Ég, þú og við öll

31 Víða í heiminum eru miklir fordómar gagnvart öðru vísi kynhneigð en gagnkynhneigð. Sums staðar er ólöglegt að sýna aðra hneigð en gagnkynhneigð og getur jafnvel verið lífshættulegt. Á Íslandi er það sem betur fer ekki þannig en samt eru fordómar gagnvart kynhneigð fólks hér eins og annars staðar. Það getur verið erfitt að takast á við fordóma annarra og jafnvel eigin fordóma. Þá er gott að geta leitað til einhvers sem getur veitt manni bæði skilning og stuðning. Það gætu verið foreldrar, systkini, vinir eða jafnvel samtök sem vinna að réttindamálum hinsegin fólks eins og Samtökin ‘78. Ungliðahópur Samtakanna ‘78 Samtökin ‘78 eru hagsmuna- og baráttusamtök samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á Íslandi. Innan Samtakanna starfar ungliðahreyfing sem er ætluð hinsegin ungmennum á aldrinum 14 til 20 ára. Ungliðahreyfingin tekur vel á móti öðru ungu fólki og veitir því stuðning við það átak sem fylgir því að átta sig á kynhneigð sinni. Sumum þykir erfitt að segja foreldrum sínum og fjölskyldu frá því þeir séu hinsegin. Sumir kvíða því hvernig vinahópurinn tekur fréttunum. Þess vegna getur verið gott að hitta aðra í sömu sporum til að ræða þetta allt og láta sér líða vel í þessum nýju aðstæðum. Einstaklingurinn sem ákveður að koma út úr skápnum þarf að fá að átta sig á hvað felst í því að lifa sem hinsegin einstaklingur. Þá getur verið gott að geta leitað til einhvers eins og ungliðahópsins. Fyrir aðstandendur, fjölskyldu og vini, er mikilvægt að muna að einstaklingur sem er að koma út úr skápnum er ennþá sama manneskjan og á skilið sömu virðingu og væntumþykju og áður. Það er þó engin skylda að opinbera kynhneigð sína og hverjum í sjálfsvald sett hvort hann eða hún gerir það. Við hvern myndir þú tala um kynhneigð þína? Hvers vegna heldur þú að hinsegin fólk verði fyrir fordómum? Hvernig er hægt að draga úr fordómum gagnvart kynhneigð fólks?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=