Ég, þú og við öll

37 Það getur verið erfitt að taka ákvörðun um hvort betra er að flýja eða vera um kyrrt. Elias „Ég var 13 ára þegar stríðið skall á í Afganistan. Mamma mín, ég og litla systir mín bjuggum hjá ömmu minni, frænku og frænda af því að pabbi minn hafði farið á undan okkur yfir landamærin til að hefja nýtt líf. Við áttum að koma til hans þegar hann væri kominn með vinnu. Þorpið okkar var afskekkt og við höfðum verið látin í friði framan af stríðinu. Frændi minn fylgdist vel með fréttunum og hafði miklar áhyggjur. Einn daginn þegar hann kom heim neðan úr þorpinu sagði hann að við þyrftum að koma okkur í burtu, upp í fjöllin. Mamma mín og frænka urðu áhyggjufullar en byrjuðu að taka saman hlý föt og annað sem við þurftum að hafa með okkur. Við litla systir mín vorum send út til að smala hjörðinni upp í fjöllin. Á meðan ætlaði frændi minn að sækja eitthvað af uppskerunni og fóðra skepnurnar sem við myndum þurfa að skilja eftir. Seinna um daginn, þegar við systir mín komum aftur til baka, sáum við að það var eitthvað að heima. Öll hlið og allar hurðir stóðu opnar og það var búið að brjóta og bramla allt inni. Mamma mín og frænka stóðu grátandi inni í eldhúsinu. Vopnaðir menn höfðu farið um þorpið og tekið alla karlmenn sem þeir fundu í burtu með sér. Við fengum engar fréttir í þrjá daga. Svo var okkur sagt að mennirnir hefðu allir dáið. Hver einasta fjölskylda í þorpinu hafði misst ástvin. Eftir jarðafarirnar flúðu allir sem gátu og þorpið var nánast tómt. Eftir jarðarför frænda míns sagði amma við mig: „Elías, sonur minn, nú ert þú orðinn höfuð fjölskyldunnar.“ En ég var ekki tilbúinn til að sjá um stóra fjölskyldu, fjölda dýra og stóran akur. Mikið vona ég að pabbi sendi bráðum eftir okkur öllum.“ Þér finnst líklega að Elias hafi þurft að axla mikla ábyrgð miðað við aldur. Hvað heldur þú að gæti valdið því að hann er látinn axla þessa ábyrgð?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=