Ég, þú og við öll

3 Enginn er eyland Hefur þú heyrt orðatiltækið: Enginn er eyland? Með því er átt við að enginn sé einn í heiminum. Við þörfnumst öll hvers annars enda fæðumst við inn í samfélög, ölumst þar upp og lifum í samfélagi við annað fólk, dýr og náttúruna. Til að samfélög geti blómstrað er mikilvægt að allir virði réttindi hver annars.Til þess að geta passað upp á réttindi sín og annarra þarf fyrst að vita hver þau eru. Við þurfum líka að geta gert greinarmun á réttindum og forréttindum. Stundum verða nefnilega forréttindi eins hóps til þess að brotið er gegn réttindum annars hóps. Mannréttindabarátta snýst um réttindi allra í heiminum. Á Íslandi er reynt að gæta réttinda fólks með alls konar lögum og samþykktum. Það tekst samt ekki alltaf alveg fullkomlega. Sumum réttindum hefur ekki enn verið náð og stundum eru brotin réttindi á fólki. Það er líka hægt að brjóta réttindi á einhverjum án þess að vera beinlínis að brjóta lög. Það skiptir máli hvernig við komum fram hvert við annað í daglegu lífi. Þegar réttindi eru brotin á einhverjum er mikilvægt að til sé fólk sem getur bent á brotin og krafist úrbóta. Þannig verður samfélagið smátt og smátt réttlátara fyrir alla. Í þessarri bók ætlum við að fara í eins konar ferðalag þar sem við reynum að átta okkur á því hvað jafnrétti er. Við munum skoða mismunandi hliðar jafnréttis, t.d. kynjajafnrétti, jafnrétti óháð kynhneigð, milli fatlaðra og ófatlaðra, milli fólks með ólíkan húðlit, tungumál og uppruna. Við kynnumst ýmsum hetjum sem hafa barist fyrir jafnrétti. Við heyrum líka sögur sem veita svolitla innsýn í stöðu jafnréttismála bæði hérlendis og víðsvegar í heiminum. Áður en við leggjum af stað í ferðalagið er best að taka til þau verkfæri sem við þurfum á að halda. Ýmis hugtök, eins og staðalímyndir, félagsmótun og kyngervi , er gott að hafa bak við eyrað þegar verið er að ræða um jafnrétti. Þessi hugtök og fleiri eru verkfærin sem við notum til að rannsaka og skilja samfélagið sem við búum í.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=