Ég, þú og við öll

33 Þótt Mandela tækist að afnema aðskilnaðar- stefnuna í Suður-Afríku hurfu fordómarnir því miður ekki um leið. Kynþáttafordómar leynast víða enn, ekki bara í Suður-Afríku heldur um allan heim. Hér er saga Önnu og Ahmed en þau búa í Svíþjóð. Anna og Ahmed „Ég heiti Anna og bý í hverfi í Stokkhólmi þar sem flestir íbúanna eru innflytjendur frá öðrum löndum. Margir bestu vina minna og bekkjarsystkini eru af afrískum eða arabískum uppruna. Ég er ástfangin af bekkjarbróður mínum, Ahmed. Hann flutti í hverfið í sumar og ég féll fyrir honum strax í fyrsta skipti sem ég sá hann. Hann er með falleg dökkbrún augu, svart hár, dökka húð og bara ótrúlega fallegur. Við urðum fljótt góðir vinir og leið vel saman. Hann skilur mig svo vel og við berum virðingu hvort fyrir öðru. Þegar mér líður illa heima hjá mér, þegar stjúppabbi minn er leiðinlegur við mig eða mamma mín skilur mig ekki, er Ahmed alltaf til staðar fyrir mig og huggar mig. Ég sagði mömmu minni frá Ahmed um daginn. Ég sagði henni að við værum ástfangin hvort af öðru. Mér fannst ekkert auðvelt að trúa henni fyrir þessu og bjóst við að hún myndi skilja mig og styðja mig en í staðinn varð hún bara reið. „Þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ert að koma þér út í,“ sagði hún. „Þú veist ekki hvernig þetta fólk er!“ Svo sagði hún mér sögu af konu sem einhver vinkona hennar þekkti. Konan hafði gifst múslíma og hann umturnaðist eftir brúðkaupið. Konan mátti ekki lengur vinna utan heimilisins og hún var orðin hrædd við manninn. Allan þann tíma sem ég hef þekkt og umgengist Ahmed og fjölskylduna hans hafa þau virst ósköp eðlileg. Mamma Ahmed vinnur úti og pabbi Ahmed er alltaf mjög indæll við okkur. Hann er algjör andstæða stjúppabba míns. Mér finnst sorglegt að mamma mín skuli bara vilja heyra ljótar sögur en taki ekki eftir öllum fallegu samskiptunum milli fólks af ólíkum uppruna beint fyrir framan nefið á sér.“ Sagan sem mamma Önnu sagði henni er svokölluð flökkusaga . Flökkusögur byrja gjarnan á svipaðan hátt, til dæmis á: „Vinur minn þekkir mann sem …“ og svo fylgir sagan á eftir. Flökkusögur ala oft á hræðslu og fordómum. Þær hafa löngum fylgt mannkyninu en útbreiðsla þeirra hefur aldrei verið hraðari en með nútíma tækni. Hvaða flökkusagna þekkir þú til? Hvernig heldur þú að flökkusögur geti ýtt undir fordóma?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=