Ég, þú og við öll

38 Oftast eru fyrsti viðkomustaður flóttafólks svo kallaðar flóttamannabúðir. Sumir komast þaðan til annarra áfangastaða en margir þurfa að dveljast þar mjög lengi, jafnvel alla ævi. Ajmal „Ég var í rútu á leiðinni í heimsókn til systur minnar þegar lögreglan stöðvaði bílinn. Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við þegar lögreglumaðurinn kom til mín og bað mig um að sýna skilríkin. Ég opnaði bara töskuna mína og þóttist leita í henni þangað til þeir sögðu mér að fylgja sér út úr rútunni og yfir í aðra. Ég spurði hvert væri verið að fara með mig en lögreglumaðurinn sagði bara að það myndi koma í ljós þegar ég væri komin þangað. Þegar ég kom í hina rútuna var hún full af fólki. Ég spurði eldri konu hvert væri verið að fara með okkur. „Hvert heldurðu, barn?“ sagði hún. „Auðvitað í flóttamannabúðirnar. Og svo úr landi.“ Ég varð dauðhrædd því ég vissi ekki hvernig ég ætti að ná sambandi við fjölskylduna mína. Þau myndu ekkert vita hvað hefði orðið af mér. Flóttamannabúðirnar voru langt fyrir utan borgina. Starfsmaður þar fylgdi mér í tjald þar sem voru bara krakkar á aldrinum átta til fimmtán ára. Einn þeirra, strákur sem hét Ajmal, sagði mér að ekkert þeirra væri í fylgd með foreldrum sínum. Ajmal var níu ára. Foreldrar hans höfðu notað alla peningana sína til að senda hann úr landi þegar stríðið versnaði í borginni þar sem þau bjuggu. Þau höfðu ekki efni á að fara með honum. Hann átti að fara til móður- bróður síns sem bjó hér en þegar hann fann ekki frænda sinn fór hann til lögreglunnar og bað um aðstoð. Þá var farið með hann í flóttamannabúðirnar. Ajmal vonaði að hann gæti fundið fjölskylduna sína aftur einhvern tíma. Foreldrar mínir fundu mig fljótt og gátu hjálpað mér burt úr flóttamannabúðunum. Ég hugsa oft til Ajmal og á aldrei eftir að gleyma honum.“ Veist þú um einhverjar flóttamannabúðir? Hvernig er aðbúnaður barna þar?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=