Ég, þú og við öll

26 Sigríður María Egilsdóttir, baráttukona fyrir jöfnum rétti kynjanna Sigríður María Egilsdóttir fæddist í Reykjavík þann 1. nóvember 1993. Hún fór snemma að velta jafnréttismálum fyrir sér og tók fljótt eftir því að samnemendur hennar í skólanum virtust hafa mjög brenglaða mynd af hugtakinu femínismi. Hinir nemendurnir vissu jafnvel ekki einu sinni hvað femínismi er. Hún fann líka fyrir ýmsu í umhverfinu sem benti til þess að strákar og stelpur stæðu ekki jafnfætis í lífinu. Þetta varð til þess að hún ákvað að láta til sín taka á sviði jafnréttismála. Sigríður María var félagi í Femínistafélagi Verzlunarskóla Íslands en hún útskrifaðist úr skólanum sem stúdent vorið 2013. Sigríður María er mikill ræðusnillingur og hefur keppt í ræðukeppnum á borð við MORFÍS og ræðukeppni enskumælskufélagsins, ESU. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir ræðumennsku og varð fyrsta stelpan til að vera valin ræðumaður Íslands síðan árið 1999. Þegar Sigríður María fær að velja sér umræðuefni sjálf heldur hún gjarnan ræður um jafnréttismál. Hún fjallaði einmitt um jafnrétti kynjanna í ræðu sem hún hélt á alþjóðlegu ráðstefnuröðinni TED X í Reykjavík árið 2013. Sigríður María hefur augun opin, beitir gagnrýninni hugsun og er tilbúin til að berjast fyrir jafnrétti þegar hún tekur eftir óréttlæti. Ráð hennar til ykkar er: „Maður kemst ekki í gegnum lífið án þess að mæta hindrunum en ef maður ætlar að ná árangri þá verður maður að mæta þeim af óbilandi krafti. Kynjamisrétti er staðreynd í okkar samfélagi og ungt fólk á ekki að leyfa því að standa í vegi fyrir sínum markmiðum.“ Hvaða dæmi um kynjamisrétti á Íslandi þekkir þú? Hvers vegna er mikilvægt að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu? Er hægt að segja að til séu sérstök kvennastörf eða karlastörf? Hvers vegna, hvers vegna ekki?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=