Ég, þú og við öll - Kennsluleiðbeiningar

Ég, þú og við öll – Kennsluleiðbeiningar – © 8946 Námsgagnastofnun 2014 6 Af hverju þurfum við að læra um jafnrétti? Staða Íslands Árið 2012 var Ísland í fyrsta sæti á lista World Economic Forum yfir jafnrétti kynjanna í mikilvægum málaflokkum. Norðurlandaþjóðirnar skipta efstu sætunum á milli sín; Finnland í öðru sæti, Noregur í því þriðja, Svíþjóð í fjórða og svo Danmörk í sjöunda sæti. Samkvæmt þessum lista hefur 80% jafnrétti verið náð á Íslandi. En hvað svo? Eru 80% leiðarinnar nóg? Ef hér væri um keppni í sjósundi að ræða væri spurningin: Hættum við að synda þegar við erum búin með 80% leiðarinnar og vonumst til að straumurinn beri okkur að ströndinni? Við eigum töluverðan spotta eftir í land ennþá þó mikið hafi gerst núna á allra síðustu árum og margt áunnist. Nýjar rannsóknir, m.a. rannsókn Andreu Hjálmsdóttur, sýna fram á það að íhaldssöm viðhorf til jafnréttismála hafa aukist mjög meðal ungs fólks á síðustu árum. Þetta bakslag í jafnréttisbaráttunni þarf að taka alvarlega og skoða vel hvers vegna ungmenni hafa eins íhaldssöm viðhorf og kannanir virðast sýna. Þá er óútskýrður launamunur kynjanna ennþá töluverður og bilið virðist aukast eftir því sem launin verða hærri. Þó svo að konur séu í meirihluta þeirra sem ljúka framhaldsmenntun (framhalds- og/eða háskólastigi) virðist menntunin ekki ná að skila þeim atvinnu eða launum í samræmi við hana. Þetta eru aðeins nokkur af ótal mörgum mikilvægum verkefnum sem við þurfum að kljást við á síðustu metr- unum í land. Sagnfræðilegar kenningar um kynjamisrétti Carol M. Worthman setti fram þá kenningu að í fornum samfélögum safnara og veiðimanna hafi verið jafnræði milli kynjanna. Valdajafnvægið hafi hins vegar tekið að breytast smám saman við landbúnað- arbyltinguna. Verkaskipting er þar ein megin ástæða fyrir breyttum kynhlutverkum og valdajafnvægi milli kynjanna. Samkvæmt kenningu Friedrich Engels, var það við tilkomu plógsins sem hlutverkaskiptingin varð í grunninn sú sem hefur haldist alla tíð síðan. Þar sem líkamlegur styrkur skipti nú öllu fyrir lífsafkomuna kom það í hlut karla að stýra plógnum en kvenna að sinna verkum innan heimilisins sem varð þeirra svæði sökum barneigna. Eftir því sem samfélögin stækkuðu fóru yfirráð eigna að skipta meira máli og þar sem svæði karla var úti við lá beinast við að eignarrétturinn yrði þeirra. Því segir Friedrich Engels að misskipting valds milli kynjanna hafi komið til vegna stofnanavæðingar eignarrétts í samfélaginu. Smám saman varð valdaleysi kvenna hluti af trúar- og samfélagslegu kynhlutverki þeirra. Á hverju ári eru tugþúsundir kvenna beittar misrétti vegna trúarbragða, hefða eða venja samfélaganna sem þær búa í. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2000 eru meira en 5000 konur myrtar á hverju ári vegna þess að þær þykja á einhvern hátt hafa stigið yfir þessi mörk. Hugmyndir að verkefnum • Hér mætti hugsa sér að skipta nemendahópnum í umræðuhópa þar sem rætt er um mannréttindi; hvað eru mannréttindi, hvað eru brot á mannréttindum, af hverju skiptir máli að þekkja rétt sinn, geta allir verið jafnir, þýðir jafnrétti að allir séu nákvæmlega eins, hversu langt ná réttindi hvers og eins? • Í kaflanum í nemendabók er sagt frá Dýrabæ eftir George Orwell. Lesa mætti alla bókina eða valda kafla fyrir hópinn. Eins væri hægt að horfa á teiknimynd sem byggð er á bókinni (alla eða að hluta).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=