Ég, þú og við öll

28 Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, baráttukona fyrir mannréttindum fatlaðs fólks Embla Guðrúnar Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík þann 12. ágúst 1990. Hún fæddist með hreyfihömlun og hefur alla ævi sína upplifað fordóma vegna þessa. Foreldrar hennar lögðu þó alltaf mikla áherslu á að hún ætti sömu möguleika og tækifæri og aðrir. Embla var ekki nema fjögurra ára gömul þegar hún byrjaði að gagnrýna ýmis viðhorf í samfélaginu gagnvart fötluðu fólki. Þegar hún var sautján ára gömul fór hún að vinna að jafnréttismálum með því að halda fyrirlestra og skrifa greinar. Emblu fannst að hún þyrfti að gera eitthvað í málinu því hún hefur ekki aðeins upplifað fordóma vegna hreyfihömlunarinnar heldur líka vegna þess að hún er kona og samkynhneigð. Hún byrjaði á því að deila reynslu sinni af fordómum samfélagsins í garð fatlaðs fólks í gegnum greinar, blogg og fyrirlestra. Í framhaldi af því fékk hún áhuga á réttindabaráttu fleiri hópa og fór að taka þátt í starfi og viðburðum tengdum því. Hún hefur ferðast víða um heim til að sækja námskeið og ráðstefnur og halda fyrirlestra um jafnréttismál. Embla er stjórnarformaður hjá NPA miðstöðinni og vinnur þar að baráttunni fyrir því að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt. Eitt af því sem Emblu þykir mikilvægt í jafnréttisbaráttunni er að ræða um jafnrétti við eins marga og hún getur og taka opinbera afstöðu með jafnrétti. Hún segir að það séu til margar leiðir til að hafa áhrif til góðs. Það skiptir máli að vera samkvæmur sjálfum sér, láta ekki vaða yfir sig, virða réttindi ólíkra hópa samfélagsins og vera góð fyrirmynd. Ráð hennar til ykkar er: „Mig langar til að hvetja ungt fólk á Íslandi til þess að láta í sér heyra og hafa áhrif á samfélagið. Þið eruð fólkið sem mun taka við að stjórna landinu. Þið hafið svo ótrúlega mikið að segja og getið haft mikil áhrif á samfélagið!“ Hvað gætir þú gert til að láta rödd þína heyrast?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=