur segja frá sér og nýta allt sem þeir hafa nú þegar lært: Ég heiti …, ég er … ára, ég er frá …, ég tala …, ég kann …, ég á heima … Einnig er hægt að bæta við kennitölu og símanúmeri. Ef nemendur vilja ekki gefa upp sínar persónulegu upplýsingar er hægt að velja eina af persónunum á blaðsíðunum og skálda í eyðurnar. Aðalatriðið er tjáningin og að nota orð og orðalag sem búið er að leggja inn. Verkefnabók bls. 37–38 • Nemendur skrifa sitt eigið heimilisfang en tala svo við samnemendur og skrifa í rammana nöfn þeirra, aldur, heimilisföng og símanúmer. Mikilvægt er að nemendur spyrji í heilum setningum: Hvað heitir þú? Hvað ert þú gamall/gömul/ gamalt? Hvar áttu heima? Hvert er símanúmerið þitt? • Hlustunaræfing 17. Nemendur hlusta og tengja nöfn við réttan aldur og staði. • Íslandskort. Nemendur merkja staði inn á kortið. Hægt er að nota lesbókina til stuðnings.

27 Hugmyndir • Kynning. Nemendur kynna félaga og geta notað punktana úr „Tölum saman“ bls. 37 í lesbók. • Nemendur velja sér tvær persónur úr bókinni og kynna þær. • Mjög skemmtilegt er að nota forritið Padlet (padlet.com) til að búa til rafræna korktöflu. Þar eru inni bæði Íslandskort og heimskort og nemendur geta staðsett sig á kortinu og sett inn hlekki, myndir og upplýsingar. Hægt er að nota þessa hugmynd hér og eins í kaflanum Hvaðan ert þú? Hvað er klukkan? Kveikja • Varpið upp mynd af klukkum og spyrjið: Hvað er klukkan? • Spilið eða syngið lagið Meistari Jakob, jafnvel á mörgum tungumálum. Finna má lagið á Spotify. Kannið hvort nemendur kunni textann á sínu tungumáli. Hægt er að finna textann á mörgum tungumálum t.d. á vefsíðunni Börn og tónlist (slá inn leitarorðið Meistari Jakob). Lesbók bls. 38–39 • Skoðið myndina af klukkunni í bókinni. Kennið nemendum að segja „Hvað er klukkan?“ Bendið á að tölurnar eru sagðar í hvorugkyni þótt orðið klukka sé kvenkyn „Hún er eitt, tvö …“ Æfið þetta með nemendum. • Útskýrið „í og yfir“, „korter“ og „hálf“. Margir nemendur eiga erfitt með að skilja „hálf“ og því þarf að útskýra það sérstaklega vel. Kennið líka „klukkuna vantar …“ • Hlustun 26 bls. 39. Nemendur hlusta og lesa síðan texta við hverja klukku. • Neðst á síðu 39 er munnlegt verkefni með myndum af klukkum. Hvetjið nemendur til æfa sig að spyrja hver annan og segja hvað klukkan er. Verkefnabók bls. 39 • Tengiverkefni. Nemendur tengja málsgreinar við rétta mynd af klukkum. • Verkefni þar sem nemendur skrifa hvað klukkan er í heilum setningum. Hugmyndir • Gott er að hafa klukku þar sem hægt er að stilla vísana og leyfa nemendum að æfa sig. Einnig er hægt að teikna klukku á töfluna eða varpa upp mynd af klukku og fá nemendur til teikna réttan tíma inn á hana eða segja hvað klukkan er.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=