Ég, þú og við öll

30 Við bregðum okkur næst í heimsókn til Rússlands. Andrei „Ég heiti Andrei og er 16 ára. Ég er frá Rússlandi. Ég stefni að því að verða læknir og þess vegna geri ég allt sem ég get til að fá góðar einkunnir í skólanum. Það þarf nefnilega að vera með mjög háar einkunnir til að komast í læknanám. Ég var ekki með nógu háar einkunnir í fyrra því ég átti erfitt með að einbeita mér að náminu. Í fyrra varð ég nefnilega ástfanginn í fyrsta sinn; af öðrum strák. Vandamálið var ekki að verða ástfanginn heldur að takast á við það að vera samkynhneigður. Í Rússlandi er ólöglegt að tjá sig opinberlega um samkynhneigð. Það væri alveg eins hægt að láta vera ólöglegt að vera bláeygður, eða með fjórar tær á hægra fæti! Ef ég gæti hætt að vera samkynhneigður myndi ég gera það strax því það er ekki bara ólöglegt heldur lífshættulegt hér. En svona er ég bara. Þetta er hluti af mér, alveg eins og bláu augun mín eða sú staðreynd að ég er rússneskur. Ég hef heyrt sögur af því hvernig hópar nýnasista hafa misþyrmt og jafnvel myrt ungt hinsegin fólk. Ég sé svona hópa út um allt. Þeir eru auðþekkjanlegir og eru ekkert að fela skoðanir sínar. Lögreglan gerir ekkert til að stöðva þá og mætir ekki einu sinni á staðinn þegar hringt er í hana ef ráðist er á hinsegin fólk. Ég hef líka heyrt sögur af krökkum sem hafa verið kærð af foreldrum sínum þegar þau reyndu að segja þeim frá kynhneigð sinni. Þótt ég efist um að mínir foreldrar myndu bregðast þannig við þori ég samt ekki að segja neitt. Eina lausnin sem ég sé fyrir mig er að klára skólann, verða læknir og líklega neyðist ég svo til að flytja svo burt frá Rússlandi.“ Hvaða fleiri lausnir sérðu fyrir Andrei? Hver er staða jafnréttismála meðal hinsegin fólks á Íslandi?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=