Ég, þú og við öll

29 Skaðlegir fordómar Í Senegal býr tíu ára gömul stelpa sem heitir Gisele . Gisele fer hvorki í skóla né út að leika sér við önnur börn. Hún er lömuð frá mitti niður að tám og hefur verið það frá fæðingu. Í þorpinu hennar er talað um að fötlun sé „bölvun guðs“ og að börn eins og Gisele séu byrði á fjölskyldu sinni. Foreldrar Gisele hafa reynt að halda henni sem mest heima við til að vernda hana fyrir öðru fólki. Þau eru sífellt hrædd um hana og hafa ekki aðgang að neinni aðstoð fyrir hana. Guðmundur er níu ára og á heima á Íslandi. Hann er heyrnarlaus. Hann gengur í skóla og foreldrar hans leggja mikla áherslu á að hann hafi sömu möguleika og öll önnur börn á Íslandi. Þrátt fyrir að Guðmundi gangi vel í skóla og eigi foreldra sem þykir vænt um hann þarf hann að kljást við fordóma annarra í kringum sig. Á næstum hverjum degi eltir hópur af eldri krökkum Guðmund heim úr skólanum. Stundum ýta þau honum, stundum stela þau húfunni hans og stundum lemja þau hann. Laurent er átta ára og býr í Gíneu. Hann er blindur og fær þess vegna ekki að fara í skóla. Foreldrar hans halda að hann geti ekki lært neitt af því að hann sér ekki. Systkini hans fylgja honum þess í stað niður í miðbæ og skilja hann þar eftir til að betla. Þar er honum strítt og oft er ráðist á hann. Stundum er peningunum sem hann hefur fengið rænt af honum. Foreldrar hans eru fátækir og telja sig ekki eiga annarra kosta völ en að senda Laurent út að betla. Þau kvíða framtíð hans og halda að hann geti ekki orðið annað en betlari. Það er til fordómafullt fólk alls staðar í heiminum og því miður leggjast sumir svo lágt að ráðast á annað fólk bara af því að það sker sig á einhvern hátt úr hópnum. Ef maður verður fyrir slíku eða verður vitni að því, er mikilvægt að láta einhvern fullorðinn vita svo hægt sé að stöðva það. Fræðsla er líka mikilvægt vopn í baráttunni gegn fordómum. fordómar : fyrir fram gefnar hugmyndir um fólk eða hópa fólks sem oft eru notaðar til að réttlæta mismunun Skoðaðu 19. grein Barnasáttmálans og taktu eftir hvernig hún tengist þessum sögum. Hvernig tengist einelti 19. greininni? Hvern myndir þú láta vita um einelti eða annað ofbeldi?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=