Ég, þú og við öll

42 Það að vinna fyrir sér, ganga í hjónaband og eignast börn er eitthvað sem þú tengir eflaust því að vera fullorðin(n). En stundum neyðast einstaklingar sem eru enn á barnsaldri til að axla slíka ábyrgð miklu fyrr en þeir eru tilbúnir til. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, svo sem menntunarskortur, fátækt eða hefðir sem taka ekki mið af jafnrétti. Barnabrúðkaup Á hverju ári eru 14 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri gefnar í hjónaband, eða: • 1.166.666 á mánuði, eða … • 269.230 á viku, eða … • 38.461 á dag, eða … • 27 á mínútu, eða … • 2 á sekúndu. May var á leið heim úr skólanum þegar þrír strákar réðust á hana og rændu henni. Henni var haldið í litlu herbergi heima hjá einum strákanna, Pao . May var haldið í þrjá daga á meðan foreldrar Pao sömdu við fjölskyldu May um kaup á henni sem brúði fyrir Pao. May og Pao voru bæði 12 ára. May og Pao þekktust ekki áður en hann fékk vini sína til að hjálpa sér við að ræna henni. Pao vinnur sem verkamaður og May sér um heimilið ásamt því að vinna úti á akrinum. May dreymdi um að verða kennari en sér ekki fram á að fá að fara aftur í skóla vegna vinnuálagsins. Það á bara eftir að aukast þegar hún byrjar að eignast börn, hvort sem það verður þegar hún er orðin 13 eða 14 ára. Það er ólöglegt að giftast svona ung í Víetnam en May og Pao búa langt úti í sveit þar sem er haldið fast í þessa gömlu hefð, brúðarrán. Liset var ekki nema 12 ára þegar hún og James byrjuðu að vera saman. James var þá 16 ára. Liset varð ólétt þegar hún var 13 ára en missti fóstrið. Ári síðar fengu þau leyfi hjá foreldrum sínum til að giftast. Samkvæmt lögum Texas, þar sem þau eiga heima, þurfa Liset og James að vera orðin 18 ára til að mega giftast. Það er samt hægt að fá undanþágu ef foreldrarnir samþykkja það. Þá er lágmarksaldurinn 14 ára. Liset og James voru einmitt 14 og 18 ára þegar þau giftust. Foreldrum Liset fannst hún allt of ung og höfðu áhyggjur af að hún næði ekki að mennta sig. Þremur árum síðar voru bæði Liset og James hætt í skóla og farin að vinna fullan vinnudag fyrir lág laun. Dóttir þeirra var orðin þriggja ára gömul og þau áttu von á öðru barni. Giftingaraldur á Íslandi er 18 ár. Hvers vegna heldur þú að svona aldurstakmark sé sett í lög víða um heim?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=