Ég, þú og við öll

6 Af hverju þurfum við að læra um jafnrétti? Rithöfundurinn George Orwell skrifaði bók sem heitir Animal Farm eða Dýrabær á íslensku. Í bókinni segir frá atburðum á bóndabæ þar sem illa er farið með dýrin. Dýrin gera að lokum uppreisn og reka bóndann burt. Þau setja sér reglur sem eiga að tryggja að allir séu jafnir. Svínið Napóleón tekur svo völdin og breytir reglum dýranna svo hann geti ráðið öllu sjálfur. Svínin sem fylgja honum verða forréttindastétt á bænum og fara að láta hin dýrin þræla fyrir sig. Reglan um að öll dýrin ættu að vera jöfn breyttist í: „Öll dýr eru jöfn. En sum dýr eru jafnari en önnur.“ Því miður er þetta einmitt svona víðs vegar í heiminum, líka á Íslandi. Mannréttindi eru ekki sjálfsögð réttindi allra eins og þau ættu að vera. Sums staðar njóta konur og karlar ekki sömu réttinda, sums staðar eru réttindi barna fótum troðin, sums staðar njóta þeir sem búa við fötlun ekki sjálfsagðra réttinda og sums staðar eru réttindi háð því hvort maður er ríkur eða fátækur. Jafnvel þótt ákveðnum réttindum hafi verið náð er ekki víst að þau haldist um alla framtíð sé þeirra ekki gætt. Sú/sá sem þekkir rétt sinn og annara er betur í stakk búin(n) til að berjast fyrir því að sá réttur sé virtur. Þekkir þú réttindi þín? Hvar getur þú fengið upplýsingar um réttindi þín? ÖLL DÝR ERU JÖFN EN SUM DÝR ERU JAFNARI EN ÖNNUR

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=