Ég, þú og við öll

40 Súkkulaði er unnið úr kakóbaunum en þær vaxa á trjám í heitum löndum, meðal annars á Fílabeinsströndinni en þangað er ferð okkar heitið núna. Yaya „Ég heiti Yaya og ég er tólf ára gamall. Ég er frá Malí en núna bý ég á Fílabeinsströndinni. Ég var úti að leika mér með vinum mínum rétt utan við þorpið mitt í Malí fyrir ári síðan. Við vorum nálægt veginum og sáum þegar bíll stoppaði rétt hjá. Maður steig út úr bílnum, opnaði húddið og fór að skoða vélina. Ég var forvitinn um hvað hefði komið fyrir bílinn svo ég hljóp til hans en vinir mínir fóru aftur inn í þorpið. Þegar ég kom til hans byrjaði hann að spjalla við mig. Hann spurði hvað ég væri gamall og hvar ég ætti heima. Svo bað hann mig um að setjast inn í bílinn og snúa lyklinum fyrir sig. Ég gerði eins og hann bað um og þegar bíllinn fór í gang lokaði hann húddinu og settist svo inn í bílinn hjá mér. Ég færði mig úr bílstjórasætinu og ætlaði að fara út úr bílnum en þá sagðist maðurinn ætla að skutla mér inn í þorpið. Ég heyrði lásinn smella í bílhurðinni og þá varð ég hræddur. Maðurinn keyrði af stað en hann hægði ekki á sér þegar við komum að þorpinu heldur gaf í. Ég reif í hurðina og bankaði í rúðuna en við fórum svo hratt fram hjá þorpinu að það tók enginn eftir mér. Hann keyrði með mig að rútustöð við landamærin og þar var ég settur aftan á mótor- hjól hjá öðrum manni. Hann sagði mér að halda mér fast og ef ég hreyfði mig myndi hann drepa mig. Hann keyrði með mig eftir krókaleiðum yfir landamærin og loks hingað á plantekruna. Hér eru margir krakkar á sama aldri og ég. Við eigum að höggva niður kakóbelgina og opna þá svo með sveðju til að ná kakóbaununum úr. Við skerum okkur oft. Vinnudagurinn er langur og erfiður. Ég hugsa oft um að strjúka en hef ekki þorað ennþá. Ég sakna foreldra minna og systkina. Ég hef ekki séð þau í meira en ár. Mér finnst erfiðast að hafa ekki einu sinni fengið að kveðja þau.“ Hvert er uppáhalds súkkulaðið þitt? Hvaðan heldur þú að kakóbaunirnar í það hafi komið?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=