Ég, þú og við öll

44 Líklega hefur þér dottið í hug að þau Kristín og Einar myndu síðar sofa saman. Það er bæði falleg og eðlileg tjáning ástar og tilfinninga þegar báðir aðilar hafa gefið samþykki sitt án þrýstings eða þvingunar. Ást og kynlíf Á Íslandi og í mörgum fleiri löndum er kynfræðsla hluti af námsefni í skólanum. Ef til vill þykir mörgum þetta örlítið neyðarlegt en skilja samt að það er nauðsynlegt að hafa skilning á líkama sínum og tilfinningum og vita hvað kynlíf er. Það er ósköp eðlilegt að vera forvitinn en það er ekki endilega auðvelt að spyrja um það sem mann langar að vita um kynlíf. Kannski þorir maður ekki að spyrja í skólanum og kannski ekki heima heldur. Þegar maður er forvitinn um eitthvað dettur manni kannski í hug að best sé að fá upplýsingar á netinu. Á netinu er að finna óendanlega mikið af alls konar efni um hvað sem er en það getur verið erfitt að fóta sig þar og átta sig á hvað er í alvöru og hvað er tilbúningur. Það ætti að vera hægt að finna upplýsingar um kynlíf en það er hætta á að upplýsingaleitin leiði mann að því sem kallað er klám. Klám er afbökun á kynlífi. Í klámi er mikið valdaójafnvægi þar sem karlinn drottnar oftast yfir konunni. Valdamikla fólkið niðurlægir og níðist á því valdaminna og notar það eins og það væru hlutir en ekki fólk. Fólkið í kláminu lætur eins og þetta sé allt í lagi en í rauninni er ekki verið að sýna eðlilegt kynlíf. Lykilorðin fyrir klám eru: sviðsetning, gert fyrir áhorfendur, ofbeldi, valdaójafnvægi, hlutgerving, engar tilfinningar, blekkingar, niðurlæging, að nota aðra eða vera notaður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=